Elsta veiðihús landsins?

Kofinn fallegi. Svo er þarna líka nýrra svefnhús fyrir fleiri. Mynd Ásdís G.

Það er hald okkar að gamla veiðihúsið við Straumana í Borgarfirði sé elsta veiðihúsið sem í notkun er hér á landi. Lengi vel var álíka gamalt veiðihús við Grímsá, í sama héraði, en þegar nýtt risahús var byggt þar til að þjóna allri ánni, var það það gamla af einhverjum óskiljanlega vitlausum ástæðum rifið. Kannski ekki þótt mikill sómi af gömlum bárujárnskofa við hliðina á höllinni?

Sér yfir Bugtina og Strenghorn. Hátt í þarna. Mynd Ásdís G.

Ritstjóri VoV hefur veitt í Straumunum af og til í gegn um árin, bæði á laxatíma um sumar, sem og á sjóbirtingstíma í september. Bæði tímabilin eru frábær og veiðistaðurinn með ólíkindum aðlaðandi. Það eru ekki mörg veiðisvæðin fyrir lax ög birting, að þú ekur upp að húsinu og hreyfir ekki bílinn aftur fyrr en haldið er heim á leið á ný.

Þetta er sem sagt slökunarstaður upp á fimm stjörnur og alls ekki vandveiddur. En meira um það síðar í þessum pistli. Eitt af því sem gefur Straumunum þennan ofboðslega sjarma er gamla veiðihúsið sem stendur við fallegan skógarlund nánast á árbakkanum við besta veiðistað Straumana, Strenghornið. Húsið er stórmerkilegt fyrir þær sakir að þetta mun vera elsta veiðihús landsins. Það mun hafa verið byggt af enskum veiðimönnum um 1930, en all nokkrir slíkir vöndu komur sínar hingað á þeim árum. Tók ekki fyrir það fyrr en síðari heimsstyrjölin skall á. Í bókum Björns J.Blöndal er oftlega getið um Wenner bræður Max og Kapteininn. Þeir leigðu bæði Strauma og Svarthöfða, þar sem Reykjadalsá og Flóka renna saman í Hvítá, og skiptust iðulega á stöðum, voru viku á hvorum stað á meðan á dvöl þeirra stóð. Skiptu stundum daglega. Þeir veiddu og víðar, ekki síst í Grímsá.

Húsið er lítið og ber þess merki að vera orðið vel gamalt. Þó hefur því verið haldið prýðilega við. En það má ekki líta af svo gömlum húsum, þau eru fljót að verða sjúskuð. Þetta hús er mikill menningar- og sögulegur gullmoli og tilvist þess gerir mann bara enn reiðari að einhverjum hafi dottið til hugar að rífa gamla húsið við Grímsá. Bara hneisa.

Gamlar myndir á veggjum segja gamla sögu…..

En aftur að Straumunum og gamla húsinu þar. Einstaklingur sem þangað kom nýverið sagði stundarhátt: Hér eru góðir straumar, hér hefur oft verið fjör og gleði. Án efa rétt. En sagt er líka að húsið sé, eða hafi a.m.k. fyrrum, verið reimt. Björn J.Blöndal gerir því skil í bók sinni Hamingjudagar sem út kom árið 1950. Atvikið sem hann skráir er þó mun eldra, eða frá þeim tímum sem að Wenners bræður og aðrir breskir stórlaxar veiddu á svæðinu. Söguna hefur hann eftir Max Wenner. Kíkjum aðeins á:

-Max trúði lengi vel ekki á annað líf og taldi allar sögur um dulræn efni uppspuna einn og að þær stöfuðu af skorti á athyglisgáfu eða röngum ályktunum. Oft sagði hann: „Aldrei sá ég draug“. En svo kom sá dagur að Max sá „draug“. Max hafði á leigu frá Sigurði Fjeldsted í Ferjukoti „Straumana“, og fylgdi þeim veiðihús það, er þar stendur enn. Það var vani þeirra bræðrana, að annar þeirra veiddi Straumana, en hinn Svarthöfða, og skiptu þeir oft daglega um veiðistaði. Sváfu þeir einir í Straumahúsinu um nætur.

Bjarta júlínótt lá Max í rúmi sínu og var að lesa í bók. Taldi hann sig hafa lokað húsinu tryggilega, og hann var reglusamur maður. Sá hann þá, að dyrnar að svefnherbergi hans opnuðust, og miðaldra maður gekk inn. Ávarpaði Max hann, en hinn ókunni svaraði engu. Gekk hann fast að rúminu og laut yfir hann. Rétti Max þá út hendurnar og ætlaði að grípa hinn óboðna gest. En hann greip í loftið tómt. Maðurinn hvarf. Max snaraðist út úr rúminu og leitaði vandlega í herberginu og um allt húsið. Dyr voru læstar og allir gluggar nema svefnherbergisglugginn einn.

Og nú varð Max hræddur. Fór hann í skyndi í sokka og buxur og hljóp á sokkaleistunum í Ferjukot. Sagði hann Sigurði Fjeldsted, að draugur væri í húsinu við Straumana. En hinn gamli og rólegi Fjeldsted kinkaði vinalega kolli og taldi hann hafa gott af brennivínsstaupi.“

Garðar H. Svavarsson með þá stóru jafn löngu 20 og 29 pund.

Straumarnir hafa alltaf varið frábært veiðisvæði, en tekið breytingum í áranna rás. Þannig skráir Björn Blöndal aðra sögu þaðan. Ekki munum við hvort að það voru Wenners bræður sem þar komu við sögu, en breskir stórlaxar voru það. Þannig er, að Norðurá, að viðbættri Gljúfurá, rennur saman við Hvítá við Straumaklöpp. Klappartangi sem gengur þarna út við ármótin. Hin seinni ár er þetta ekki ýkja mikill veiðistaður, en fyrrum var staðan önnur.  Björn segir frá Bretum sem fóru að Straumaklöpp. Norðurá er lygn og hæg þarna með gróðri í botni. En þarna lágu laxar í „den“. Iðulega sannir stórlaxar. Samt erfitt að veiða þá. En Bretarnir dóu ekki ráðalausir. Þeir voru með sínar frumstæðu línur sem sukku, en með því að bera á þær feiti, þá var hægt að halda þeim á floti. Og þetta gerðu þeir þarna við Straumaklöpp. Menn notuðu aðeins stórar flugur á þessum árum, þeim var kastað og dregnar hægt inn. Og þetta svínvirkaði. Þarna var kannski kominn fyrsti vísir að flotlínuveiði…og strippi?

Seinna, en samt fyrir löngu síðan voru menn enn að gera góða túra í Straumana. VoV birti viðtal við Garðar H. Svavarsson, sem nú er látinn, árið 1983. Hann sagði frá mögnuðum degi við Straumana. Þetta hefur verið öðru vísi þá en nú, því hann talaði um sandeyri neðarlega í Bugtinni. Þar er engin sandeyri lengur. En þar sá hann stóran fisk sýna sig. Hann óð út ofarlega í Bugtinni og renndi maðki niður breiðuna. Lax tók strax og það var enginn tittur, 20 punda lax. Garðar var fljótur að þræða nýja maðka á öngulinn, því annað stórhveli sýndi sig. Og aftur setti hann í mikinn fisk. Þessi var 29 pund og þegar hann hafði landað honum á sandeyrinni sem um ræðir, þá varð syni hans litið niður að á, Garðar og laxinn í handalögmálum. Sonurinn Haukur Geir Garðarsson sem sjálfur er snjall veiðimaður og leigutaki Laxár í Leirársveit til fjölda ára, æpti upp yfir sig: „Mamma, mamma, laxinn er að drepa pabba“ Reyndar varð niðurstaðan hið gagnstæða. En það magnaða var, að laxarnir tveir, 20 og 29 pund, voru jafn langir.

Svona mætti lengi halda áfram, sögur og sagnir svífa þarna um í tímalausu algleyminu. Smyrill sem ræðst á Devonsíli sem vingsar í golu á pallinum þar sem veiðimenn sitja úti í blíðunni og njóta þess að borða úti. Smyrillinn ærist stöðugt meira eftir því sem atlögum fjölgar, án árangurs, og sílið vingsar bara meira til og frá stönginni. Á endanum stekkur veiðimaður til að hremmir stöngina og festir sílið við stangarlykkju. Hafi smyrillinn verið óður, þá fór allt á nýtt og hærra plan. Atlögur hans beindust að veiðimönnum og endaði hádegismaturinn úti í sólinni með þeim hætti að veiðimenn ruddust inn í húsið með smyrilinn á hælunum. Og þannig mætti lengi telja…