Veðurfar hefur haft mikil áhrif á framgang silungsveiðinnar nær allan maimánuð. Sumir ganga svo langt að tala um verstu byrjun allra tíma, en ætli svoleiðis pælingar eigi ekki frekar við um veiðiveðrið, því þegar lag hefur verið hafa margir verið að setja í fiska.
Það er farið að draga úr sjóbirtingsveiðinni, enda stutt í júní, en veiði á staðbundnum silungi fór nokkuð vel af stað þegar leið á apríl og fyrstu dagana í mai. Þá fór að halla undan fæti veðurfarslega og þá stóðu, eðli málsins samkvæmt, færri veiðimenn vaktina. Og þeir sem hörkuðu af sér stoppuðu yfirleitt stutt. En tilfellið er, að margir þeirra sem hörkuðu af sér fengu umbun síns erfiðis. Kristinn Ingólfsson sem rekur veiðileyfavefinn veida.is var t.d. nýlega með frétt hjá sér sem sagði frá góðri veiði í Hólaá, Hlíðarvatni og Skálholtssvæðinu í Brúará. Einnig að tveir félagar hefðu landað 24 vænum bleikjum á stuttum tíma fyrir landi Torfastaða í Soginu. Kristinn selur á þessi svæði, og mörg fleiri, og fylgist grannt með gangi mála. Í kuldatíðinni er fátt sem yljar meira en að lenda í botnlausri töku.
VoV getur við þetta bætt smá fréttamolum sem gætu hvatt einhverja til dáða. T.d. heyrðum við af einum sem fór á veiðisvæði Úlfljótsvatns við kirkjuna og landaði þremur vænum bleikjum. Sá stoppaði stutt. Það gerði einnig annar sem brá sér í Vífilstaðavatn og kom sér fyrir þar sem rokið blés í bakið. Með Peacock nr 14 hafði kappinn fjóra fiska á klukkustund. Var þá búinn að fá nóg. Þrír voru ríflega punds urriðar, sá fjórði tæplega 2 punda bleikja.