Bleikjur upp í ríflega 60 cm í Hlíðarvatni

"Halli og Kalli" eru þessir kappar nefndir á FB síðu Hlíðarvatns, með 58 og 62 cm bleikjur úr Botnavík.

Vatnaveiðin hefur víða verið með ágætum, sérstaklega í byrjun og síðan aftur þegar fór að hlýna á ný fyrir skemmstu eftir stutt og snaggaralegt kuldakast, sem náði þó varla að kallast hret. Hlíðarvatn í Selvogi er eitt þeirra vatna sem hafa gefið góð skot og væna fiska í bland.

Myndin að ofan er fengin að láni af FB síðu Hlíðarvatns og sýnir veiðimenn með 58 og 62 cm bleikjur sem þeir lönduðu í Botnavík fyrir skemmstu. Eftirminnileg stund hjá þeim félögum því aðeins liðu tíu mínútur á milli fiska. VoV hefur haft nokkrar spurnir af gangi mála í Hlíðarvatni. Það er nokkuð opið fyrir sunnan og austanáttum og því strembið á köflum, en víða er hægt að snúa baki í vindinn. Við heyrðum af einum sem landað 11 bleikjum, flestum við komuna um kvöldið. Annar fékk 8 stykki á Mölinni á þremur tímum og enn einn, sem var einnig í Botnavík, landaði sem á einni kvöldstund. Sá veiðimaður sá menn víða í kring um sig vera að dýfa háfum undir bleikjur. Í þessu litla frétta-samansafni hefur verið rætt um bleikjur upp í 55 cm og ekki mikið talað um fiska undir 45 cm. En menn eru misheppnir í þeim efnum.

Það er sem sagt allt gott að frétta úr Selvoginum og ástæða fyrir vini vatnsins að hlakka til þess sem koma skal á nýhafinni vertíð.