Geldfiskar og tröll áberandi

Marteinn Jónasson með fallegan vorbirting úr Tungulæk. Myndin er af FB síðu Marteins.

Veiði á staðbundnum og sjógengnum silungi hefur gengið á heildina litið afar vel síðan að opnað var um og upp úr 1.apríl. Að vísu hefur rysjótt tíð gert mönnum lífið leitt á köflum en hlýindin í apríl segja til sín.

Nokkrir punktar eru áhugaverðastir. Það mætti t.d. nefna að mjög stórir birtingar eru fleiri en fyrr og hafa nú þegar veiðst upp í 100 cm tröll (Tungulækur). Slíkir fiskar veiðast nú orðið árlega haust og vor, en voru afar sjaldséðir fyrir nokkrum árum. Þetta má eflaust þakka því að víðast er öllum sjóbirtngi sleppt og lífshlaup hans er býsna langt. All nokkrir um og yfir 90 cm hafa og veiðst og það frekar víða.

Helgi Guðbrandsson með svakalegan 93 cm hæng úr Eldvatni. Gæti verið Þórðarvörðuhylur. Myndin er af FB síðu Helga.

Einnig mætti nefna að svo er að sjá að geldfiskur sé nú meira áberandi en nokkru sinni síðustu árin. T.d. var stór hluti stórafla veiðimanna í Tungulæk um Páskana fiskur í geldfiskstærð, 45 til 60 cm. Þetta minnir nokkuð á gamla góða daga í ánni þegar vissir veiðistaðir voru svartir af fiski og það þurfti bara að mæta til að moka.

Þá eru geldfiskar þessir í umræðunni þetta vorið þar sem fyrir kemur að menn telji sig vera að berjast við nýgengna fiska. Þeir eru silfraðir og í afar góðum holdum, ekkert líkir hrygningarfiski frá haustinu áður. Þó að flestir séu þeir í umræddum 45-60 cm stærðarflokki, geta þeir einnig verið stærri. Fyrir nokkrum árum voru t.d. greindir geldfiskar í Tungulæk sem slöguðu í 10 pundin. Fiskar af þessu tagi eru víða í ám Vestur Skaftafellssýslu og einnig er Húseyjarkvísl þekkt fyrir þá. En eru þeir nýgengnir? Ekki sést lús á þessum vorbirtingum, en þeir eru bjartir og margir með laust hreistur. Þórarinn Kristinsson, fyrrum eigandi Tungulækjar sagði sig og vini sína oft hafa veitt geldfiska fram eftir öllum vetri. Alveg fram í febrúar. Hann sagði að geldfiskurinn væri að koma og fara allan ársins hring.

Ásgeir Ólafsson með fallegar bleikjur úr Vífilstaðavatni nú um Páskana. Myndin er af FB síðu kappans.

Þá er gaman að segja frá því að víða er vatnaveiðin, þ.e.a.s. veiði á staðbundnum silungi, að koma hressilega til. Þekkt veiðikló, Ásgeir Ólafsson, landaði t.d. tveimur vænum bleikjum í Vífilstaðavatni nú um Páskana og er það óvenju snemmt fyrir bleikjuna í vatninu. Við höfum heyrt af fleirum sem hafa sett í fiska í vatninu í vor. Þá hermdu fréttir að í dag hafi rykmý verið í strókum við Elliðavatn. Hefð er fyrir því að opna vatnið á Sumardaginn fyrsta, sem ber upp á 20.apríl n.k. Þá hafa verið öflug skot á helstu urriðamiðum Þingvallavatns og fiskur að venju rígvænn að meðaltali.