Stefnir í kalda opnun?

Fallegur sjóbirtingur

Segja má að það séu aðeins nokkrir dagar í að vertíðin hefjist. Veðurguðirnir virðast þó ekki vera á sömu skoðun og nema að eitthvað breytist verulega fram að mánaðamótum, þá verður opnunin köld og menn fara fljótlega að telja puttana, hvort þeir séu ekki allir á sínum stað.

Það er samt ekkert nýtt að allt sé frosið fast 1.apríl. Það sem skilur á milli núna eru þessar öfgar í veðrinu, þessir löngu frostakaflar. Ef við nefnum nokkra af þeim helstu stöðum sem athyglin beinist að í byrjun vertíðar, t.d. Geirlandsá, Tungufljót, Húseyjarkvísl og fleiri, þá eru þar núna ísalög. Dæmi eru um í frostaköflum við mánaðamót mars og apríl, að meira að segja lindár á borð við Tungulæk, Eldvatn og Minnivallalæk, geta frosið. Og þá er veiðimönnum vandi á höndum. Fræg er uppákoman við Geirlandsá fyrir nokkrum árum þegar allt var frosið í opnun. Stjórn SVFK opnaði ána þá eins og endranær og liðsmenn mættu í Ármótin með haka og skóflur og beinlínis réðust á ísinn, börðu hann í spað og ýttu jökum niður mjóa opna rás í miðju árinnar. Eftir stutta stund fóru þeir að kasta og mokveiddu.

Frægar eru einnig myndir frá opnun Tungufljóts þegar menn voru að vaða út og lenda í þeim hættulegu aðstæðum að heilu jakarnir skullu á þeim og erfitt var um vik að standa í fæturnar, svo þung voru höggin.

En veður er fljótt að breytast á Íslandi og ekki á vísan að róa. Kannski kemur hláka. Þá koma flóð og ekki er það mikið skárra. En VoV mun fylgjast með opnun hinna ýmsu svæða, hér eru nokkur markverð sem opna 1.apríl n.k.: Ytri Rangá, Eystri bakki Hólsár, Varmá, Vatnamót, Tungulækur, Tungufljót, Geirlandsá, Minnivallalækur, Húseyjarkvísl, Leirvogsá og ýmis svæði Sogsins. Svæðin eru miklu fleiri og við gerum fljótlega úttekt, enginn sem er spenntur ætti að þurfa að sitja heima.