Loftköst í Holunni í Tungulæk, rígvænn birtingur hefur sig til flugs. Myndin er fengin af FB síðu Strengs.

Stærsti sjóbirtingur sem við höfum haft spurnir af á þessu vori kom nýverið á land úr Geirlandsá og var mældur 97 cm, tekinn á flugu í Ármótunum. Því miður er mynd ekki í boði, atvik höguðu því á þann veg, en ekki þarf að efast, áður hafði 96 cm drjóli verið myndaður og mældur eins og sjá má í frétt hér á VoV fyrir fáum dögum.

Gamall og lífsreyndur hængur, 89 cm úr Eldvatni.

Sem sagt sá stærsti hingað til. Það er færsla um hann í veiðibók Geirlandsár, en við getum ekki sagt meira um hann, a.m.k. ekki að sinni. All nokkrir 90 til 97 cm tröll hafa veiðst. Mjög stórir birtingar einkenna einmitt vorvertíðina að þessu sinni, jafnvel meira heldur en síðustu árin þegar menn hafa markvisst tekið eftir því að sjóbirtingur væri í sókn og stórum gömlum fiskum fjölgaði. Sjálfsagt á sleppiskylda í flestum ánum og mjög svo hófleg kvótaregla annars staðar sinn þátt í þessu ferli. Dæmi er frá Páskunum austur í Eldvatni. Þar hafa nokkrir staðið vaktina og í dag hafði páskaveiðin numið milli 20 og 30 birtingum. Fimm þeirra mældust 81 til 89 cm og meðallengd þeirra 43 fiska sem komnir voru í bók var 75 cm. Þetta er magnað og sömu sögu að segja nánast alls staðar.

Efsta myndin með þessum pistli er frá Holunni í Tungulæk og þar er sama sagan, enda má glöggt sjá að sá sem stekkur er engin smásmíði. Myndin er fengin af Facebook síðu Strengs, sem hefur umsjón með veiðileyfasölu í ánni.