
Stórlaxarnir eru að veiðast fyrir norðan, sérstaklega í Laxá og ekki bara í Nesi. Það fréttist mikið þaðan, en svæði Laxárfélagsins eru einnig að skila tröllunum á land. Þrjá risa höfum við heyrt af að undanförnu, sá stærsti þeirra litlir 107 cm!


Stærsta laxinn veiddi Kristian, sem ekki er feðraður á FB síðu Laxárfélagssvæðanna á FB, en þar kemur þó fram að laxinn var 107 cm og veiddur í Hólmakvísl. Síðan er annar 106 cm sem Lars, sem ekki er heldur feðraður á FB, sem setti í sitt tröll í Fosspolli á fluguna Wolfowhich. Loks má segja frá hrygnu af stærðargráðunni 103 cm sem að Kjartan Ólafsson landaði á Spegilflúð. Þetta eru ekki amalegir laxar, en öllum var sleppt aftur eins og lög gera ráð fyrir og því ekki útilokað að fleiri eigi eftir að fá að glíma við höfðingjana.









