Friggi, Baldur Hermannsson.
Fallegur lax með Frigga í kjaftvikinu.. Nú er þeim mörgum borgið næsta áratuginn.

Það má segja að á morgun byrji stangaveiðivertíðin, en þá verður haldin Íslenska fluguveiðisýningin sem inniheldur m.a. IF4 kvikmyndahátíð og Iron Fly fluguhnýtingarkeppnina. Við höfum sagt frá þessu áður en viljum hnykkja á, Gunnar Pedersen og Kristján Rafn hjá Fish Partner standa fyrir þessu og hafa fengið stuðning víða að.

 

Herlegheitin byrja klukkan 15 þar sem fluguveiðisýningin er í anddyri Háskólabíós. Í einn og hálfan tíma munu menn spranga um og skoða bása þeirra sem selja veiðileyfi og veiðivöru. Mikil aðsókn er tryggð þannig að veiðisögur munu fjúka. Klukkan 17.30 hefst málstofa um sjókvíaeldi á Íslandi, það umdeilda mál. Að því loknu verður sýnt sýnishorn af nýrri mynd Icelandic Wildlife Fund þar sem umfjöllunarefnið er sjókvíaeldið umdeilda. Síðan kemur kvikmyndin „Hidden“ í stóra salnum…..þeir sem séð hafa brot úr myndinni eða meira, eru á einu máli um að um meistaraverk er að ræða. Myndin er öll tekin upp á Íslandi. Þá kemur fluguhnýtingarkeppni í anddyri, uppboð á veiðileyfum og veiðivörum og loks tveggja klukkustunda kvikmyndagleði.

 

Menn taka eftir því að það er aðgangseyrir. Hver einasta króna rennur til verkefna er stuðla að verndun náttúru, lífríkis og stofna laxfiska. Það er einhvers virði er til framtíðar horfir.