Nils Folmer Jörgensen gerir það ekki endasleppt. Í morgun landaði hann 106 og 111 cm löxum úr Víðidalsá og lauk hann þar með laxveiðivertíð sinni með óvenju miklum stæl. Þetta er einstök veiðifrétt og hér er sagan:

En fyrst þetta, upplýsingar sem voru að finna á frísvæðinu okkar: Stærri laxinn var hrygna sem tók fluguna Radian (heimasmíð Nils) í Harðeyrarstreng. Svona stórar hrygnur eru fágætar og er þyngd þeirra miðað við lengd mun meiri en hjá hængum vegna þess hversu þroskuð hrognin eru orðin. „Smærri“ laxinn veiddi Nils á sömu flugu í Dalsárósi.

Engin smásmíði hrygnan úr Harðeyrarstreng. Víðidalsá er fræg fyrir stórlaxa, en svona risi hefur ekki veiðst þar um árabil. Mynd Jóhann Rafnsson.

Hrygnan var þrímæld af Jóhanni Rafnssyni staðarhaldara og umsjónarmanni Víðidalsár, en Jói er frægur fyrir nákvæmnisvinnu sína við mælingu á löxum. Fyrir fáum dögum landaði Árni Pétur Hilmarsson 111 cm hæng á Nesveiðum Laxár í Aðaldal og 110 cm hængur var dreginn um helgina úr Vatnsdalsá. Þessi lax er þó sennilega sá þyngsti þar esem um hrygnu er að ræða. Þær eru þyngri en hængarnir, sérstaklega þegar komið er langt inn á haustið. Það stafar af vexti og þroska hrogna á meðan að hængar leggja ríflega af þegar nær dregur hrygningu. En hér er saga Nils Jörgens:

„Guð minn góður, þessi morgun í Víðidalsá er einhver geggjaðasta upplifun sem ég hef átt við laxveiðar. Ef ekki sú geggjaðasta. Þetta byrjaði í þeim fræga veiðistað Dalsárósi þar sem stór og sterkur hængur tók hjá mér Radian númer 12 og byrjaði á að æða alveg niður á brot. Þar tókst aðs töðva hann og síðan þreytti ég hann góða stund og var nærri því að landa honum þegar flugan losnaði úr honum og hann synti frjáls ferða sinna á ný. Áætluð lengd var 95 sentimetrar. Þetta pirraði mig nokkuð því veiðitúrinn hafði reynt nokkuð á fram að þessu. En ég fór aftur efst í hylinn og byrjaði aftur. Gæfan brosti við mér, ég setti í og landaði farsællega 86 sentimetra hrygnu. Og hvers vegna ekki að reyna aftur fyrst að Dalsárósinn var í gjöfulu skapi? Við „hvíta steininn“ tók svo hrikalegur fiskur sem stökk strax tvisvar hátt uppúr og æddi svo niður úr hylnum og niður í þann næsta. Þar barðist ég við hann og hafði betur á endanum, en sterkur var hann og mikil gleði þegar háfurinn umlukti hann. Þetta var algerlega stórkostlega flottur Víðidalshængur, 106 sentimetrar og 56 sentimetra ummál. Þykkur og mikill sem sagt. Þetta reyndist vera sá stærsti úr ánni í sumar og annar 106 sentimetra laxinn minn á vertíðinni. Ég var staddur í Himnaríki.

Þetta er Radian, í væsnum hjá Nils Folmer.

En maður fer ekki á þetta svæði án þess að líta við í Harðeyrarstreng. Þar missti ég strax einn góðan og annan reyndar í Silungabakka. En þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í eitt tók hrikalegur fiskur Radian fluguna hjá mér. Í fyrstu var ég bara dreginn fram og til baka og hjartað missti slag þegar ég sá laxinn í fyrsta skipti almennilega. Hvílík stærð! Þegar laxinn var loks kominn í háfinn varð undrun okkar Jóa enn meiri þegar við sáum að þetta var hrygna. Jói (Jóhann Hafnfjörð Rafnsson), sem er einn leigutaka árinnar, mældi laxinn með mér og við gerðum það þrisvar til að vera vissir og nákvæmir. Niðurstaðan var 111 sentimetrar og 57 sentimetrar í ummál og hrygna í þokkabót. Metlaxinn minn frá því fyrr um morguninn var sem sagt kominn í annað sætið. Þetta er reyndar stærsti lax sem veiðst hefur í ánni í mörg ár ef út í það er farið. Laxinn var svo þungur að það erfitt að halda honum fyrir myndatökur. Jói hafði rétt fyrir sér, hann hefur haldið því fram í allt sumar að það væri 110 sentimetra lax í ánni, en satt best að segja reiknuðum við með því að um hæng væri að ræða. Hrygnur af þessari stærð eru sjaldgæfar og þær eru þyngri en hængarnir.

Þannig að: Tveir síðustu laxarnir mínir 2017 voru metlaxar, hversu klikkað er það? Frábært! Ég er þakklátur fyrir svona upplifun og líka að geta deilt henni með góðum vini. Ekki síst vegna þess að það er gott að hafa vitni að svona ólíkindum. Takk aftur Víðidalsá fyrir að sýna mér töfra þína í góðum félagsskap.“