All nokkuð hefur borið á bleiklöxum, eða hnúðlöxum í íslenskum ám það sem af er sumri, en um er að ræða Kyrrahafstegund sem reynt var að koma í rússneskar ár í Hvítahafi fyrir margt löngu, en gekk ekki sem skyldi. Hins vegar finnast þeir út um allar koppagrundir æ síðan, m.a. á Íslandi.
Guðni Guðbergsson sagði í samtali við VoV að hann hefði frétt af níu löxum af þessu tagi það sem af væri, en til þessa hefði enginn þeirra laxa skilað sér inn á borð hjáhonum eða kollegum hans hjá Vmst. Hvort að þetta væri meira eða minna en gengi og gerðist sagði Guðni: „Ekki gott að segja varðandi fjölda og líklega verðum við að bíða og sjá þegar veiðibækurnar skila sér í haust og fara í skráningu.“
Þekkt er, að fréttir af bleiklöxum/hnúðlöxum berast yfirleitt þegar hængar veiðast. Þeir þekkjast vel, eru með ferlegan og vel tenntan kjaft og hnúð á framanverðu bakinu. Hrygnan siglir ef til vill frekar undir radarinn því að hún líkist all nokkuð sjóbleikju og gæti því vel hugsast að fleiri væru að veiðast heldur en fram kæmi. Sjá myndina að ofan það sem Kristján Páll frá Fishpartner sýnir bleiklaxahrygnuna sem hann veiddi á austfirskum sjóbleikjuslóðum fyrir skemmstu. Á sínum tíma reyndu Rússar að rækta þennan fisk í ám sem renna í Hvítahaf. Hugsunin var að bleiklaxinn hrygnir neðst í ánum og seiðin ganga út sama voru og þau klakjast. Þannig átti ekki að vera samkeppni milli þeirra og villtra laxaseiða um búsvæði og fæðu. Það er því von að spurt sé hvort að hugsast geti að bleiklaxar hrygni eða hafi hrygnt í íslenskum ám…hvort að seiði þeirra hafi fundist?
Guðni svaraði þessu svona: „Hnúðlax hrygnir neðst í ánum og seiðin ganga út vorið sem þau klekjast. Við höfum ekki fundið seiði og ekki verið að leita á líklegum stöðum á líklegum tíma. Það hefur ekki komið fram þörf fyrir það enn sem komið er. En hann hrygnir í nokkrum ám í Noregi.“












