Við höldum áfram og hér er komin fimmta  greinin sem birtist hér þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna. Hér lokum við umfjöllun um skilyrði og ræðum flugnaval.

Ljósaskipti og fram í myrkur?

JE: Frábær og spennandi veiðitími. Við öll skilyrði á þessum tíma veiðidagsins nota ég undantekningarlaust langa tauma og stórar svartar flugur, Wooly Bugger, Sun Ray Shadow eða svartan Nobbler. Best reynist að strippa og fiskur getur verið að taka alveg fram í rauðamyrkur. Þeir sem halda að fiskur sjái ekki svarta flugu í myrkri  geta gleymt því. Hann sér hana vel og tekur oft með afbrigðum vel í ljósaskiptum og myrkri. Þetta er þó aldrei einhlýtt, ef að það snöggkólnar getur öll taka lagst af.

BM: Hlýtur að vera uppáhaldstími allra urriðaveiðimanna. Stóri fiskurinn fer af stað. Koma oft mjög nálægt landi. Þarna gengur nú flest allt ef fiskurinn er á annað borð nálægt. En sjálfur hef ég gaman af því að skipta upp og setja stærri flugur, kasta meðfram landi leita að stórum fisk. Stóri urriðinn er frekar latur og ef hann fær val velur hann stærri fæðuagnir því þá þarf hann að veiða minna –  stór fiskur étur stórar flugur.
Í myrkri vel ég stærri, meira dressaðar flugur, jafnvel með silly-kónum sem að valda meiri víbringi í vatni. Mikið dressaður Sunray virkar einnig vel í myrkri strippaður hratt. Sjóbirtingurinn gengur upp árnar í myrkri og því kemur oft órói á þann fisk sem fyrir er á stöðunum og það kveikir oft á tökunni.

RH: Frábær tími fyrir urriða og alveg sérstaklega í sjóbirtingi. Alls ekki sleppa þessum tíma veiðidagsins!

gg: Tek undir með félögunum að ljósaskipti og myrkur eru töfrum þrungnar veiðistundir. Meðalstór fluga, sem má vera svört, veidd djúpt og hægt, eða hærra uppi og hratt virkar. Setti eitt sinn í fjóra stórbirtinga í beit í Hrókshyl í Grenlæk í svo svörtu myrkri að ekki sá í lófann þó að honum væri haldið tuttugu sentimetra frá andlitinu. Flugan var svartur Nobbler sem hefði verið skipt út fyrr ef ekki hefði verið orðið of dimmt til að sjá til. Skyndilega fór fiskur að taka. Einn náðist, 5 punda, hinir þrír sluppu og voru auðfinnanlega allir stórir því allt fór í keng og ekki varð við neitt ráðið. Í eltingarleik upp og niður bakkann, hrasaði veiðimaður og datt ítrekað á hausinn. Mikið ævintýri og ekki það eina sem ritstjóri hefur upplifað í myrkurveiði.

 

Hvaða 5 til 6 silungaflugur myndir þú aldrei skilja við þig?

JE: Erfitt að halda sig við 5 til 6 tegundir. Ég myndi flokka þetta i fernt, púpurnar, þar má nefna Krókinn, Rollu, Glóð, Blóðorm, Phesant tail og flugurnar hans Súdda í Breiðdal, BBB og Selmu Dröfn. Síðan votflugurnar Tiel and black og Tiel and blue, Peter Ross, Black Pennel og votfluguútgáfuna af Black Gnat. Straumflugurnar Black Ghost, Rektor, ýmsa Nobblera og stóra Sunray Shadow. Loks þurrflugurnar Galdralöpp, Adams og Klinkhammer parachute.

BM: Þegar stórt er spurt, Black gnat parachute #14, Langskeggur eftir Örn Hjálmars, Krókurinn#12, Öfugur krókur#12, hvítur Nobbler #8,Tailor #16

RH: Ekki spurning, Peacock, Krókur, Phesant tail, Black Ghost og Heimasæta.

gg: Ætla að blanda mér í þetta og fara að ráðum félaga míns Jóns Eyfjörð og svindla aðeins á flugufjöldanum.: Phesant tail, Glóð, Peacock, Krókur, Black Ghost, ýmsir Nobblerar, m.a. hvítur, bleikur og svartur. Ýmsar af flugum Súdda á Breiðdal og púpuafbrigði af Heimasætu og Bleikri og blárri. Þá hefur mér oft gengið afar vel með Beyki.

Hvers vegna þessar flugur?

JE: Á löngum ferli hef ég veitt svo vel á þessar flugur að ég er kominn með tröllatrú á þeim, svo einfalt er það.

BM: Þurrflugan, Black gnat er frábær fluga á Íslandi, ég hnýti hana í parachute einungis vegna þess að hún lendir alltaf rétt og flotið er hærra. Langskeggur eftir Örn er geggjuð fluga, eins og nafnið gefur til kynna er hún með langt svart skegg sem að gefur henni bæði mikla hreyfingu í vatni og sömuleiðis hátt flot, frábær fluga sem ég nota mjög mikið.  Krókurinn er svona eins og Sunray í laxi, þú munt fá fisk á hann, sama á við um öfuga Krókinn (grubber #12,  eirkúla, body-rautt vinil, þráður- rauður 8/0, broddur- svört ull eða micro brite svart- og svo stél fasani).
Hvíti nobblerinn virkar. Virðist ekki skipta öllu hvernig aðstæðum maður er í hvort þú strippar hann hratt eða hægt, góð alhliða fluga.
Tailorinn er mjög góð bleikjufluga. Ég hnýti hann í mismunandi útfærslun allt frá svörtu upp í ljósbrúnt, og sömuleiðis hnýti ég hann i mismunandi þykktum. Stundum virka bústnu púpunar betur og stundum hinar.

RH: Hef veitt með þeim í mörg ár og þær hafa alltaf reynst mér vel. Þar af leiðandi trúi ég á þær.

gg: Af sömu ástæðu og félagarnir að ofan, ég hef notað þessar flugur mikið í gegnum árin, veitt einstaklega vel á þær og þær hafa fyrir vikið skapað sér sess og eru alltaf í aðalboxunum. Krókurinn átti t.d. ótrúlega innkomu. Þegar ég reyndi hann fyrst var það í hyl í Hrollleifsdalsá í Skagafirði þar sem mikið lá af bleikju. Það var búið að þverkasta straumflugum og andstreymisveiða 3 eða 4 gamlar og góðar tegundir án árangurs. Krókurinn skilaði hins vegar 13 bleikjum í 13 köstum. Þá má segja að Black Ghost sé svar veiðimanna við hornsíli, en víða er gríðarlegt magn af hornsíli og það er einhver mikilvægasta fæða silunga sem til er í lífríkinu. Að því sögðu þá mætti alveg eins bæta við Grey Ghost, sem er enn meiri hornsílaeftirlíking heldur en Black Ghost.