Við höldum áfram og hér er komin önnur greinin af þó nokkrum sem munu birtast hér á næstu misserum þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna. Hér spyrjum við um viðbrögð við ýmiss konar aðstæðum þegar sólin er að trufla….
Sólskin og vindur
ÁH: Sólskin og vindur eru frábærar aðstæður fyrir stripp. Taumurinn þarf að vera langur og eins grannur og frekast er kostur. Flugan björt, helst númer 14.
HE: Hér gildir að nota tækifærið og veiða þá hylji sem ekki er hægt að veiða í logni, og jafnvel krefjast þess að vaðið sé út í hylinn. Hér nota ég enn eins granna tauma og hægt er, því gjarnan speglar af taumefninu. Hægt er að brúka þurfflugu við þær aðstæður þar sem gola gárar vatnsflötinn hæfilega. Bjartar flugur eru málið.
SS: Er hér mikið til á sömu nótunum og í spurningu númer eitt. Eitt þó í viðbót, þegar golan er komin getur líka virkað að reyna hits. Það þarf þó að fara afar varlega með það, því er vatnið er of glært getur hitsið sprengt hylinn upp.
gg: Alltaf í sól, nota langan taum og smáa flugu, nema að þessi skilyrði detti á mikið vatn, þá mætti stækka fluguna. Oft vel ég dökka flugu í þessa senu, fyrrum Blue Charm, Connemara black eða svarta Kröflu. Hin seinni ár oftar þó Black and blue eða Haug.
Hálfskýjað/sól og blíða
ÁH: Hér segi ég það sama og í fyrstu spurningunni, ekki svo mikill munur þó að skýjafar sé eitthvað. Þetta kallar samt sem áður á netta nálgun með léttum græjum, löngum taum og annað hvort hits, Nóru eða Nighthawk í nr 16.
HE: Sama hér og í sól og blíðu. Ef það er sólskin og blíða, þ.e.a.s logn, þá reynir maður að veiða þá staði þar sem straum er að finna að því gefnu að vatnsmagn sé með minna móti. Taumar eru teknir niður í styrkleika og flugur minnkaðar. Sé áin frekar lygn þá hef ég það fyrir reglu að eiga í fórum mínum glærar línur, gjarnan intermediate línu sem marar undir yfirborðinu. Þetta er sterkt vopn þegar að veitt er með smáum flugum í lygnu vatni. Hér gildir að láta lítið fyrir sér fara og vaða eins lítið og kostur er. Hólkar sem tengja saman flugulínu og taum víkja fyrir einföldum blóðhnúti. Skugginn af veiðimanninum er hans helsti óvinur. Bjartar og ljósar flugur eru hér það sem blívur.
SS: Hé vísa ég í svar við síðustu spurningu.
gg: Þegar sólfar og skýjahula skiptast á, hafa langan taum og smáa flugu. Passa alltaf skuggann og læðast. Vel hér oftast dökka flugu.