Verða veiðisögur nokkuð skrítnari en þessi?

Hér er ný/gömul veiðisaga sem að við birtum í Árbókinni okkar árið 1991. Óhætt er að segja að furðulegri veiðisögur eru vandfundnar og spurning hvort að svar fæst nokkru sinni við því hvað þarna gerðist eiginlega….

Frá golfvellinum á Seltjarnarnesi. Mynd: nkgolf.is
Frá golfvellinum á Seltjarnarnesi. Mynd: nkgolf.is

….en svona var sagan skráð: „Undarlegur atburður gerðist um hásumarið. Ef til vill ein undarlegasta veiðisaga, ekki bara sumarsins, heldur allra tíma. Vettvangurinn er heldur ólíklegur fyrir veiðisögu, eða golfvöllurinn á Seltjarnarnesi. Þar var að berja kúlur kylfingur að nafni  Gunnar Haraldsson og til þess dags vissi hann ekki  til að hann væri annað og meira að gera en að spila golf. Margt bendir til þess að hann hafi einnig verið að veiða. Samt er það svo með þessa furðusögu, að ekkert verður fullyrt um raunverulega atburðarrás. Það eitt er vitað að Gunnar sló kúluna yfir fjörukambinn og er hann kom arkandi til baka úr fjörunni hélt hann á 11 punda nýrunnum laxi sem lá steindauður við hliðina á kúlunni.

Í Morgunblaðinu var Gunnar tekinn tali eftir þessa atburði og þetta haft eftir honum:  „Ég var að slá kúlu á áttundu braut á golfvellinum í Golfklúbbi Ness. Ég sló út til hægri og kúlan hvarf sjónum mínum og lenti út í fjörukambi. Eins og gerist og gengur fór ég að leita hennar en fann hins vegar við hlið hennar dauðan lax, sem hugsanlega hefur orðið fyrir barðinu á henni og rotast. Égs naraðist með laxinn í reykingu og þar kom í ljós að um var að ræða rúmlega fimm kílóa fisk, grálúsugan og fallegan. Ég þori ekki að fullyrða nokkuð um að laxinn hafi drepist við högg kúlunnar en ef svo er, þá er ég sennilega fyrsti maðurinn sem veitt hefur lax á golfvelli.“