Í janúar 2011 barst okkur til eyrna sögur og sagnir af furðulegum silungi sem finnst í þremur samliggjandi vötnum norður á Ströndum. Fiskurinn gengi undir nafninu Fýlingi og menn greindu á um hvort að væri urriði eða bleikja. Raunar grunaði margan að um blending væri að ræða. Við ræddum á sínum tíma við Tuma Tómasson fiskifræðing sem rannsakaði fýlingjann á sínum tíma og þar sem við heyrðum nýverið nýjar ferskar sögur af fyrirbærinu datt okkur tilhugar að endurbirta viðtalið/greinina.

Ársæll með stóra Fýlingjann.

Allt hófst þetta með athyglisverðum þræði á spjallvef veiðimanna sem gekk (og gengur kannski enn) undir nafninu veidi.is. Á þræðinum var tilvist þessa furðufisks rifjuð upp. Fýlingja sem finnst í Fýlingjavötnum á Ströndum. Farið hefur fram rannsókn á Fýlingjanum og niðurstaðan er athyglisverð.

Jú, þetta byrjaði allt saman á því að maður nafni Ársæll Baldvinsson setti mynd á ljósmyndavefinn Flickr þar sem textinn sagði að þar væri veiðimaður með „fýlingja“ sem dreginn væri úr ónefnu heiðarvatni. Notendur veidi.is urðu að vonum forvitnir, enda fiskurinn á myndinni hinn glæsilegasti, að minnsta kosti 5-6 punda og sérkennilegur í meira lagi þó að greinilega væri um laxfisk að ræða. Fundu þeir í gagnasafni Morgunblaðsins á mbl.is fréttir og greinar frá árinu 1998, 20.ágúst og síðan aftur 1.september þar sem greint var frá fyrstu kynnum manna af fýlingum. Fundu þeir einnig bloggþráð þar um téður Ársæll var að auglýsa veiðileyfi til sölu í Fýlingjavötnum á Ströndum og var sá þráður ekki eldri en síðan 2010.

Í umræddum greinum úr Mogganum forðum kom fram að Dr.Tumi Tómasson fiskifræðingur og Pétur Brynjólfsson sem þá starfaði hjá Hólalaxi hafi haft veg og vanda að rannsókninni, sem hófst í kjölfarið á því að landeigandi sendi eintak af fiskinum til Tuma með þeim orðum að um langt skeið hefðu heimamenn talið að um bleikju væri að ræða. En síðan hefði hann fengið bakþanka þegar hann sá einn slíkan liggja hjá tveimur urriðum eftir veiðiför í vötnin og eftir að hafa étið fiskinn, velt fyrir sér hvort að verið gæti að þetta væri ekki bleikja heldur eitthvað allt annað?

„Venjulegir“ urriðar og Fýlingi. Mynd Tumi Tómasson.

„Ég bað hann um að senda mér sýnishorn sem hann og gerði, ég fékk fiska til skoðunar og sá strax að það var eitthvað bogið við þetta, fiskurinn gat að vísu í fljótu bragði minnt á bleikju, en mér fannst þetta samt ekki vera bleikja. Ég sendi lífssýni til kollega míns, prof. Andy Ferguson á Írlandi, sem er sérfræðingur í erfðum laxfiska og fékk það svar frá honum, að erfðafræðilega væri þetta hreinræktaður urriði. Ég sendi honum þá myndir af fiskunum og þá hrökk hann við og heimtaði meiri gögn og meira til að vinna úr,“ sagði Tumi í samtali við VoV.

Niðurstaðan breyttist samt ekkert, sá írski gat ekki staðfest annað en að um urriða væri að ræða. Ekki sér tegund og ekki deilitegund. Einfaldlega urriði ef það er hægt að nota orð eins og einfaldlega í svona tilviki. Engin leið er að vita hvers vegna þetta „afbrigði“ er í þessum einangruðu vötnum samhliða venjulega útlítandi urriðum og Tumi sagði menn einungis geta verið með kenningar þar að lútandi. Vötnin eru þrjú, öll fremur lítil og grunn og það neðsta með samgangi til sjávar sem þó telst varla fiskgengur.  Aðeins er reglulegur samgangur milli miðvatnsins og neðsta vatnsins, um ca 5 metra langan lækjarstubb, og milli miðvatnsins og efsta vatnsins rennur aðeins í miklum vatnagangi. Þar á milli er farvegur sem oftast er þurr, enda leiddu mælingar Tuma og Péturs það í ljós að efsta vatnið væri fisklaust, eða þar til að þeir slepptu talsverðu af uggaklipptum Fýlingjaseiðum í það. Náði þá að vaxa þar upp stofn sem gaf allt að 5 punda fiska í veiði á fáum árum.

Tumi og Pétur að störfum við Fýlingjavötn.

Þeir Tumi og Pétur stóðu fyrir margvíslegum athugunum. Strax haustið 1998 náðu þeir klakfiskum. Aðeins ein fýlingjahrygna þroskaði hrogn og gerði það frekar seint. Að hluta til voru hrogn hennar sviljuð með fýlingjahæng, en til samanburðar þá var fýlingjahængur látinn svilja hrogn úr sjóbirtingi úr Vatnsdalsá. Niðurstaðan var sú, að hrogn tveggja fýlingja döfnuðu vel og útkoman var 100 prósent fýlingjar. Í hinu tilvikinu gekk mun verr. Þegar seiði fýlingjahængsins og sjóbirtingshrygnunar náðu 7-9 cm lengd, voru 90 prósent þeirra orðin vansköpuð og flest krypplingar. Mikil afföll voru og seiðunum var síðan eytt. „Blendingarnir“ voru allir með dröfnur hefðbundins urriða.

Sumar og haustið 2000 var haldið áfram með rannsóknirnar í vötnunum og náðust tvö pör, eitt af hvorri sort, sem strokin voru til klaks. Var hrognum beggja hrygna skipt í  tvo svipað stóra hópa og var hvor hrognahrúga sviljuð með hængum af sitt hvorum stofninum. Í febrúar 2002 voru seiðin orðin um 10 cm að jafnaði og þá voru teknar saman niðurstöður. Seiði þar sem foreldrar voru báðir fýlingjar voru öll fýlingjar. Sömuleiðis voru öll seiði hefðbundinna urriða nákvæmlega eins. Seiði blandaðra foreldra voru blönduð, en hins vegar voru afföll í þeirra röðum miklu mun meiri. Engin frávik voru á útliti, annað hvort voru seiði fýlingjar eða venjulegir urriðar. Útlitsmunurinn, þ.e.a.s. liturinn, ræðst af víkjandi geni sem er að finna í báðum urriðaafbrigðunum, en heldur greinilega betur velli þegar tveir fýlingjar eiga saman afkvæmi.

Svo mörg voru þau orð. En hvað sagði Tumi um að veitt væri úr stofnum þessara vatna og hver væri hlutdeild fýlingja í Fýlingjavötnum?

„Þessi vötn eru lítil og grunn og þau bjóða upp á afar takmarka hrygningarmöguleika. Það er þessi 5 metra lækjarstubbur og svo smá kafli efst í læknum sem rennur úr neðsta vatninu. Annað er ekki. Urriðastofnarnir tveir eru háðir hornsílum og þeir ganga með ströndum á kvöldin og éta hornsílin. Framleiðslugeta þessara vatna er lítil og miðað við reynslu okkar af rannsóknum þarna þá mætti afli úr þeim ekki fara yfir 50 til 100 fiska ef veiðarnar eiga að teljast sjálfbærar. Þessi vötn voru nýtt til heimilisnota fyrrum og þá fóru menn kannski og veiddu góðan slatta, en friðuðu síðan vötnin lengi á eftir, enda er auðvelt að þurrka upp fisk í svona vötnum. Ef að rétt er að menn séu nú að selja veiðileyfi í vötnin myndi ég halda að annað hvort verði að binda menn við fluguveiði og sleppa aflanum, eða að halda uppi veiði með eldi og sleppingu seiða. Fýlinginn kom fram sem 15 til 20 prósent af aflanum þegar við vorum að rannsaka svæðið,“ sagði Tumi.

Fram kom í spjalli okkar við Tuma Tómasson um furðufiska, að svona breytileiki hjá urriða er alls ekki óþekktur þó að um eina hérlenda dæmið sé að ræða.

Eins og fram kom í pistli um „fýlingja“, urriðatýpuna norður á Ströndum, þá eru þeir genalega séð hreinir og klárir urriða þar sem víkjandi gen ræður útliti. Tumi sagðist ekki vita um fleiri dæmi hér á landi, en að erlendis væru svona urriðamál þekkt, þó að í þeim tilvikum sem hann vissi til væru genamálin flóknari en í tilviki fýlingjanna. Þá væru „mittámilli“ einstaklingar þekktir. Hann nefndi t.d. svokallaða „hamraða“ urriða í Otra ánni í Noregi og einnig afar smádröfnótta urriða í vötnum í Noregi sem höfðu einnig dröfnur á augunum. Þá væri einhvers konar „geddu-urriði“ í Doubs ánni í Sviss, en þeir hafa geddulegar rákir niður síðurnar. Dæmi um alla þessa fiska má sjá á meðfylgjandi myndum með þessum pistli.

Hvað stóra fýlingjann á myndinni varðar, þá taldi Tumi líklegast að hann hefði veiðst í efsta vatninu á svæðinu, vatninu sem hefur ekki reglulegan samgang við hin vötnin og notað var til að rækta upp stofn fýlingja með seiðasleppingum. Tumi sagðist hafa heyrt af 5 punda fiski sem veiddist í því vatni og þar sem það var fisklaust að öðru leyti en að í því var mikið af hornsílum, þá hefðu fýlingjaseiðin haft gott næði til að ná góðri stærð, en seiðasleppingin í vatnið var úr klakfiski sem tekinn var árið 2000. Tumi sagði að stærstu fýlingjar sem hann vissi um og hefði séð hefðu verið 4-5 punda, en sá á myndinni hefði augljóslega verið mun stærri.