Það er kunnara en frá þurfi að segja að lífshlaup Atlantshafslaxa er ævintýri líkast. En frávikin hjá þessri tegund eru fleiri en margan grunar og hér segjum við frá einu slíku, stórmerkilegu…
Á Íslandi er þetta nokkuð staðlað. Rannsóknir sýna að flestir laxar ganga í ána að sumri til, hrygna um haustið og deyja síðan í ánni einhvern tíma vetrar. Einhver X tala lifir þó af, sleppur til sjávar og takist að halda líftórunni þar þá kemur önnur hrygning og breytilegt hvort að laxinn kemur aftur sama sumarið og hann gekk út, eða dvelur auka vetur í sjó. Það fer eflaust eftir atvikum hversu stór hópur laxa hrygnir tvisvar, t.d. ræður árferði eflaust einhverju, hversu hraustur laxinn kemur úr sjó, hvort að hann kemur í fyrsta sinn sem smálax eða stórlax. Þá er það þekkt að lax sem gengur út að vori kemur aftur í ána fáeinum vikum síðar og hefur þá lítið náð að fita sig upp á ný, hvað þá þyngja sig af enhverju viti. Þessa laxa má oftast þekkja og í gamla daga voru þeir stundum kallaðir „langir“ laxar, enda voru þeir mjóslegnir, þéttdílóttari en aðrir laxar og oftast með tálknlús.

Á Íslandi eru síðan frávik, sumir laxar hrygna þrisvar, fáir þó, og hinn frægi Bakkaárlax, sem er stærsti stangaveiddi lax Íslands, var 43 pund og hafði hrygnt þrisvar. Og hann var enn lifandi og veiddur sem hoplax á leið til sjávar í byrjun sumars.
Í öðrum löndum Atlantshafslaxins eru hlutirnir öðru vísi enda skilyrði annars konar. T.d. hefjast veiðar í ám á Bretlandseyjum í febrúar með „springer“ göngum (stórir laxar) og síðan er að tínast inn fram á haust. Þetta segir sig sjálft að stafar af allt öðrum lífsskilyrðum seiða í uppvextinum. En það eru ekki Bretlandeyjar sem við ætluðum að tala um hér, heldur Rússland.

Oft er talað um að Íslands sé á mörkum hins byggilega heims laxins og með því megi skýra sveiflur í laxagöngum. En hvað má þá segja um rússneskar ár sem falla í Barentshaf? Við rákumst nýverið á frásögn Tarquins Millington-Drake, eins af forsprökkum Frontiers í Bretlandi, en þar sagði hann sögu tveggja tuttugu punda laxa sem veiddust samhliða af tveimur veiðimönnum í Ponoiánni í byrjun vertíðar. Millington-Drake hefur augljóslega kynnt sér lífshlaup laxa í rússneskum ám því að hann rakti magnaða sögu þessara laxa í stórum dráttum, en það sérkennilega við þetta allt saman var, og það sést á myndinni, að annar laxinn er augljóslega vel leginn, hinn silfurbjartur. Og hvernig má það vera? Við gefum Tarquin orðið:
„Báðir eru laxar þessir tuttugu pund, en það leið ár á milli þess að þeir gengu í ána. Sá legni kom í ána haustið á undan, mun síðan hrygna og hafa aðra vetursetu í ánni uns hann heldur aftur til sjávar. Bjarti fiskurinn mun hafa heilan vetur og heilt sumar að baki í ánni, heilt ár, áður en hann hrygnir og þarf síðan að lifa af annan vetur í ánni. Að þeir séu sömu vigtar er myndin var tekin má staðhæfa að sá legni hafi verið nokkru þyngri þegar hann var nýgenginn. Það er ekkert sem skákar nýgengnum Ponoilaxi. Þeir eru sér á báti sem helgast af því að þegar þeir ganga úr sjó þá eru þeir tilbúnir til tuttugu mánaða dvalar í ánni!“
Þetta er nokkuð annað mynstur heldur en gengur og gerist hér á landi að jafnaði. Lax gengur í júní/júlí og gengur aftur út mai/júní, eða 11 til 12 mánuðir í ánni.