Prófa mávafælur við Haffjarðará

Haffjarðará
Frá Haffjarðará.

Landeigendur, umsjónarmenn og leigutakar laxveiðiáa víðs vegar um land ganga til alls konar verka til að verja seiðabúskap ána. Alþekkt er að sjógönguseiði verði fyrir miklum afföllum á ósa/leirusvæðum ána og við Haffjarðará er tilraun í gangi.

VoV hnaut um frétt þessa efnis í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Þar er rætt við Inga Fróða Helgason sem starfað hefur að ýmsum málum við Haffjarðará í 30 ár. Tilraunin sem um ræðir snýr að því að halda mávum frá gönguseiðunum sem eru á leið til sjávar. Segir Helgi þau aldrei viðkvæmari heldur en þegar þau koma í hálfsalt vatn, þá sé eins og þau fái tímabundið sjokk og fljóti upp. Þá séu þau auðtæk fyrir máva, sem í þessu tilviki eru sílamávur (nema hvað?), svartbakur og hettumávur. Ingi hefur reynt að sitja fyrir vargfuglinum með byssu í hönd, en slík nálgun hafi ekki nægilega markvissan áragur til lengri tíma litið. Því sé bryddað upp á öðru nú. Og tilraunin hófst síðast liðið vor, þ.e.a.s. 2022.

Í frétt Bændablaðsins er haft eftir Inga: „Við settum upp tvö svona tæki frá fyrirtækinu Fuglavörnum síðasta sumar, sem virka þannig að þau gefa frá sér viðvörunarhljóð máva – og þessi hljóð koma tilviljanakennt þannig að mávarnir virðast ekki geta áttað sig á því að þetta séu ekki raunverulegar viðvaranir. Nema hettumávurinn, hann lætur ekki blekkjast. Ég vona hins vegar að hann sé meira í minni sílum og seiðum en sjógönguseiðunum þar sem hann er minni en hinar mávategundirnar.“

Bbl spyr Inga um árangur og hann segir það tilfinningu sína að vel hafi gengið og mávunum hafi að mestu leyti verið haldið frá heæstu seiðasvæðunum. Árangur kæmi þó ekki í ljós fyrr en í sumarbyrjun þegar laxinn fer að ganga. Stærstur hluti seiðagöngunnar kemur atfur í ána eftir eitt ár í sjó og seiði sem var mögulega bjargað frá vargi í fyrra gætu því verið að koma til baka núna sem fullorðnir smálaxar.

Ingi hvetur þá sem eru með aðrar ár til umsjónar að gefa þessari tilraun gaum því lítill kostnaður fylgdi henni og hvert seiði sem tækist að bjarga væri dýrmætt. Þær væru svo margar hætturnar sem stöfuðu að seiðunum að hvað það sem gæti skipt máli og bjargað þeim skipti máli.