Það er varla að VoV hafi haft spurnir af vænlegri vorveiði á staðbundnum silungi að minnsta kosti til margra ára og eflaust má þakka það hlýindum mestan hluta apríl.

Á Sumardaginn fyrsta var t.d. opnað bæði í Elliðavatni og í Þjóðgarðslandi Þingvallavatns. Í Elliðavatni var rífandi stemning í blíðskaparveðri og margir að setja í fiska. Mest urriða, en nokkrar bleikjur skiluðu sér einnig á land, en það er ekkert gefið með þær svo snemma á veiðitíma. Urriðinn var yfirleitt 1-2,5 pund og í fínu standi undan vetri. Við heyrðum stærst af 4 punda. Bleikjurnar voru þetta 1,5 til 2,5 pund ekki í síðra ásigkomulagi en urriðarnir. Eins og oftast nær var fluguveiðin drýgst og heyrðum við helst af dökkum litlum Nobblerum, PT, Peacock og ýmsar sérviskulegar/eigin útgáfum veiðimanna af þekktum púpum. Maðkveiði skilaði einnig afla og þá ekki hefðbundin flotholtsveiði heldur sökkuveiða og „liggja kyrrt“. Þetta rifjaði upp grein í Veiðimanninum fyrir all mörgum árum þar sem veiðimaður lýsti maðkveiði sinni í Elliðavatni. Sá notaði ekki venjulegar sökkur heldur kreisti blýhögl á tauminn. Tæplega er það við lýði lengur, enda er blý eitur fyrir lífríki vatna. En þessi aðferð er gjöful og margreynd. Vatnið er sem sagt ekki einungis „Háskóli fluguveiðimannsins“ eins og stundum hefur verið sagt.

Veiði var fyrir nokkru hafin á þeim helstu svæðum sem kennd eru við ION og Fish Partner…og gengið vel. Sérstaklega á ION svæðunum í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárósi. En „Þjóðgarðurinn var opnaður á fimmtudaginn og þar var líflegt, enda hafa nokkrir veiðikappar komist upp á lag með að veiða svæðið. T.d. veiddi Cezary Fijalkowski á annan tug urriða á svæðinu, „flesta smáa, en einnig stæirri í bland“, eins og hann orðaði það „Smáir“ urriða í Þingvallavatni eru oftast ekki undir 3-4 pundum. Bleikjan er lítt að gefa sig strax, sagt hefur verið að hún fari ekki að taka fyrr en birkið fer að kvikna. Það gæti orðið fyrr þetta árið heldur en oftast áður. Mun þá einnig koma í ljós ástandið á bleikjustofni vatnsins, en ýmsir telja að stofninum hafi hrakað hin síðari ár.
VoV hefur heyrt fregnir héðan og þaðan síðustu daga og alls staðar góð tíðindi. Enn er nóg af sjóbirtingi í ám sunnan-norðan og vestanlands, en spurning hvað hann helst lengi við í svo hlýju vori. Við höfum og heyrt af fínustu skotum á ýmsum svæðum Hólaár og Brúarár, einnig frá Ásgarðssvæðinu í Soginu svo eitthvað sé nefnt. Allir þessir staðir gefa væna fiska, Hólaá mest urriða í bili, en líka bleikju sem færist í aukana þegar líður nær sumri. Brúará og Sogið eru hins vegar með að uppistæðu mjög væna bleikju.