Það er lítil og falleg á í næsta nágrenni Reykjavíkur sem furðu fáir vita um, en VoV kíkti í heimsókn í haust og kynnti sér málið. Þetta er Brynjudalsá í Hvalfirði og við skrifuðum aðeins um hana í haust. Hér kemur meira tæmandi úttekt á upplifun okkar…
Brynjudalsá er á framfæri veiðileyfasalans Hreggnasa og er tveggja stanga á. Fyrir daga Hvalfjarðarganga þá óku allir yfir brúna við ós árinnar og þar blasir við Bárðarfoss, snotur foss sem var fyrrum ólaxgengur, en síðan var settur í hann laxastigi. Samt vissu fáir að í ána gengur lax. Örskammt ofan við Bárðarfoss er annar foss, svokallaður Efrifoss og hann var líka ólaxgengur, þannig að áin var eitt stórt vandamál, þannig séð. En það var gerður laxastigi í Efrifoss líka og fregnir herma að eithvað hefði illa tekist til og stiginn virkað illa. En eftir að stiginn var lagfærður þá gat lax runnið upp allan dal og allar götur upp í annan „Efrifoss“ sem við vitum þó ekki hvað heitir, en er staðsettur inn í óbyggðum í algeru ævintýralandi.
Hvað mikið af laxi fer þangað vita reyndar fáir, því að „næstum engir“ fara þangað eins og Haraldur Eiríksson sölustjóri hjá Hreggnasa orðaði það við okkur á dögunum. VoV tók göngutúrinn í haust, 4 kílómetra frá skógræktinni og náttúrufegurðin var svo yfirþyrmandi að ákveðið var að kasta ekki, heldur hafa augun á umhverfinu og njóta.

Allt um það. VoV hafði ekki tíma til að ganga ána frá skógrækt og niður að brú (brú inni á dal). Að „ganga“ súmmerar svolítið Brynjudalsá upp, því að það eru ekki slóðar nema að fossunum neðst í ánni. Sveitavegurinn er reyndar nærri ánni upp að brúnni inni á dal, en alla þessa bakka verða menn að ganga.
Að ganga mikið vefst eflaust fyrir sumum, þannig séð er Brynjudalsá ekki allra. En við skoðun þá erum við til í að skipta henni upp í 4 svæði. Frá skógrækt og upp í foss. Frá skógrækt og niður að brú. Frá brú niður að Efrifossi. Og loks frá Efrifossi niður að sjó.
VoV var í ánni í september og lítil veiðivon frá Efrifossi og niðurúr. Auk þess var gríðarlega þétt og gott vatn í ánni eftir umtalsverðar rigningar. Leigutakar sögðu okkur að svo seint á vertíð væri vart annað að hafa þar neðra en sjóbirting á stangli, allur lax væri löngu kominn upp fyrir.

Sem sagt. Svæðið ofan við Efrifoss og upp að brú. Þetta er talsvert langt svæði, einhverjir kílómetrar(ekki þó ferlega margir) frá brúnni og niður að veiðihúsi, en til að kanna þetta svæði er best að láta skilja sig eftir við brúna og ganga niður úr. Allt þetta svæði samanstendur af þessu vel þekkta, grasbakki versus malareyri. Það er frábær skemmtun að rölta þetta svæði og taka eina vakt í það. Auðvitað fer það eftir vatnshæð hvernig landið liggur og veiðistaðr eru ekki merktir þarna, enda er eðli árinnar þannig að staðir detta inn og út eftir vatnshæð.
VoV tók sum sé eina vakt í þetta. Þessi törn byrjar við Brúarhylinn. Í veiðibók eru ekki sérlega margir laxar bókaðir úr honum en nokkrir þó. Þarna komum við seint í september og í blíðskaparveðri og það voru margir laxar í hylnum. Flestir lágu beinlínis undir brúnni og þegar maður hafði lært á hringstreymið var hægt að láta fluguna vinna býsna álitlega. En það skipti engu, það voru engin viðbrögð. Þarna komum við nokkrum sinnum yfir þrjár vaktir, en það var aldrei kaupandi.
Þá er að hefja gönguna. Ég byrjaði á suðurbakkanum, en færði mig yfir eftir því sem þurfa þótti og jafnvel í svo ríflegu vatni var það víðast hægt á brotum. Það er um að gera að kasta á allt sem líklegt getur talist og við reyndum í þetta þá þekktu leitarflugu Þingeying straumflugu, númer 2 með sökktaum. Þarna er lítið um merki við veiðistaði eins og áður sagði, en um það bil 300 metrum neðan við Brúarhylin voru hnausar við norðurbakkann sem rufu strauminn, þar hafði áin grafið sig niður. Þarna vandaði ég mig og þarna kom stór, stór taka. Þetta var all nokkuð stór fiskur. Í veiðibók var enginn stærri en rétt yfir 70 cm, en þessi var greinilega um eða yfir 90 cm. Þetta var kolsvört hrygna sem var svo kviðsíð að hún nánast skóf botninn með bumbunni. Sem betur fer losnaði flugan fljótlega og hún hélt mestu af þrekinu. Samt, maður hefði viljað landa henni og mæla hana!
Á göngunni niður eftir eru veiðilegir staðir, strengir og breiður með bökkum. Á þetta kastaði ég allt samviskusamlega og í huganum var ég með frásögn Ingólfs Kolbeinssonar í Vesturröst, sem fór þarna á haustdegi 3-4 árum áður og landaði 7 löxum á þessari sömu göngu. Þarna voru veiðilegir staðir, en lítið að frétta, enda var frekar róleg veiði í ánni þetta sumarið. En þarna voru samt fiskar. Daginn eftir rölti ég stangarlaus drjúgan hluta af sömu leið og sá laxa víða, oftast miklu neðar en maður hefði reiknað með að finna fisk. Fyrir samviskuna var það samt gott að rifja upp að ég hafði kastað á þessa bletti daginn áður.

Það var farið að rökkva, rigna og bæta hressilega í vind þegar ég var kominn niður undir hús. Þar er afar veiðileg breiða við bragga sem hýsti forðum seiðaeldi fyrir ána, eftir því sem mér er sagt. Ég byrjaði mjög ofarlega en var kominn afar neðarlega þegar að allt var stopp og það var líf á hinum endanum. Þarna var steinaröð sem myndaði straumbrot og þetta kom út af neðsta steininum. Ekki um að villast, hann var á og var landað stutt seinna. Lítill lax, 55 cm hrygna, einhvers staðar á milli 3 og 4 pund. En hverjum er ekki sama þó að lítill sé þegar búið er að eyða degnum í langa göngu og kasta á um það bið 30 líklega staði. Á þeim síðasta, að setja loksins í lax? Hvað er betra? Og þá skiptir ekki máli hvort að laxinn er 55 cm eða 90 cm. Þeir Hreggnasamenn höfðu nefnt það við okkur að í þessum hyl væri alltaf lax að finna og á meðan að fiskurinn var þreyttur stökk annar, nærri suðurlandinu, rétt ofan við fyrrnefndan tökustað. Þarna var því eitthvað af laxi.
Þriðja svæðið sem við nefndum, frá brú og upp í skógrækt. Við höfðum ekki tíma til að skoða það, en Haraldur Eiríksson sölustjóri hjá leigutakanum Hreggnasa, segir það svæði geta verið „ævintýraland“ við réttar aðstæður. Sem þýðir að í góðu vatni séu þar hyljir með bökkum sem geta geymt laxa. Þetta hlakkar okkur til að skoða á næsta ári. En við gengum upp í foss, þangað sem „fæstir fara“ samkvæmt Haraldi.


Sem sagt, við tókum gönguna upp í foss. Það er ekið eins langt og leið liggur inn í skógræktina í Brynjudal, bíllinn geymdur þar og labbað af stað. Haraldur sagði okkur að þetta væru góðir 4 kílómetrar frá bíl og upp í foss. Sem sagt, 8 kílómetrar allt í allt, fram og til baka. Fyrst voru slóðar og óðar var maður kominn niður að á. En það var torfært með ánni og því leitað að slóðum, í það minnsta kindastígum ofar, með það að leiðarljósi að veiða sig niður eftir. Þetta slampaðist að mestu, en oft var sloðin eða stígurinn horfin eins og hendi væri veifað.


Það verður að segjast að eftir því sem ofar dró, þeim mun meira gagntók náttúran mann. Allt birki, víði- og bláberjavaxið í frábærum haustlitum. Hamrasalir, gljúfur með þverám þrumandi niður í háum fossum.Ég labbaði að fossholu nokkurri með lágum fossi, fleytti flugunni nokkrum sinnum yfir áður en sú ákvörðun var tekin að bleyta ekki fluguna frekar á göngunni heldur gefa umhverfinu frekar gaum. Þar sem efst var komið, fannst mér aðstæður allar benda til þess að ég væri kominn á endapunkt laxins. Undir háum hamri sem ég stóð á var hár foss og ef að svo ólíklega vildi til að lax kæmist upp þennan foss þá tóku við fyrir ofan snarbrattar og langar flúðir, sem enduðu við annan háan foss. Þarna var því miður óhægt um vik að taka myndir og ritstjórinn orðinn lúinn og slæptur á göngunni. Þarna læddist veiðieðlið aftur inn í jöfnuna, en staða mín til að kasta á þennan fosshyl var erfið. Ekki varð það gert frá þeim bakka sem ég stóð á og ekki varð sjáanlega komist yfir ána ef farið yrði ofar með henni. En komast mátti yfir hana með því að klöngrast yfir stórgrýtta harða strengi neðar, en þá þurfti að ganga drjúga leið til baka og svo aftur uppeftir.
Þessum pælingum var ýtt til hliðar og þess í stað tekin inn dásemd umhverfisins, það mátti kasta fyrir laxa neðar í ánni.

Allt of fljótt var tími okkar við Brynjudalsá á þrotum. Langar okkur aftur? Já. Hvað hefur þessi á? Það voru örfáir dagar eftir af vertíðinni þegar við vorum á vettvangi og nærri 90 laxar komnir í bók. Þetta hafa verið milli 90 og 100 í það heila þegar upp var staðið. Það er frekar slakt í Brynjudalsá, en alls ekki lélegt miðað við hversu erfið skilyrðin voru. Þessi á er að gefa að öllu jöfnu 150 til 250 laxa á sumri og það segir manni að þetta er nokkuð álitleg veiðivon. Og að viðbættu umhverfið og X-faktorinnn sem felst í því að ganga með ánni og finna staði, finna laxa.
Áin er mjög falleg. Veiðihúsið? Það er nýtt og furðu stórt af tveggja stanga húsi að vera. Stór rúmgóð herbergi, bæði með sér baðherbergi. Stórt rými með setustofu og endhúskrók. Stór verönd þar sem nánast alltaf má finna skjólgóðan blett. Húsið er uppi í hlíð og sér þaðan niður að Efrifossi. Útsýnið út á Hvalfjörð er frábært. Að leita eftir neikvæðum punktum við þessa á er erfitt. Allavega fundum við enga. Það gæti verið að hún geti verið erfið í þurrkum, það þekkjum við ekki, en höfum heyrt það að hún geti orðið vatnslítil í löngum þurrkum eins og svo margar aðrar ár á landinu.