Jón Hrafn Karlsson: Þótti ekki góð viðskiptahugmynd

Jón Hrafn Karlsson, Eldvatn í Meðallandi
Jón Hrafn Karlsson, ásamt veiðifélögum, við Eldvatn í Meðallandi.

Árið 2013 komu Jón Hrafn Karlsson, Karl Antonsson faðir hans og bræður tveir vinir þeirra af Suðurnesjum, Erlingur Hannesson og Sigurður Hannesson, að leigu á Eldvatni í Meðallandi, einni þekktustu sjóbirtingsá landsins, og heitir félagið Unubót ehf. En áin hafði verið í öldudal. Þeir hafa með markvissum hætti reist ána við.

Veiðislóð leit við á Syðri Steinsmýri, á bökkum Steinsmýrarvatna, nú um helgina, en þar býr Jón Hrafn ásamt eiginkonu og börnum. Þeir feðgar reka þar einnig ferðaþjónustuna Eldhraun, sem m.a. leigir gistingu til ferðamanna í veiðihúsinu við Eldvatn utan söluvæns veiðitíma og sumarhúsum við Syðri Steinsmýri. „Áin var í öldudal og hafði verið nokkuð lengi. Það var ekki álitið vera góð viðskiptahugmynd að taka hana á leigu, en okkur langaði að ná henni upp aftur. Það verður aðeins gert með ræktun og með því að drepa ekki allan fiskinn. Pétur Pétursson var með ána í nokkur ár, upp að 2011, en þá hvarf hann frá verkefninu og veiðifélagið sá sjálft um ána 2012. Pétur innleiddi „veiða-sleppa“ fyrirkomulagið sem hann hefur haldið svo vel að Vatnsdalsá um árabil. Síðan komum við félagarnir að ánni. Við erum ekki heimamenn, en hins vegar allir veiðimenn með sérstakan áhuga á sjóbirtingnum og verndun hans. En áin hafði verið ofveidd áður en Pétur kom að henni og það er þekkt að það tekur sjóbirtingsstofna langan tíma til að ná sér upp aftur ef að illa hefur farið fyrir þeim,“ sagði Jón Hrafn.

Eldvatn í Meðallandi, Hávarður í Fljótakróki, seiðasleppingar
Anton Hrafn Jónsson aðstoðar Hávarð bónda í Fljótakróki, með seiðatunnuna. Mynd Jón Hrafn Karlsson.
Eldvatn í Meðallandi, Jón Hrafn Karlsson, seiðasleppingar
Þetta er stærðin sem að leigutakarnir eru að setja í Eldvatnið. Mynd Jón Hrafn Karlsson.

En hvað kom til að Eldvatn hrundi sem veiðistöð?

„Það var ofveiði í henni um árabil. Þessi vitundarvakning um nærgætni við fiskistofna var ekki komin og menn fóru bara í veiði til að veiða sem mest og taka það allt með sér heim. Það var bara tíðarandinn. En vandinn var stærri, jökulvatninu  sem var hluti af ánni var veitt annað og eftir var 4 gráðu köld bergvatnsá. Áin var gjöful veiðiá á meðan hún var dálítið lituð og botnlagið var annað. Sem dæmi um hvað áin breyttist mikið má nefna sker sem stendur upp úr ánni ofanverðri. Áður stóð það hálfan meter uppúr ánni, en tvo metra nú. Þetta gjörbreytta eðli árinnar hefur leitt af sér að áin framleiðir ekki nóg. Samhliða því héldu menn uppteknum hætti að veiða og drepa allt. En aðhaldið að drápinu sem hófst með leigutöku Péturs og hefur verið viðhaldið síðan hefur leitt af sér að áin hefur verið hægt og bítandi að koma til baka. Það hafa einfaldlega verið fleiri fiskar til að hrygna.  Veiðitölur síðustu ára hafa verið hækkandi og veiðin í fyrra var sú mesta í heilan áratug eða meira.“

Geturðu nefnt tölur til að lýsa þessu betur?

„Já, 2013 veiddust 229 fiskar, 2014 voru þeir 265, 2015 alls 316 og í fyrra voru þeir komnir upp í 447 stykki. Það verður að taka fram að Veiðimálastofnun virðist telja saman veiðina í Eldvatni og Eldvatnsbotnum, þannig að þessar tölur sýna vel heildarveiðina í ánni. Það verður líka jafnframt að minna á að einhver hluti af þessum afla er ekki sjóbirtingur heldur staðbundinn urriði. Þá fundu menn fyrir því í fyrsta skipti í mörg ár, að mjög mikið var af geldfiski í ánni. Hann fór hratt upp ána, alveg inn í Botna og hélt sig mikið þar. Það er ungur fiskur í uppvexti og góðs viti að mikið sé nú komið af slíkum fiski.“

Þú talaðir líka um að rækta ána…..

„Ræktunin er tvíþætt. Ég hef aðeins komið inn á þá ræktun sem felst í því að veiða og sleppa. Eins og ég gat um þá hefur sjóbirtingi verið sleppt í Eldvatni neðan Botna í all nokkur ár, og það var gaman að því að þegar Stjáni Ben kom til starfa hjá SVFR var óðar búið að banna dráp á sjóbirtingi í Botnum. Það gildir því um Eldvatnið eins og það leggur sig. Vonandi að passað sé upp á gang mála í Steinsmýrarvötnum, því það væri stórkostlegt ef hægt væri að koma upp góðum massa á öllum þessum tengdu svæðum.

Eldvatn í Meðallandi, bílvað
Til fyrirmyndar, rækilega stikað bílvað. Engin hætta þarna á ferðum. Mynd Jón Hrafn Karlsson.

Hin leiðin til að rækta ána er að sleppa í hana seiðum. Þar sem hrygningarbotn er víða erfiður og áin lengi að fóstra seiði sín þá er stoð í að sleppa seiðum. Hávarður bóndi í Fljótakróki hefur um árabil alið seiði í seiðastöð heima fyrir. Fiskarnir eru nánast heimalningar, ganga upp skurðinn heima í Fljótskróki þar sem hann tekur þá, kreistir og sleppir aftur. Við höfum haft við hann samstarf um að auka þessa seiðaframleiðslu og jafn framt notið leiðsagnar fiskeldisfræðings og fiskilíffræðings. Í fyrra vorum við með okkar fyrstu, það sem getum kallað alvöru, seiðasleppingu, en þá settum við 7500 sumaralin seiði í ána. Þau voru 2-4 grömm, sterk og þróttmikil. Þau röðuðu sér strax upp í ánni og byrjuðu að éta. Þau verða síðan upp í þrjú til fjögur ár að ná að jafnaði svona tíu sentimetra stærð, en þá ganga þau í fyrsta skipti til sjávar. Síðan geta þau verið að koma aftur og aftur til baka sem geldfiskar, en síðan sem hrygningarfiskar og ef veiðimenn drepa þá ekki, geta þessir fiskar náð mikilli stærð og hrygnt oft. Þetta er því langtíma verkefni og er ætlunin að halda því áfram og sleppa aftur í ár og framvegis.Stefnt er að sleppingu fleiri seiða og vonandi náum við tíu þúsund í næstu sleppingu. Þessar seiðasleppingar eru þó smátt inngrip, aðal málið er að nú er enginn hrygningarfiskur drepinn í ánni lengur.“

Síðan eru fleiri fiskitegundir í Eldvatni…

„Já, það er t.d. lax. Það er bæði lítill og náttúrulegur heimastofn sem er ekkert endilega tengdur Melalæk eins og sumir halda. Hann hefur komið fram í báðum kvíslum Eldvatns og flest sumur veiðist slangur af laxi. Fyrir hefur komið að okkur hefur fundist vera meira af laxi en eðlilegt gæti talist og þá hafa þeir margir verið fremur einsleitir. Þá hafa verið teknir fiskar til athugunar og þá komið fram að þeir hafa verið úr gönguseiðasleppingum í Rangárþingi. Heimastofninn í Eldvatni er sérstakur í útliti, áberandi gulur á kinnunum og alls ekki fallegasti laxastofninn. En þetta er sérkenni sem gerir okkur kleift að þekkja þá frá flökkulöxum sem hafa sýnt sig hér iðulega. En þetta eru ekki margir fiskar í stóra samhenginu og við höfum ekki sleppiskyldu á laxi. Mörgum þykir gott að vita að þeir geta kannski tekið eitthvað heim með sér á grillið. Af þeim sökum er heldur ekki sleppiskylda á bleikju. Bleikjan í þessari sveit er mjög væn, en því miður hefur henni fækkað mjög. Þá er staðbundinn urriði í ánni og getur hann verið mjög vænn. Sumir álíta að honum hafi fjölgað en ég er ekki viss um það. Ég held bara að menn séu orðnir snjallari að ná honum. Ég hef tvisvar farið við annan mann um hásumar og við höfum fengið 5-10 staðbunda urriða, rígvæna 60 til 70 sentimetra fiska. En svo er farið fljótlega aftur og þá er lítið eða ekkert að hafa. Því er það að ég hef á tilfinningunni að þetta sé lítill og viðkvæmur stofn sem auðvelt er að styggja. Menn koma um hásumar, þá er lítill eða enginn birtingur í ánni og sá staðbundni er í aðal bælunum. Svo kemur sjóbirtingurinn til baka og rekur staðbundna urriðann úr bælunum og þá gengur illa að finna þá. Við höfum því sleppiskyldu á staðbundnum urriða að auki.“

Eldvatn í Meðallandi, Jón Hrafn Karlsson
Glímt við bandbrjálaðan sjóbirtingshæng, hjólið á yfirsnúningi! Mynd Jón Hrafn Karlsson.

Þú nefndir við okkur vegsamgöngur með ánni, það orð hefur farið af Eldvatni að þar skemmi menn fleiri jeppa á ári en gengur og gerist við aðrar ár….

„Já, þarna hafa verið frægir tröllaslóðar og hafa sögur af þeim hafa eflaust fælt marga frá sem hefðu ella viljað kynnast ánni.  Þegar við tókum við ánni 2013 voru slóðarnir með ánni varla færir nema 35″ breyttum jeppum, veiðimenn voru að skemma bílana sína og hér  þurfti að taka til hendinni.  Á hverju ári höfum við fengið verktaka í að laga vegslóðana , höfum sett ræsi í læki og sprænur , keyrt hrauni og möl í drullupytti þannig staðan í dag er orðin þannig að fært er flestum jepplingum upp að Unubót sunnan megin árinnar. Auk þess höfum við stikað vað yfir ánna sjálfa fyrir ofan Melalæk sem fært er hærri jepplingum,  komast menn því upp í Melalæk og austari kvísl án þess að þurfa keyra hraunið norðan megin árinnar , en það er mjög seinfarið..“

Er vaxandi aðsókn í þessa veiði, hvernig gengur að reka batteríið?

„Já, það er vaxandi aðsókn, bæði hafa sumir af þeim sem hættu að koma á sínum tíma, þegar farið var í að sleppa fiski, komið til baka, svo og nýir veiðimenn bæði innlendir og erlendir. Vortíminn er stuttur, byrjar ekki fyrr en í miðjum apríl og stendur í aðeins tvær vikur. Síðan er það haustveiði. Það myndi aldrei ganga að reka þetta með aðeins tvo virka mánuði og því höfum við leigt gistirými í húsinu til ferðamanna. Þannig nást endar saman. En sem betur fer eru margir að átta sig á því að í gæða sjóbirtingsveiði í fallegu umhverfi ertu að fá miklu meira fyrir peninginn heldur en í laxveiði. Get tekið dæmi, í fyrra var laust og ég átti auða stund eftir vinnu eitt kvöldið og dreif mig upp í Hvannakeldu. Ætlaði að veiða í klukkutíma áður en að myrkrið skylli á. Ég var með Go-pro vél á enninu og náði því þess vegna þegar ég fékk algerlega hrikalega töku með boða, gusu og stökki. Síðan kom löng hörkubarátta, allt í keng með rokum og djöfulgangi í góðar tíu mínútur og á endanum landaði ég ríflega 70 sentimetra sjóbirtingshæng. Laxveiðin getur ekki gefið þér neitt meira eða betra, þú getur fengið stórlax og þú getur fengið sambærilegan sjóbirting. En á sama tíma og ég glímdi við þennan eftirminnilega sjóbirting hefði einhver vinur minn getað verið að landa 2-3 punda laxi einhvers staðar og hafa borgað mörgum tugum þúsundum meira fyrir veiðileyfið. Þó hefur verðlag fyrir sjóbirtingsveiði hækkað, en mér finnst þetta samt óskiljanlegur verðmunur,“ sagði Jón Hrafn til að ljúka spjallinu.