Allir eiga sér flugu sem þeir grípa til þegar fiskur virðist bara alls ekki ætla að gefa sig. Oft eru þetta flugur sem tíðum eru settar undir við góðar undirtektir í undirdjúpunum, en svo kannski gleymast þær þangað til að í alger óefni er komið, dagur að kveldi kominn og enginn fiskur kominn á land.Hvort sem að menn ætla að sleppa fengnum eða hirða hann á grillið, þá er fátt betra í veiðitúr en að bjarga deginum á ögurstundu. Ritstjóri á sér slíka flugu, hún hefur oft gefið fína veiði, en oftar en tölu verður á komið einnig bjargað deginum.
Tökum sem dæmi dag einn að áliðnum maimánuði fyrir nokkrum árum. Ritstjóri og Jón Eyfjörð, framkvæmdastjóri okkar á VoV, komum í Aðaldal uppúr hádegi eftir að hafa ekið linnulaust að morgni. Til stóð að reyna nokkur svæði í Aðaldalnum þann daginn og skoða síðan önnur svæði næstu daga. M.a. Arnarvatnsá, Kráká og fleiri. Þó að snemma væri vors, var hitastigið eigi langt frá tuttugu gráðunum, en það var alveg sama hvar við freistuðum gæfunnar, hvorugur setti í fisk og hvorugur varð raunar var. Samt höfðu menn verið að setja í fiska þarna víða daganna á undan.
Við vorum komnir upp að Dýjaveitum og farið að hylla undir kvöld. Félagar okkar voru búnir að hreiðra um sig að Halldórsstöðum í Laxárdal og biðu okkar með dýrindis grillmáltíð. Dýjaveitur voru lokaðar urriðaveiðimönnum vegna hættunar á hoplaxi, en ég mjakaði mér upp að mörkunum. Ég var neðan við staðinn en breiðan var samt falleg og veiðileg, allavega með urriða í huga.
Ég var búinn að reyna ýmsar flugur og af rælni valdi ég svartan Dýrbít í stærð líklega um 6. Það er sem sagt flugan sem um ræðir. Svartur Dýrbítur. Þetta var hennar frumraun sem bjargvætturinn og í fyrsta kasti kom fyrsti og eini urriðinn okkar þennan daginn. Þetta var 55 cm fiskur, ríflega 4 punda, kannski 5. Þetta var auk þess einn af þremur stærstu urriðunum í vorveiðinni í Aðaldal þetta árið, seinna veiddust tveir aðrir jafn stórir.
Annað dæmi. Tveimur árum seinna erum við félagarnir í VoV í Tungulæk og það er liðin vika af mai. Allir fengum við einhverja fiska strax og við hófum veiðar, enda er á þessi fræg að endemum fyrir veiðisæld. Stundum virðist engu máli skipta hvaða flugu er kastað. En eftir nokkur högg fyrsta klukkutímann gersamlega hætti takan. Enginn okkar varð var, samt vissum við að mikið var af fiski í ánni og flestir ef ekki allir hyljir fullir af birtingi.
Það var farið að dimma og skyndilega varð sami Dýrbíturinn fyrir fingrunum sem fálmuðu eftir nýrri flugu í rökkrinu. „Já, af hverju ekki“ flugunni var skellt undir og í fyrsta kasti var kominn 76 cm hængur, nærri tíu pundum. Fimm í viðbót komu úr sama hyl á sömu flugu, 65 til 70 cm, áður en orðið var of dimmt til að sjá handarskil. Félögum mínum skyldist fljótt hvaða flugu hann fór að taka hjá mér og þeir áttu hana líka í boxum sínum. Settu hana undir og fengu líka fína veiði í ljósaskiptunum. Þetta urðu alls 15 stykki á ríflega hálftíma á þrjár stangir. Allir á þessa sömu flugu.
Síðan hefur hvert atvikið af öðru raðast upp. Hvað er það við Dýrbítinn sem að heillar svo? Allt veiddist þetta á þann svarta. Við höfum alls ekki verið jafn heppnir með þann bleika. En menn þekkja það í laxveiði, að svart og silfur virkar vel saman og sjálfsagt er svoleiðis grunn atriði það sem skiptir máli. Svo er það líka alltaf spurningin hvort að við hefðum allir lent í hörku veiði ef að önnur fluga hefði verið undir því sumir segja að þegar tökuskapið grípur fiskinn, þá skipti flugan ekki máli, heldur bara að hafa eitthvað líklegt ofan í hylnum! Það munum við aldrei vita, sem betur fer!