Við höldum áfram og hér er komin þriðja greinin af þó nokkrum sem munu birtast hér á næstu misserum þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna.
Súld/þoka
HE: Köld þoka hefur aldrei þótt gott veiðiveður, en súld og dumbungur getur hins vegar verið það.
SS: Súld og þoku fylgir yfirleitt hægvirði eða jafnvel logn. Ef að áin hefur verið vatnslítil þá getur súld glætt hana með auknu súrefni. Ég myndi við þær aðstæður byrja með smáum flugum. Dark days dark flies sagði einhver sérfræðingurinn, ég veit ekki hvort að það er endilega algilt en Colly dog myndi verða mitt fyrsta val, ég nota þá flugu gífurlega mikið. Hún er í einfaldleika sínum alveg frábær og ég nota hana allt frá nr 16 og upp í þriggja tommu eirrör! Ef við erum síðan að tala um þoku þá verður málið snúnara. Það er flókið veiðiveður og oftast lítil eða engin taka í laxinum. Loftþrýstingurinn skrýtinn. Ég myndi byrja mjög nett með smárri flugu, bjartri með svörtum væng, Colly dog passar alveg við það, það er fluga sem ég tek stundum ekki af heilu veiðitúrana.
gg: Menn greinir á um hvort að þoka sé gott veiðiveður og satt best að segja er maður sjaldan við laxveiðiá í þoku. Hins vegar er súld afar heppilegt veiðiveður, hvort sem vatn er mikið, lítið eða miðlungs. Í litlu vatni getur smá súld skipt sköpum, því laxinn bregst við hinum minnstu breytingum, ekki síst ef að þær breytingar innifela aukið súrefni í ánni. Við þessi skilyrði myndi ég byrja smátt og auka stærðina. Fara jafnvel í sökktaum og túpur áður en fullreynt er.
Rigning/vaxandi vatnshæð
ÁH: Nú ber vel í veiði!. Ég nýti nú tímann vel, því að oft dettur takan niður þegar flóð nær hámarki. Frábært að strippa Sunray við þessar aðstæður. Fiskur er mikið á ferðinni og staðir á milli veiðistaða fara að detta inn.
HE: Það er ekkert sérstakt til árangurs að veiða í vaxandi vatnshæð. Lax fer gjarnan á mikla hreyfingu og grípur agn sjaldnast vel á göngu. Oft má gera fína veiði í blábyrjun þess er áin byrjar að hækka en eftir það þarf að bíða eftir að áin jafni sig. Gjarnan byrja árnar að skola sig, fá á sig gráma og dökkt agn verður mun vænlegra til árangurs. Þetta veltur þó oft á því hvernig aðstæður hafa verið á undan, ef langvarandi þurrkar hafa geysað þá geta nýjar göngur ruðst inn í ána með ferskum tökuglöðum laxi. Oft eru það lygnuhyljirnir sem gefa best ef lax er ekki nýgenginn þar sem hann getur yfirgefið straumharðari hylji.
SS: Við þessar aðstæður er lax oft að skríða inn í ána framan af sumri eða um mitt sumarið. Það eru aðal tökulaxarnir og þeir eru oft niðri á brotinu, jafnvel undir brotinu sjálfu. Ég myndi ekkert endilega vera með sérlega smáar flugur í þessari aðstöðu. Í talsverðu vatni jafnvel túpur upp í tommulangar. Í smærri vatnsföllum myndi þó smærri fluga virka betur. Sunray, rauð Frances og Colly dog yrðu fyrir valinu.
gg: Rigning er oftast góð, en mjög margir eru þeirrar skoðunar að laxinn sé ekki endilega að taka vel þegar áin er í vexti. Sérstaklega ef vöxturinn er hraður. Þó geta komið skot, sérstaklega ef að þurrkurinn á undan hefur verið langur. Hér er ég oftast með hálftommu keilutúpur og hef oft slætt upp laxa, sérstaklega ef túpan er Black and blue.
Rigning/flóð-mikil hækkun á vatnshæð
ÁH: Hér á það sama við og í síðasta tilsvari, nýta tímann, strippa Sunray og leita að hléum fyrir straumi. Gömlu veiðistaðirnir eru nú yfirleitt „úti“ eins og sagt er, fiskur búinn að færa sig vegna aukins hraða vatnsins. Oft finnur maður ekki fiskinn fyrr en niðri á broti, sem stundum er langt, langt niður frá. Laxinn á það líka til við þessar aðstæður að flytja sig upp fyrir hyljina og leggjast á næsta brot fyrir ofan. Lykillinn er að finna hvar laxinn getur haft sem minnst fyrir lífinu í auknum straumi.
HE: Hér getur verið gott að draga fram túbur og sökkenda, þó ekki sé það algilt. Lax getur séð agn í yfirborðinu í merkilega lituðu vatni. Hér gildir að vera nógu kreatívur og veiða það sem vel lítur út, ómerkta hylji sem merkta. Eins er gott að skoða hvar mest af laxinum hefur legið fram að því að áin fer í flóð, og finna út hvert hann getur mögulega hafa farið séu þeir staðir of straumharðir. Oftast sakkar laxinn sér niður á við ef um haustveiði er að ræða, hann er að finna á blábrotum hylja og lygnari stöðum.
SS: Þegar hér er komið sögu í vatnavöxtum þá er fiskur farinn af sínum venjulegu stöðum. Þá finnur maður laxinn með því að leita með bökkum eða öðrum stöðum þar sem var fyrir straumnum. Það þarf ekki að vera nema hnédýpi, það sem laxinn leitar að er staður þar sem honum líður vel og getur haft það rólegt fyrir beljandanum.
gg: Vel er hægt að veiða við þessi skilyrði en gæta skal að því að við þessar aðstæður eiga menn ekki að veiða of stíft eftir því hvar veiðistaðaskiltið er neglt í jörðina. Í flóðum leitar laxinn á rórra vatn. Það getur vissulega verið slíkur blettur nærri skiltinu, en líklegra er þó að laxinn sé að finna langt niður á breiðu, jafnvel alveg niður á broti. Það getur verið langt, langt frá skiltinu. Menn geta þurft að leita að laxinum og hann getur ýmist dreift sér yfir talsvert svæði, eða legið tiltölulega þétt á smærra rými. Ef að áin skolast þarf að nota stóra túpu í þennan veiðiskap, en ef að áin er tiltölulega hrein, þá er það ekki nauðsynlegt. Aðal atriðið er að kemba og leita vandlega. Getur þurft sökktaum, það þarf að meta hverju sinni eftir vatnshæð og dýpt. Laxinn sýnir sig yfirleitt lítið við þessar aðstæður, nema þegar hann sýnir flugunni áhuga.
Vel mætti einnig athuga hvort að brotið fyrir ofan veiðistaðinn gæti haldið fiski. Dæmi eru um að laxinn færi sig upp um brot þegar hækkar í ánni.












