Hér er komin fyrsta greinin af þó nokkrum sem munu birtast hér á næstu misserum þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna. Hér spyrjum við: Þegar komið er að vatni, hvað er fyrst?

Sérfræðingarnir eru, eins og við gátum um í frétt í gær: Jón Eyfjörð JE, Bjarki Már Jóhannsson BM og Ríkarður Hjálmarsson RH. Svo laumar –gg inn einum og einum mola.

JE: Alltaf stoppa og gefa sér góðan tíma. Líta vel yfir svæðið, sérstaklega ef um nýjan veiðistað er að ræða sem maður þekkir ekki. Maður leitar eftir því hvar sé hlé fyrir fiskinn, hvar líklegast sé að hann geti verið og haft sem minnst fyrir lífinu. Ef maður er heppinn, þá er fiskur að sýna sig, en maður verður að gæta þess að fiskar geta verið miklu víðar en þar sem þeir sýna sig. Stundum er erfitt að sjá þetta út, t.d. í roki, og þá er ekki um annað að gera en að koma sér að verki og leita. Það geri ég gjarnan með svörtum Nobbler og strippa.

BM: Ef við tölum um stöðuvatn…bleikja- 4-6°C , urriði- 7-11°C, lax- 9-12°C
Það fyrsta sem ég athuga eru aðstæðurnar, hitastig-vindur-birta/tími dags, svo vel ég aðferðir útfrá því. Auðvitað er breytileikinn líka eftir því hvaða tíma árs þú ert að veiða, mjög snemma vors myndi ég leita á fremur grynnri stöðum, þar sem vatnið er ef til vill örlítið heitara en annarsstaðar, sefkantar þar sem fiskur gæti leynst í þar sem skordýr og smáfiskar fela sig.
Seinna á sumrin eru svo dýpri blettir oft sterkir eða þar sem straumvatn rennur í vatnið.  Þá er maður oft að leita að kaldavatninu (sérstaklega ef maður er að reyna við bleikjuna) eða súrefnisríkara vatni.   Svo er bara aðalatriði að vera vakandi fyrir umhverfi sýnu, fylgjast vel með hvað er fljótandi á yfirborðinu, hvaða flugur eru að klekjast, oft getur verið gott að velta við steinum  og skoða hvaða lirfur/púpur eru á svæðinu, hvaða flugur sem ég er með líkjast þessu. Og svo auðvitað, þar sem eru uppitökur þar er fiskur.

Ef við tölum um straumvatn….Nokkurn veginn það sama, þetta er spurning um aðstæður hverju sinni, hvert er hitastigið, er hátt eða lágt vatn í ánni, hvað er að klekjast, hvaða tegund ætlum við að eltast við, er bjart eða dimmt yfir, hvaða tíma dags ertu að veiða. Fyrsta rennsli á veiðistað ætti alltaf að vera eins lítið rask og mögulegt er, þurrfluga upstream, næst færi ég mig í þyngra og svo síðast myndi ég kasta eitthverju stærra til að sjá hvort ég fái viðbrögð. Ég er viss um það að ef menn temja sér að fara varlega að veiðstöðum, læðast og láta lítið á sér bera, munu þeir veiða mun meira af fisk.

RH: Kynna sér hvaða stofnar eru í vatnakerfinu. Bleikja, Urriði. Ef við byrjum á stöðuvatni….þegar ég kem að vatni hvort sem ég þekki það vel, eða í fyrsta skipti, skoða ég vel hvort það sé einverja hreyfingu að sjá á yfirborðinu. Svo sem uppítökur eða rákir á yfirborðinu. Séu uppitökur þá gefur það vísbendingar um að klak er í vatninu og skoða ég vel fjöruborðið og vatnið hvort ég geti séð hvaða púpur eru að klekjast út eða hvaða fluga þetta er.

Ef þetta vatnakerfi er aðeins með bleikju, skoða ég dýpi vatnsins og hitastig. Sé vatnið kalt leitar fiskur á grynningar og getur verið nálægt landi og byrja ég á að kasta með flotlínu og léttum flugum og veiði í yfirborðinu til að byrja með.

Fáí ég fisk er gott að skoða innihald ætis í maga og nota ég sértil gerða skeið til að kanna magaopið. Þar eru fyrstu vísbendingar um hvað hann er að borða þá klukkustundina. Skoða svo magainnihald líka og reyni að taka eftir hvort kuðungar séu þar eða síli. Sé aðeins kuðungar og lirfur bendir það til þess að um að þetta sé kuðungableikja en ef það eru síli þá er þetta líklega ránbleikja.

Ef engar uppitökur eru þá nota ég kúluhausa og reyni að veiða sem næst botni. Ef urriði er einráður í vatninu leita ég að honum á sama hátt, en nota strímera ef engar uppitökur eru og engin hreyfing á vatninu. Þurrfluguveiði virkar bæði í bleikju og urriða.

Ef að við erum að tala um straumvatn, þá….það sama og í vatnaveiði, kanna hvaða stofnar eru. Ef þú veist ekkert hvaða tegundir eru, þá að gefa sér tíma og skoða hvort þú takir eftir einherju lífi.  Finna straumskil og hylji og vera duglegur að skipta um flugur.

gg: Alltaf, hvar sem er, hvort sem maður þekkir staðinn eða ekki, þá er nauðsynlegt að stoppa, tylla sér og líta yfir veiðistaðinn. Kannski sýnir fiskur sig og þá er strax mikið unnið. Ef við erum að tala um stöðuvatn þá er gott að hafa gert fyrirspurnir eða einhvers konar heimavinnu áður en af stað var farið, einkum ef leiðin liggur á áður óþekktan stað. Af þessum sökum er gott að huga að vötnum á Veiðikortinu. Hægt er að lesa ansi vandlega til um þau vötn, bæði á vef kortsins og í prentuðum og vönduðum bæklingi. Sé maður ekki við Veiðikortavatn er best að leita að ár- og lækjarósum, töngum og stöðum þar sem dýpkar hratt fram af grynnra vatni.

Séum við að tala um straumvatn sem við höfum ekki þekkingu á, þá gildir það sama um að doka við og gefa sér tíma til að skoða veiðistaðinn vandlega. Reyna að lesa vatnið m.t.t. hvar fiskur getur legið og étið án þess að eyða of mikilli umfram orku.