
Pétur Pétursson þekktur sem leigutaki Vatnsdalsár hefur einnig að gera með eina af „mest spennandi smærri ánum“ eins og hann orðar það, Gljúfurá í Húnaþingi, en hana er hann að rækta upp og árangurinn er að skila sér með glæsibrag.
Pétur hefur haft ána á leigu síðustu sumur og eins og í Vatnsdalsá, þá er laxinn friðaður, þ.e.a.s. það er bannað að drepa hann. Hann hefur farið silkihönskum um ána, t.d. seldi hann aðeins tólf daga í fyrra vegna þess að árið 2013 var sáralítið af seiðum í ánni, svo lítið að hann reiknað ekki með miklu af laxi í ánni í fyrra. Það gekk eftir, en samt veiddust milli 20 og 30 laxar umrædda tólf daga. En það hefur ekki alltaf verið farið vel með þessa á. Pétur segir að þegar hann var um það bil að koma að ánni á sínum tíma hefði hann skoðað gögn og veiðibækur. Eitt sumarið höfðu 108 laxar verið skráðir í teljara sem staðsettur er nærri brúnni á aðal þjóðveginum. Af þeim voru 90 skráðir veiddir og drepnir.
„Síðan hefur seiðastatus árinnar verið í mikilli uppsveiflu og í fyrra voru allir árgangar í ánni sterkir og komin um 55 seiði á hverja hundrað fermetra. Þá er lax farinn að færa sig langt inn á heiðar og það er hrygning alveg upp í 200 metra hæð. Við erum að stefna að því að áin verði fullkomlega sjálfbær. Þetta er eins og í Vatnsdalnum, engum seiðum er sleppt, áin sér um sig sjálf. Við getum verið með minniháttar inngrip, t.d. sett grjót sem mynda uppistöður. Það eykur seiðabúskap. Þetta eru nokkurskonar grjótpallar og þeir bjóða upp á, auk skjóls fyrir seiði, allt að hálfrar gráðu hlýrra vatn. Svona hafa leigutakar Sæmundarár í Skagafirði gert með góðum árangri. Það hefur verið magnað að sjá seiðabúskapinn taka svona við sér og það styttist í að við getum kallað ána sjálfbæra. Það var svo mikið af gönguseiðum á ferð í fyrra að það gæti stefnt í mjög fínt sumar, ég held að þessi á hafi mest farið í einhverja 180 laxa, en fiskifræðingar telja að þegar svæðið er allt komið í nýtingu geti áin staðið undir 250-300 laxa veiði í góðum sumrum. Þetta er í raun ein mest spennandi áin í smærri kantinum, en það er aðeins veitt á þrjár stangir í henni og ekki á döfinni að fjölga þeim þó að veiðisvæðið sé mjög að lengjast,“ sagði Pétur í samtali við Veiðislóð.



Þegar Pétur talar um að veiðisvæðið sé mjög að lengjast þá er það þannig núna að jeppaslóði er all langt inn á heiðina. Lengi vel er áin þar í giljum sem ná því hér og þar að vera hrikaleg og svipmikil, t.d. þar sem gamla skothúsið stendur á brúninni. Síðan er komið að gömlu hrossagerði og lengi vel endaði slóðinn þar. Núna er búið að lengja slóðann um hart nær fimm kílómetra í viðbót og ef að menn ganga annað eins í viðbót þá eru þar efra veiðilegir staðir þó að vatnsmagn árinnar sé á þeimslóðum umtalsvert minna en neðar. Þarna upp frá er laxahrygning og stundum fyrr á árum safnaðist dálítið af laxi á vissa staði. Síðan þvarr það mikið til, en hefur verið að koma til baka síðustu árin með myndarlegum hætti, seiðamælingar hafa staðfest það og svo hafa menn séð til laxa þarna þá sjaldan að farið er á þær slóðir. Þess utan er urriði í ánni á þessum slóðum, mikið af honum er fallegur 2-3 punda fiskur sem gaman er að setja í með nettum græjum.

Það verður sem sagt selt í ána á komandi sumri. „Einhverja 20 til 25 daga allavega og kannski eitthvað í september ef að vatnið verður gott. Munum alltaf hvíla ána í einn til tvo daga á milli. Við hleypum engum í laxveiði fyrr en um 20.júlí og handveljum veiðimenn, bæði innlenda og erlenda, sem við þekkjum því að þetta er enn sem komið er verkefni. Við erum t.d. enn að kortleggja og byggja þessa á upp,“ segir Pétur.
„Torfærugolfvöllur“
Sumir hafa sagt um Gljúfurá að hún sé maðkveiðihola og ekki auðveld til fluguveiði. Margir veiðistaðir hennar séu ker undir hvítfyssi og svo grynningar í framhaldinu. Stuttir, hvítfyssandi og hraðir…..um þetta segir Pétur:
„Ef að ég væri enn á fullu í maðkveiðinni eins og á yngri árunum þá myndi ég kannski segja það sama, en reynslan hefur kennt mér að það er varla til sá veiðistaður að ekki sé hægt að veiða á flugu. Það eru margir veiðistaðir í Gljúfurá sem henta frábærlega fyrir flugu. Aðrir staðir, já við getum sagt að þeir séu krefjandi og ögrandi. Ég er með þó nokkra franska veiðimenn sem hafa dálæti á Gljúfurá. Þeir axla sinn bakpoka, láta skutla sér upp eftir og eyða síðan deginum í að ganga með ánni og reyna eitt og annað. Þeir eru að veiða og skoða.

Sums staðar er áin í giljum, annars staðar eru bakkar sléttari. Þetta er einskonar torfærugolfvöllur. Það voru hérna frönsk hjón sem höfðu þennan háttinn á og þau veiddu átján laxa á þremur dögum. Þegar ég sá U-tube sem þau hlóðu upp kom í ljós að þau voru langt frá því að vera að veiða aðeins á líklegum og hefðbundnum stöðum. Þau fundu laxa við steina og undir bökkum. Jafnvel á furðu grunnu vatni. Þau veiddu á smáar flugur og jafnvel andstreymis. Þannig er þetta með Gljúfurá maður er alltaf að finna eitthvað nýtt og óvænt, auk þess sem hún býður uppá að menn geti verið einir með sjálfum sér langt inni í óbyggðum.“

Gljúfurá býður upp á fleira en lax. Vistlegt veiðihús er neðan þjóðvegar, nokkur hundruð metrum sunnan við Hópið. Þangað verður lagt heitt vatn á þessu ári og hitakúturinn þar með fjarlægður, en veiðimenn munu í staðinn geta svamlað í heitum potti í lok veiðidags. En það var ekki veiðihúsið sem var við að bæta heldur gengur sjóbleikja upp í ós Gljúfurár þar sem hún fellur í Hópið. Ósinn tilheyrir veiðisvæðinu og þangað leita menn oft því að þótt ekki sé á vísan að róa í ósnum, þá getur verið einstaklega lífleg sjóbleikjuveiði á þeim slóðum þegar svo ber undir. Eitthvað gengur bleikjan upp á breiðurnar fyrir ofan ósinn, en aðalveiðistaðurinn er strengurinn þar sem fellur út í vatnið. Þarna hafa menn stundum lent í ævintýralegri bleikjuveiði auk þess að lax og sjóbirtingur eru þarna einnig að þefa af ósnum. Og sjóbirtingi hefur fjölgað í mörgum ám norðan heiða síðustu árin. Hann virðist ekki ganga að ráði í Gljúfurá, en þeim mun meira í nágrannaána Víðidalsá og því er hann tíður gestur við ós Gljúfurár. Bleikjan virðist ekki nema að litlu leyti hrygna í Gljúfurá, og þá helst neðst í henni, og því nærtækt að ætla að Víðidalsá eigi eitthvað af allri þeirri bleikju sem þarna er að finna, en Víðidalsá rennur einnig í Hópið, nokkru vestar en Gljúfurá, og er sem kunnugt er mögnuð bleikjuveiðiá ekki síður en laxveiðiá.












