Sjóbirtingsveiðin fór gríðarlega vel af stað í Laxá í Kjós er hún hófst fyrir ríflega viku síðan, enda skilyrði hin ágætustu og augljóslega nóg af fiski.

Vorvertíðin í Kjósinni er aðeins 30 dagar og veitt á 4 stangir. Fyrsta daginn veiddust 20 birtingar og eftir fyrstu vikuna höfðu 160 verið skráðir til bókar. Lengi hefur birtingur verið mikilvægur meðafli í Kjósinni, en síðustu árin hefur honum fjölgað umtalsvert. Aðeins er veitt á flugu og öllum fiski sleppt eins og víðast annars staðar á sjóbirtingsmiðum. Með þeirri friðun sem felst í að öllum fiski er sleppt, hefur meðalstærð farið stækkandi. Aflinn til þessa hefur mest verið 55 til ríflega 80 sentimetra fiskar og mikiið af aflanum í stærri kantinu.
Fregnirnar koma úr ýmsum áttum, þannig hafa bæði Leirá og Leirvogsá boðið veiðimönnum upp á góðar stundir með stórfiskum í bland. Þá hófst veiði á eystri bakka Hólsár um síðustu helgi, en opnun þar var seinkað vegna lagfæringa á veiðihúsi svæðisins. Leigutakinn, félagið Kolskeggur, sendi skeyti þess efnis að veiði um helgina hafi verið í rólegri kantinum, en samt „hafi nokkrum verið landað.“