Hin líflega byrjun á laxveiðinni hefur komið skemmtilega á óvart. Við spurðum Guðna Guðbergsson útí þessi ósköp, en það virðist vera mikið af bæði stórum laxi og smáum óvenju snemma á veiðitíma.

Eftir tiltölulega slakar smálaxagöngur í fyrra var ekki reiknað með neinum tiltakanlegum styrk í stórlaxagöngum nú. En það virðist hins vegar vera nokkuð líflegt hjá þeim árganginum. Þá hafa smálaxar komið óvenju snemma og vel haldnir úr hafi sem gefur oftast vísbendingu um að árgangurinn sé sterkur.

Guðni Guðbergsson fiskifræðingur að störfum.

Guðni Guðbergsson er einn reyndasti fiskifræðingur landsins og sá í hópi þeirra sem er einna kaldastur að koma með álit og skoðanir þó að þær byggi ekki alltaf á niðurnegldum vísindalegum útreikningum, en það er vegna þess að hann fær oft spurningar á þeim tímapunktum að hann hefur ekki fulla yfirsýn.

Eins og t.d. núna, laxveiðin rétt að hefjast, 22.júní þegar þetta er skrifað og okkur langaði til að vita hver hans skoðun væri á því að það virtist vera meira að ganga af stórlaxi en spár gerðu ráð fyrir, og að smálaxinn virtist vera að koma rígvænn úr hafi, vel snemma, og mun fyrr en menn yfir höfuð væntu hans.

Guðni sagðist að sjálfsögðu ekki vera nógu rækilega með „puttann á púlsinum“, en hafði fylgst með fréttum og skoðað veiðitölur á angling.is, en hann sagði of snemmt að tala um magnaðar stórlaxagöngur, „í samhengi við hvað?“ væru menn að miða. „Engar forsendur bentu til þess að stórlaxagöngur yrðu sterkar í ár,“ sagði Guðni.

Ræðst á einu geni

Og Guðni sagði einnig: „Mönnum var brugðið í fyrra, stórlaxaveiðin var svo góð og hélst góð vel framan af, en svo kom að smálaxinum og þá var heldur lítið um hann. En þó með undantekingum, sbr Laxá í Dölum og Haukadalsá sem fengu mjög fínar smálaxagöngur. En við höfum m.a. horft í Dalina og víðar og séð að hlutfall stórlaxa er vaxandi. Það gæti verið önnur eða báðar skýringar af tveimur sem gætu svarað þessu. Í fyrsta lagi að menn hafa löngum séð langtíma sveiflu á hlutfalli stór- og smálaxa og það gæti rímað við það sem horfa uppá núna. Síðan er hin skýringin að það eru kannski 10-11 ár síðan að sleppingar á stórlaxi voru komnar í gang fyrir alvöru. Þar erum við kannski komnir að annarri kynslóð laxa yfir á þá þriðju. Á meðan lax var mikið til drepinn þá var veiðiálag á stórlaxinn hærra vegna þess að hann gekk fyrr í árnar, en þar sem honum er nú að mestu leyti sleppt aftur þá gæti það verið að skila sér. Í því sambandi má minna á að rannsóknir hafa sýnt að það erfist á einu geni hvort að laxi er áskapað að ganga úr sjó sem smálax eða stórlax. Og einnig má minna á að ef við horfum til dæmis til Norðurlands þá eru 65 prósent af stórlöxum hrygnur og hrognamagn þeirra er miklu mun meira en hjá smálöxum. Þannig stækkar hrygningarstofninn. En þetta verður ekki  staðfest með útreikningum að svo stöddu.“

Laxagöngur verið að færast fram

Um að smálaxinn væri að ganga óvenjulega snemma sagði Guðni: „Af fréttum að dæma virðist sem smálaxinn sé að ganga af óvenjulega miklum krafti fyrr en menn eiga að venjast. Og af fréttum að dæma þá er hann vænn og vel haldinn. Sú var tíðin að menn vildu helst ekki tjá sig um smálaxinn fyrr en liðin væri sirka vika af júlí. Þá ættu menn að vera farnir að sjá framan í hann og kannski spá einhverju um styrk gangna. En tilfellið er, að laxagöngur hafa verið að færast fram að jafnaði um hálfan dag á ári í einhver 12-14 ár. Á árunum milli 1960 og 1970 var byrjað mun fyrr í mörgum ám heldur en nú er, en svo fóru göngur að skila sér æ seinna og var þá veiðitími færður aftur í mörgum ám, í sumum tilvikum skipti það jafnvel einhverjum vikum. Árið 1997 voru reglugerðir endurskoðaðar og þá samþykkt að leyfa veiði út september í stað þess að fram að því höfðu síðbúnustu árnar lokað 20.september. Veiðitíminn var þannig kominn uppí 105 daga. Það getur þurft að yfirfara þessi mál með reglulegum hætti, það eru brögð að því að í einstökum ám sé byrjað að færa veiðitímann aftur fram. En hvað sem þessu öllu líður þá gefur það góða tilfinningu að smálaxinn sé að koma snemma úr hafi og skili sér stór og fallegur!“