Hér er komin fyrsta greinin af þó nokkrum sem munu birtast hér á næstu misserum þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna. Hér spyrjum við: Þú kemur að ánni og það er: Sól og blíða
Sérfræðingarnir eru, eins og við gátum um í frétt í gær: Ásgeir Heiðar ÁH, Haraldur Eiríksson HE og Stefán Sigurðsson SS, auk þess sem –gg laumar inn mola og mola.
ÁH: „Ég fer afar varlega og nota léttar græjur og langan taum. Nota gjarnan hits, Nóru eða Nighthawk í stærðinni 16. Fer eftir hraða vatnsins.“
HE: Ef það er sólskin og blíða, þ.e.a.s logn, þá reynir maður að veiða þá staði þar sem straum er að finna að því gefnu að vatnsmagn sé með minna móti. Taumar eru teknir niður í styrkleika og flugur minnkaðar. Sé áin frekar lygn þá hef ég það fyrir reglu að eiga í fórum mínum glærar línur, gjarnan intermediate línu sem marar undir yfirborðinu. Þetta er sterkt vopn þegar að veitt er með smáum flugum í lygnu vatni. Hér gildir að láta lítið fyrir sér fara og vaða eins lítið og kostur er. Hólkar sem tengja saman flugulínu og taum víkja fyrir einföldum blóðhnúti. Skugginn af veiðimanninum er hans helsti óvinur. Bjartar og ljósar flugur eru hér það sem blívur.
SS: Þá segi ég, flotlína, langur taumur og ekkert allt of sveran taum. Við þessar aðstæður hefur laxinn oft lagst undir holbakka eða ofan í djúpa bolla. Litlar flugur strippaðar hratt fá þá stundum af stað, en míkrókónar eru líka líklegir. Þá prófa ég stundum að fara niður fyrir laxinn, kasta upp í straum og strippa hratt til baka.
gg: Fyrsta hugsunin er að forðast lygna veiðistaði, leita frekar þar sem lax liggur undir straumi og horfa einnig til sólar, gæta þess að skuggi af manni falli ekki á veiðistaðinn. Laxinn er ótrúlega næmur fyrir skugga. Á hinn bóginn er það af hinu góða ef að náttúrulegur skuggi liggi á veiðistað við þessar aðstæður.
Flugnavalið er umfram allt smá fluga og flotlína. Ef maður neyðist til að veiða lygnan stað við þessar aðstæður þá þarf að standa vel frá ánni, hafa afar langan taum, eina og hálfa stangarlengd. Krjúpa, læðast. Ekki útiloka að kasta þurrflugu, með henni er hægt að byrja vel ofan við þar sem laxinn liggur og flugan fær því eðlilegt rek að fiskunum.