
Konum hefur fjölgað í stangaveiðinni síðustu árin og við kynntumst einni, Andreu Þórey Hjaltadóttur, sem hefur stundað nokkuð silungsveiðina síðustu ár en landaði ekki aðeins Maríulaxinum sínum s.l. sumar heldur gekk hún síðan feti framar og landaði fyrsta flugulaxinum. Og, til að kóróna sumarið, þá landaði kærastinn, Þórarinn Ólafsson, einnig Maríulaxinum.
Andrea er 23 ára Eyfirðingur. Foreldrar hennar byggðu hús á landskika út frá jörð ömmu hennar og afa og ólst hún því mikið upp í kring um þau. „Foreldrar mínir eru ekki með búrekstur en foreldrar pabba voru bændur og tók bróðir pabba við búinu fyrir þó nokkrum árum. Ég hef verið í kring um dýr allt mitt líf, stundað hestamennsku af krafti, ræktað sjálf, vann við tamningar, þjálfun og keppti bæði hér heima og erlendis. Útivist hefur alltaf heillað mig og frá því ég var lítil hnáta hefur veiði fangað athygli mína svo um munar. Sem krakki fór ég ótal sinnum niður að Eyjafjarðaránni, þar sem bæjarlækurinn rann út í og veiddi þar seiði með einföldum litlum fiðrildaháf. Ég hafði lítinn sem engan aðgang að veiðigræjum en eignaðist þó eina kaststöng með lokuðu hjóli um 8 ára aldur og þó það væri ekki nema bara að komast einhversstaðar að höfn og dorga var það nóg. Ég hafði takmarkað vit á veiði og engan til að stunda sportið með,“ sagði Þórey í samtali við VoV.

Og Þórey hélt áfram og sagði: „Ég og kærasti minn kynntumst haustið 2015 og var það mikil heppni fyrir mig að hann skyldi hafa áhuga á veiði og eiga allskyns veiðigræjur. Einnig er það ómetanlegt að geta stundað áhugamálið saman. Því má segja að ég hafi ekki byrjað að stunda veiði fyrir alvöru fyrr en núna sumarið 2016. Er ég nú á síðastliðnum mánuðum að stíga mín allra fyrstu skref í fluguveiði. Fram að því hafði ég ekki svo mikið sem haldið á slíkri græju sem fluguveiðistöng er. Við erum að vinna vaktavinnu og höfum nýtt hvert einasta vaktafrí til að veiða. Mest veiddum við í vötnum s.l. sumar. Þægilegur kostur er að vera með Veiðikortið og þræða vötn víðsvegar um landið. Örlítið höfum við reynt fyrir okkur í Eyjafjarðará og kom það sjálfri mér á óvart að ég er búin að fá 4 fiska þar.“
Þegar VoV hitti Þóreyju að máli hafði hún landað um 30 fiskum, silungum, að mestu á bilinu frá pundi upp í 3,5 pund. En laxinn beið. Síðan fóru þau í Brúará og þar af öllum stöðum landaði hún Maríulaxinum, 5 punda laxi! Brúará er ekki þekkt fyrir laxveiði á seinni árum þó að lax hafi fyrrum veiðst þar í nokkru magni og því kom aflinn skemmtilega á óvart. „Mest hef ég veitt á kaststöngina fyrir þær sakir að þolinmæðin er ekki alltaf að vinna með mér. Mig langar að koma því að, að persónulega finnst mér sú umræða fráleit þegar menn alhæfa að ekkert sé varið í veiði nema á flugu og annað sé tabú.

Ég hef nú bara þann háttinn á að ef fiskurinn er að taka maðk eða spún frekar en flugu, þá veiði eg bara á það sem virkar. Ég er einnig afar þakklát, fyrir þá einstaklinga sem maður hefur hitt, sem eru tilbúnir að miðla af reynslu sinni og benda manni á góða staði eða tækni. Það má ekki gleyma að allir eru byrjendur einhvern tímann og er það gulls í gildi þegar fólk er tilbúið að aðstoða.
Maður skildi þó hafa það hugfast og minna sig á reglulega að þegar maður er ókunnugur vötnum eða ám, er engan vegin hægt að ætlast til að allt gangi eins og í lygasögu og maður komi með með fullt fangið af fiski,“ segir Þórey.
Og sumarið var ekki á enda, stærsta stundin var eftir, að ná fyrsta flugulaxinum, og ekki bara einum heldur tveimur. Og kærastinn nældi líka í lax. Þetta var undir haustið í Tungufljóti í Árnessýslu…. „svo fórum við í Tungufljótið. Það stóð alveg undir sínu og ekkert smá gaman að veiða þar. Þórarinn fékk Maríulaxinn sinn og ég fékk fyrsta flugufiskinn minn.. lax! Reyndar fyrsta skipti sem ég kasta með tvíhendu og fékk flottan rúmlega 5 punda hæng. Fékk svo einnig minn fyrsta fisk á einhendu, fínan hæng um 3 pund. Alveg frábær dagur,“ sagði Þórey að lokum.












