Eftir því hefur verið tekið að Vopnafjarðarárnar Selá og Hofsá, og þá sérstaklega hin síðarnefnda, hafa verið í nokkrum öldudal síðustu sumur. Mikill tröppugangur hefur verið í laxagöngum á landsvísu á sama tíma, en í frábæru árunum voru þær þó aðeins þokkalegar 2013, Selá raunar nokkuð góð það ár, en Hofsá síðri. VoV leitaði skýringa…
Í samtali við þá feðga Vífil Oddsson og Gústaf Vífilsson, sem eru Strengsfélagar(Strengur er leigutaki árinnar) og hafa setið í stjórn Veiðifélags Selár, fyrst Vífill og síðan Gústaf, um langt árabil, kom fram að skilyrði til uppvaxtar fyrir seiði í ánni hafi ekki verið upp á það besta síðustu árin. „Það er tilfellið. Þeir sem standa utan við horfa kannski á góðan lofthita á sumrin og kannski að vorað hafi vel. En vetur hafa verið snjóþungir og þá er Selá jafnvel langt fram á sumar að skila snjóbráðinni til hafs og þá er áin köld. Þetta hefur verið viðvarandi síðustu árin og á eflaust sinn þátt í þessari niðursveiflu,“ segja þeir Vífill og Gústaf.
Lítum aðeins á þróunina, en sem fyrr segir hefur þetta vandamál herjað að því er virðist meira á nágrannaána Hofsá, heldur en Selá. En núna, 2016, þegar erfiðu veiðisumri lauk þó sem ríflega meðalsumri á landsvísu, þá voru bæði stóru nöfnin í Vopnafirði slök.
| 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | 2012 | |
| Hofsá | 492 | 515 | 657 | 1160 | 1008 |
| Selá | 830 | 1172 | 1004 | 1664 | 1507 |
Næstu tvö sumrin á undan, 2011 og 2010, var Selá bæði árin yfir 2000 löxum og Hofsá sitt hvoru megin við 1000 stykki. Athygli vekur hversu gjöfular þær voru fyrra örreytissumarið, 2012 þegar hrun var í laxveiði á landsvísu. Seinna hrunsumarið 2014 eru þær báðar mun lakari en Selá þó lafandi í fjögurra stafa tölu.











