Iceland Outfitters, alias hjónin Harpa Hlín Þórðardóttir og Stefán Sigurðsson hafa komið eins og stormsveipur inn á veiðleyfamarkaðinn eftir að hafa verið hornsteinar hjá Lax-á um árabil. Veiðislóð.is tók tal af Hörpu fyrir skemmstu og margt skemmtilegt kom þá á daginn….
Fyrst spurðum við Hörpu út í aðdraganda og tilurð þess að þau hættu hjá Lax-á og fóru í sinn eigin rekstur undir nafninu Iceland Outfitters…
„Við Stefán höfum starfað hálfa ævina við skipulagningu og sölu veiðiferða. Eins og allir sem vinna í ferðaþjónustu vita þá er það svolítið þannig að maður er alveg með nefið ofan í því sem maður er að selja og yfir háannatímann fer allur manns tími í að undirbúa fyrir komu og móttöku gesta. Það er enginn tími aflögu til að mennta sig í því sem aðrir eru að gera og skoða nýja möguleika.
Við unnum í fjöldamörg ár hjá sama fyrirtækinu og þegar við stigum þaðan út má segja að heill heimur tækifæra hafi opnast. Á þessum árum lærðum við auðvitað heilmargt um hvernig skal og hvernig skal ekki gera hlutina, en þessi örfáu ár sem við höfum starfað undir merkjum Iceland Outfitters hafa einnig verið mjög lærdómsrík. Við höfum verið dugleg að ferðast á milli og skoða ár og hús. Það er gaman að sjá hvað margir eru að gera spennandi hluti og hversu mikill metnaður er lagður í að gera vel við gesti.

Það var náttúrulega stór, en samt eðlileg ákvörðun, að hella sér út í eigin rekstur. Við erum ótrúlega þakklát fyrir allt það fólk sem hefur staðið við bakið á okkur, unnið með okkur og komið með ótal hugmyndir að tækifærum, en flestar þær hugmyndir sem við höfum þróað hafa komið frá vinum, vandamönnum og landeigendum sem hafa haft samband. Það eru ótal ár og vatnasvæði sem eru spennandi og sem hægt er að gera meira úr og við erum svolítið þar núna, en uppistaða viðskiptavina okkar eru samt sem áður þeir sem eru að kaupa daga í stóru og þekktu ám landsins, og því vinnum við náið með nokkrum af veiðileyfasölum landsins.“
Eruð þið á einhvern hátt með nýjar áherslur?
„Við vissum hvað við vildum gera, við viljum veita persónulega og faglega þjónustu og frekar taka færri en fleiri viðskiptavini til þess að geta sinnt þeim öllum. Við vildum líka ekki drekkja okkur í vinnu, heldur velja hvað við viljum gera og þá frekar njóta ferðarinnar og stækka hægar en ella. Ég, ásamt Maríu Önnu Clausen(í Veiðihorninu) og Elsu Blöndal stofnaði veiðiklúbb fyrir konur og saman ferðumst við undir merkjum T&T international bæði í stang- og skotveiði. Þetta hafa verið rosalega skemmtilegar og lærdómsríkar ferðir. Opið fyrir allar konur sem vilja veiða. Stefán hefur líka verið að fara í veiðiferðir með vinum og kunningjum og er næsta ferð til Króatíu að skjóta villisvín.“
Þið hafið raðað niður svæðum að undanförnu, Urriðafossi, Skjálfandafljóti ofl…
„Þegar við fréttum að von væri á að Skjálfandafljót færi í útboð þá kom ekki annað til greina en að reyna við hana. Þetta eru uppeldisstöðvar Stefáns og hann elskar fljótið. Við vorum mjög ánægð með þá útkomu að skipta dögunum með hópi veiðimanna sem hefur veitt í fljótinu í áratugi. Það takmarkar áhættu okkar og þeir halda áfram að veiða fljótið.
Þá erum við mjög ánægð með nýlegt samstarfið við ION fishing, en við sjáum um sölu á öllum lausum dögum út tímabilið. Þetta hefur verið lang eftirsóttasta urriðasvæði landsins undanfarin ár og er frábær viðbót í flóruna hjá okkur á veidileyfi.com
Leirá er tveggja stanga á sem er líka búin að vera í einkaleigu í langan tíma og við eigum eftir að kynnast henni betur. Það veiddist ágætlega þar í vor og við erum spennt að sjá hvernig laxveiðin á eftir að koma út í sumar. Þeir sem þekkja til hennar segja að hún sé skemmtilegust frá miðjum ágúst og út tímabilið þegar bæði lax og sjóbirtingur eru í ánni. Það er líka lítið en mjög notalegt veiðihús sem fylgir ánni svo þetta er góður kostur fyrir borgarbúa að skjótast í sveitina.

Urriðafoss er náttúrulega eitthvað sem við sáum ekki fyrir að myndi þróast svona hratt. Nokkrum klukkustundum eftir að við settum í sölu þá daga sem við ætluðum upphaflega að selja þá voru þeir uppseldir. Veiðin er engu lík. Síðast þegar ég kíkti þá var meðalveiði á stöng á dag 6,72 laxar og það eru margir sem hætta að veiða eftir að kvóta er náð sem gerist oft snemma dags. Við erum mjög spennt að þróa það verkefni áfram með landeigendum á svæðinu.
Við erum líka í samstarfi við leigutaka austurbakka Eystri Rangár og seljum þar lausa daga, en svæðið er mjög gjöfult, bæði á lax og sjóbirting. Nýjasta viðbótin er síðan Vatnasvæði Lýsu þar sem við munum selja út vertíðina. Það er afar fallegt og fjölskylduvænt svæði þar sem veiðist jafnt urriði, sjóbirtingur, bleikja og lax. Hér á árum áður þegar við vorum að selja í þetta svæði voru að veiðast 100 til 200 laxar á sumri og best var veiðin síðsumars og um haustið. Það má nefna að við erum með allt svæðið, líka neðsta hlutann sem verið hefur í einkaleigu síðasta áratuginn.
Svo er fleira, ekki rétt?
„Jújú, tækifærin eru víða, við erum t.d. með gæsaveiði á Melum í Melasveit. Þegar við settum það verkefni af stað ákváðum við að setja það upp eins og við erum vön að selja laxveiðileyfi. Þar sem gott skipulag á veiðisvæðum, kvóti og mikið eftirlit. Við erum mjög ánægð með hvernig það verkefni hefur gengið og veiðin hefur verið vonum framar.
Salmologic er líka tækifæri sem kom upp í hendurnar á okkur. Vinur okkar Henrik Mortensen hefur valið einn umboðsaðila í hverju landi til að selja veiðivörurnar sínar og við tókum því boði fagnandi og hefur mikið selst bæði af stöngum og línum. Við erum reyndar ekki með verslun en við hittum áhugasama og leyfum þeim að prófa bæði línur og stangir og hefur það gefið góða raun.
Það er ýmislegt á döfinni hjá okkur og mögulega fleiri veiðisvæði að bætast við en vefsalan okkar er ört vaxandi. Við erum sátt við hvernig lífið og fyrirtækið hafa þróast hjá okkur en við erum alveg með báðar fætur á jörðinni og vitum að þetta gengur ekki nema að vanda sig, borga reikninga og standa við gefin loforð. Svo er mikilvægt að muna að maður gerir ekkert einn.
Kynnast má nánar starfsemi IO á: Icelandoutfitters.com, Salmologic.is, Ioveidileyfi.is / veidileyfi.com auk þess sem þau eru virk á Facebook.