Úlfarsá, Korpúlfsstaðaá eða bara Korpa, sem sumum þykir þó frekar niðrandi nafn á gjöfulli laxveiðiá. En „Korpa“ er ekki allra því hún er það sem margir kalla „sprænu“. Vatnslítil er hún vissulega, en hún leynir á sér og hún er fullkomlega sjálfbær og gjöful laxveiðiá, auk þess sem vaxandi sjóbirtingsstofn er einnig í ánni. Og þótt hún sé umdeild og stundum töluð niður, þá er hún eigi að síður vinsæll valkostur hjá mörgum. SVFR er leigutakinn og sumarið 2025 verða breytingar á nýtingu árinnar.

Aðeins um ána. Hún heitir Úlfarsá efra og fellur um Úlfarsárdal. Neðan við Vesturlandsveg er hún komin í umdæmi Korpúlfsstaða og heitir hún þá Korpúlfsstaðaá og þaðan er niðrandi styttingin komin. Áin rennur úr Hafravatni og er aðeins 7 kílómetrar, en hún á ós í Blikastaðakró. Vatnslítil, já. Og alveg að því marki að hún er afar viðkvæm veiðiá og aðeins örfáir veiðistaðir þar sem ekki þarf beinlínis að laumast á tánum og jafnvel bogra, eða jafnvel skríða í stellingar. Vegna þess hversu vatnslítil hún er, þá er þetta enn meira krefjandi dæmi í þurrkasumrum. Sem var ekki í fyrra eins og menn muna, jafnvel þeir elstu.
Við þekkjum veiðimann sem hefur stundað ána um árabil , kynnst henni og lært á hana. Sá heitir Kjartan Ingi Lorange sem rekur Veiðihúsið Sökku og titlar sig skyttu á já.is.
Á vef leigutakans segir að bestu veiðistaðir séu Sjávarfoss, Bliki, Rennur, Túnhylur, Þjófahylur, Stífla og Stokkar. Hver er skoðun Kjartans? „Fyrir mér er áin afar skemmtileg, fjölbreytt og krefjandi. Ef ég ætti að taka einn stað út úr þá væri það Neðri Rennur, 30 grömm af blýi þar og fullt af buffi. Ef hann er þar þá er maður fljótur að setja í hann. Þetta eru nú ekki fínheitin sem margir sækja í en ég er ekki þar og eitt af því heillar mig við þessa á er ekki bara augljósu kostirnir sem ég taldi upp, heldur líka að hér má maður taka lax með sér heim og éta hann.
En að öðrum hyljum. Þjófahylur er einnig í miklu uppáhaldi hjá mér en hann er svo viðkvæmur að ein mistök, og þá er sjensinn farinn, því laxinn sér mann langt að. Þarna virka bæði maðkur og fluga og ef maður kemur að og gaumgæfir þegar líður á sumarið má yfirleitt sjá nokkrar flugur í botninum, allar á sama stað. Francesar með keilum. Magnað að menn séu að nota svoleiðis tól þarna. En þessi staður geymir alltaf slatta af laxi og sama er að segja um Hornhylinn sem þar er rétt hjá, en báðir eru skammt neðan við Stífluna. Þar rétt neðar er svo Breiðan, veiðistaður sem gefur oft lax og heldur alltaf fiski. En hann er ofboðslega erfiður og yfirleitt fær maður þar bara einn lax, hylurinn er svo lengi að jafna sig eftir töku og glímu við lax. Veiðistaðurinn byrjar við enda á streng og síðan rennur áin alveg bein og um það bil tveggja metra djúp og þetta eru alveg 25-30 metrar þar sem lax getur legið og tekið hvar sem er. Fyrir mér er þetta flugustaður, en þarna má líka alveg renna maðki. Svo er Túnhylur líka góður, þar var fyrir margt löngu hlaðið grjóti við útfallið til að hækka í ánni. Þar liggur oftast lax. Þar fyrir neðan eru góðir staðir, Rennurnar, Bliki og Sjávarfossinn. Þar er hraði á vatninu og maðkur fer vel. Sjávarfossinn má aðeins veiða í vissi sjávarstöðu. Ef rennt er í hann á meðan enn er sjór í honum þá fælist burt allur lax sem kynni að sitja eftir.
Stíflan er svolítið annað dæmi í hinni litlu og nettu Korpu. Þar er lón ofan við stífluna og djúpt á köflum. Þar safnast mikið af laxi og sjóbirtingi og það er alltaf gaman að koma þangað. Alltaf mikið líf. Fiskar að sýna sig og veiðivon góð. Ég hef náð góðum tökum á staðnum og hef fengið upp í tíu laxa á tveimur tímum. Þarna er mikill uppáhaldsstaður dætra minna sem jafnan veiða með mér í ánni. Mest nota ég Zeldu afbrigði eftir nafna minn Antonsson. Hann er höfundur Zeldunar sem er feykilega öflug fluga. Afbrigðið sem hann hnýtir fyrir mig kalla ég Zeldu Sylvíu eftir annarri dóttur minni. Flugan er lík hefðbundum Zeldum, en er með tinsel í búknum. Þó að þarna sé mikið vatn og fiskar að sýna sig víða, þá gildir að veiða nett og sleppa öllu offorsi. Þegar mér var bent á þetta gekk mér mun betur með þennan magnaða veiðistað.“
Og núna verður breyting í Korpu. Vegna mikillar eftirspurnar verður hún seld í hálfum dögum eins og Elliðaárnar og auk þess búið til nýtt veiðisvæði. Til þessa hefur áin verið veidd með tveimur stöngum. Þær halda sér , en nýja svæðið er efri hluti árinnar, frá Lambhagavegi og upp í vatn. Þaðan og niður að Vesturlandsvegi er aðeins um Stokkana að ræða. Þeir eru oft fullir af fiski, en viðkvæmir. Áin er þröng og djúp og fiskur liggur djúpt sem og undir bökkum.
En hið nýja svæði, SVFR hefur ekki gefið með stangafjölda þar en ekki ólíklegt að um eina stöng verði að ræða. Hvað segir Kjartan um þetta svæði? „Ég hef alveg farið þar um nokkrum sinnum. Þetta er erfiður kafli því áin er afar vatnslítil þarna. Mikill gróður en svo holur og holbakkar á milli. Það eru ekki margir augljósir staðir og það þarf að ganga varlega með ánni þarna og gaumgæfa vel. Ég hef samt iðulega fengið fiska þarna, en stundum líka ekki neitt. Og vel má búast við því að lax og birtingur sé kominn á þetta svæði strax í júlí. Efst uppi við vatn eru svo tveir staðir, annar, sá efri fallegur strengur og breiða neðan við vatnsmiðlunarstíflu og svo nettur hylur þar fyrir neðan. Það hefur verið afar lítil traffík veiðimanna á þetta nýja svæði, kannski einn af hverjum tíu eitthvað kíkt þangað. En þarna upp frá er fiskur víða og vegna lítillar ástundunar hafa veiðiþjófar fengið frið til athafna. Vonandi að meiri umferð manna með gild veiðileyfi stuggi þessum ófögnuði frá ánni og eins mættu leigutakar fylgjast betur með ósnum, en þar eru iðulega lögð net.“
Síðasta sumar var mjög gott í Korpu, 249 laxar og góður slatti af birtingi. Þetta var vel yfir meðalveiði síðustu ára og helgast líklega af tvennu, það var talsvert mikill fiskur í ánni og svo voru skilyrði, þ.e.a.s. góð vatnshæð, góð alla vertíðina.