Nú er stutt í hátíðirnar. Hátíðarmatur og allt það. Mörgum þykja ýmis rauð- og hvítvín góð með hinum ýmsu réttum. Aðrir mega alls ekki bragða á þessum veigum. Malt-appelsín er auðvitað skothelt, að ekki gleymist blessað kranavatni sem er besta vatn í heimi. En eins og oft áður, ætlar Hafliði Loftsson hjá Ber ehf, sérfræðingur í vínum, að stinga upp á góðum vínum með margvíslegri villibráð. Hafliði hefur nú orðið:
Grüner Veltliner Strasser Hasel – með fiski
„Birgit Eichinger þykir meðal beztu víngerðarmanna og -kvenna Austurríkis. Grüner Veltliner er ein aðalþrúgan þar í landi og kallast gjarna Grænir vettlingar með einfaldri hljóðlíkingu á því ylhýra. Grüner Veltliner Strasser Hasel er eitt vinsælasta vín Birgittu. Vínið er fölstrágult með frísklegri lykt af perum, ferskjum og hvítum pipar. Bragðið er ferskt og sýruríkt með votti af eplum, talsverðu kryddi og munnfylli af steinefnum. Gerði mikla lukku á No Concept veitingastaðnum hans Agnars Michelin-stjörnukokks. Vínið er það kröftugt að það ræður vel við flestan fisk, ekki sízt reyktan og grafinn.“
Truchard Vineyards Pinot Noir – með önd
„Víngerð Tony Truchard er staðsett á Carneros svæðinu milli Napa og Sonoma. Þar þykja skilyrði ákjósanlega fyrir ræktun Búrgúndarþrúgnanna Chardonnay og Pinot Noir. Enda eru þessi tvö vín þau eftirsóttustu frá Tony, svo hann annar ekki eftirspurn. Pinot Noir 2021 ilmar af plómum, rabbarbara og villtum jarðarberjum. Áferðin er silkimjúk og þykk. Rauð ber og vanilla í ljúfu bragði með ferskri sýru og mjúkum tannínum.“
El Vínculo – með svartfugli
„Alejandro Fernández heitinn Pesquera-faðir bruggaði aðeins rauðvín úr Tempranillo-þrúgunni. í Campo de Criptana ¿yndislegt bæjarnafn? í La Mancha fann hann gamla víngarða og færði út kvíarnar frá Ribera del Duero. Dökkt, með sterkum spænskum ilmi af svörtum berjum, jarðvegi og eik. Ávaxtaríkt og tannískt. 2019 árgerðin er frískleg með kraftmiklum ávexti og minni sveit (skítalykt) en oft.“
Pesquera Crianza – með gæs
„Pesquera er flaggskip Ribera del Duero-frumkvöðulsins Alejandro Fernandez. Vínið og héraðið varð frægt á níunda áratugnum þegar vínrýnirinn Robert Parker kallaði Pesquera Petrus Spánar. Hann gaf víninu háa einkunn en þó ekki 100/100 eins og flökkusögur herma. Mjög dökkrauðblátt. Sæt svört ber, sólber, bláber og kirsuber, sviðið greni og grillað kjöt í nefi. Fersk appelsínusýra, mjúk tannín, smámynta. Vínið er svolítið villt – eins og gæsin – en flísfellur að dökku kjöti (og reyndar saltfiski sem kemur þessu máli ekki við).“
Ridge Geyserville – með rjúpu
„Geyserville í Alexandersdal Sonoma er uppspretta þessarar sérkennilegu blöndu Zinfandel, Carignane, Petit Sirah o.fl. Bezti Zinfandel í heimi segja sumir. Dökkt. Ágeng svört ber, malarjarðvegur, lakkrís, mynta og framandi krydd. Flókið, breitt, ljúffengt og langt. Miklir vín- og veiðimenn sem hafa veitt villidýr út um allan heim og ¡hata Zinfandel! hafa fullyrt að Ridge Geyserville sé bezta villibráðarvín í heim.“
Vega Sicilia Valbuena – með hreindýri
„Vega Sicilia Valbuena er litla systir Unico en mjög stór systir. Sumir kjósa Valbuenu fram yfir Unico vegna ferskleikans og kraftsins. Hugh Johnson ritar: „Some prefer Valbuena to her big brother“. Dökkfjólublátt, næstum svart. Mikil lykt, sterkur ávöxtur, svört kirsuber, appelsína og grillað kjöt. Flókinn ilmur af kaffi og blómum svífur yfir. Þykkt og bragðmikið með kröftugum ávexti og mjúkri eik í góðu jafnvægi. Flott áferð, mikil mjúk, tannín. Svakalegt vín. Langt og tilkomumikið.“
Heitz Cellar Lot C-91 Cabernet Sauvignon
Joe Heitz var frumkvöðull stakgarðahreyfingarinnar í Napa Valley. Martha’s Vineyard var fyrsti skrásetti víngarðurinn í Kaliforníu (þó ekki af Ágústusi um þetta leyti árs). En með C-91 reyndi Jói heitinn að ná fram sérstökum eiginleikum á sínum tíma með því að blanda saman víni úr skikum góðra víngarða Napa í Oakville, Rutherford, Howell Mountain og St. Helena. Vínið er gert núna skv. upprunalegur forskriftinni. Það er geymt í níu mánuði í mismunandi tegundum tunna. 2016 árgangurinn var sérlega góður í Napa. Eins og fínustu vín heims er C-91 þéttur, langur og flókinn í bragði. Þarna má með góðum vilja finna salvíu, rósmarín (stranddögg), verkað (saltað/þurrkað) kjöt og svartan pipar. Vínið er gott núna en mun þola áratuga geymslu. Stóra systir, Martha’s Vineyard 2002, er ennþá ótrúega ungleg. En Martha’s Vineyard 1970 tók einmitt þátt í Parísarsmökkuninni frægu 1976 þar sem Kalifornía sigraði Bordó. Öllum að óvörum og Frökkum til mikillar gremju.“