Við greindum á dögunum frá nýrri veiðimannabók, Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin var þá ekki komin út og við bara með fréttatilkynningu í höndunum , en nú er hún komin og VoV kíkti í útgáfuhófið.
Það eru óvenju margar bækur fyrir veiðimenn í umferð þessi jól og VoV var nú að rýna í þá þriðju. Höfðum áður skoðað og skrifað um Laxárbókina sem er um urriðasvæðin ofan við Brú og upprifjanir Árna Baldurssonar frá löngum veiðiferli. Báðar frábærar, en um flest ólíkar. Og hér kveður við sama tóninn, frábær en ólík hinum. Þessi fjölbreytileiki er ekkert nema frábær fyrir veiðimenn sem munu geta sökkt sér í allar þessar bækur. Og þær eru fleiri sem við kíkjum kannski einnig á áður en hátíðirnar bresta á.
En hér segjum við frá bókinni Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Þessi bók er söguskráning í hæsta gæðaflokki og hressileg viðbót inn í það sem áður hefur verið ritað um sögu stangaveiða(laxveiða) á Íslandi. Þrír fyrrum hestasveinar, Stefán Þórarinsson, og bræðurnir Arnór og Einar Sigurjónssynir, skrifa textana, en útgefandi er Skrudda. Við króuðum Stefán af smástund í hófinu þó að hann væri upp fyrir haus í að árita bækur. Við spurðum um tilurðina?
„Tildrögin voru að við félagarnir vorum komnir með margar sögur í gegn um tíðina og vinir og veiðiifélagar voru sífellt að róa í okkur að taka þetta saman með útgáfu í huga. Fyrir svona þremur árum síðan var komið að því að hrökkva eða stökkva og þá kom upp úr kafinu að við vorum með hafsjó af sögum og þekkingu. Og höfðum einnig haldið miklum fjölda mynda til haga. Gæðin á þeim voru nú ekki upp á marga fiska og þær voru barns síns tíma, en það er magnað hvað tækni nútímans getur breytt og lagað. Þetta fjallar um veiðar á tuttugustu öldinni og það er sannarlega margt breytt síðan þá. En það er eins og og það er og söguna þarf að skrá og sögurnar þarf að segja. Gamli tíminn svífur samt yfir vötnunum þó að tekist hafi að gefa myndunum betri gæði,“ sagðI Stefán.
Það er margt einstaklega frábært við þessa bók. Sagan rakin er eitt. Annað er t.d. að mörg veiðistaðanöfn í Kjarrá eru skrýtin. Mannanöfn og tölunúmer. Hér er þetta allt útskýrt. Hver var t.d. Ingimar, hver var Wilson, Johnstone og Stewart. Og þannig mætti telja. Við lifum á 21.öld, þessi bók er um síðustu öld og þó að Kjarrá sé enn sú á að hún er ekki allra vegna samgangna og vegalengda, , þá var dvölin við ána enn meira og mikla meira ævintæyri þá en nú.
En við fengum leyfi höfunda til að velja skemmtilega sögu úr bókinni. Valið var erfitt, en við komum okkur loksins niður á þessa, hún ber fyrirsögnina „No, I am sorry sir. It was one of a kind“. Og hér kemur hún, það er Einar Sigurjónsson sem segir frá
-Ég var búinn að vera með þrjá ameríska veiðimenn allan morguninn á heimasvæðinu án þess að þeir fengju fisk. Einn þeirra hafði á orði við mig er við komum upp í veiðihús í matarhléinu hvort ég ætti ekki „some trick up my sleeve“ sem gæti snúið veiðilukkunni við eftir mat. Ég játti því en var samt ekki viss hvað það ætti svo sem að vera. Við höfðum reynt allar bestu flugurnar í boxunum þeirra en ekki fengið einu sinni högg. Eftir smá umhugsun í leit að einhverju datt mér í hug að breyta alveg um flugu. Hnýta í flýti túpu sem kæmi á óvart. Ég tók fram hnýtingardótið , væsið og allt það sem við átti, en þar var ekki túpuefni að finna. Ég greip þá til þess ráðs að taka plaströr úr bírópenna Jónasar, klippa það til og þrífa. Ég átti heldur ekki silfurborða á túpuna þannig að ég tók silfraðan pappír úr sígarettupakka, vafði honum snyrtilega um túpuna, klippti nokkur vel valin hár úr taglinu á trússhestinum mínum, honum , honum Móskjóna og bjó til væng. Ég festi allt með hæfilega mörgum vöfum með svörtum tvinna, bjó til haus og límdi með „head“sementi. Ekki áttum við heppilega þríkrækju svo ég varð að láta þríkrækju af minnsta spúninum okkar nægja þó að hann væri í stærra lagi fyrir fluguna mína.
Síðdegis fórum við síðan niður í Langadrátt sem við áttum fyrstan á vaktinni. Ég tjáði körlunum að ég hefði tekið meðferðis mikið leynivopn sem myndi gefa okkur fisk. Einn þeirra hnýtti fluguna undir. Ég lét hann fá þríkrækju sem ég hafði fundið á minnsta spúninum í veiðidótinu okkar. Ég skynjaði að mönnum fannst þetta heldur skrýtin „tube fly“ en vildu samt reyna hana. Ég bað þá um að fara varlega í bakköstunum, því að baki væri þverhnípt bergið. Best væri að notast við veltiköst, „role casts“ á þessum stað. Fyrstu köstin litu ekki gæfulega út. Flugan hálfflaut í yfirborðinu. Ég hafði tekið hár efst undir taglinu á honum Móskjóna. Þau voru dökkbrún og grá, en ansi fitug og lyktuðu af hrossaskít. Flugan sökk ekki vel í fyrstu og mér leist ekki vel á hvernig þetta byrjaði allt saman. En Kanarnir héldu áfram að reyna og eftir nokkur köst lagaðist þetta og betur fór á flugunni í vatninu. Búmm. Skyndilega tók einn laxinn fluguna og eftir snarpa viðureign var honum landað. Og áfram var veitt og fyrr en varði lágu þrír fiskar á landi. Þá var kominn galsi í karlana og sá er var að veiða gleymdi sér og sleit fluguna af í bakkastinu og eyðilagði hana. „Einar, don’t you have another one“, sagði hann. „No, I am sorry sir, It was one of a kind“, svaraði ég.