Það hefur nú gengið eftir það sem margir hafa líklega hugsað og vonað, að stangaveiðigoðsögnin Árni Baldursson hefur sent frá sér einhverskonar æviminningar. Í veiði með Árna Bald er komin út á vegum bókaforlagsins Sölku.
VoV tók hús á Árna uppi á Vatnsenda í vikunni sem leið. Þá var nýafstaðið útgáfuteiti í húskynnum Sölku þar sem stappað var útúr dyrum og Árni var orðinn dofinn í hægri hendi eftir endalausar áritanir sem urðu á annað hundrað. Þannig að beðið var eftir þessu skrefi Árna. Og við spurðum Árna um tilurð bókarinnar, hver stakk upp á og hver sá um og skráði. Og Árni svaraði:
„Þær eru svakalegar jarðýtur, Dögg og Anna Lea hjá Sölku. Og þá meina ég á góðan og besta veg. Ég var að veiðum í Stóru Laxá í ágúst 2021 með Dögg og Óla karlinum hennar. Dögg veiddi okkur karlana undir borðið, en svo kom hún að máli við mig og vildi mikilvægan fund. Og við settumst niður og hún sagði frá þeirri skoðun sinni að það þyrfti að skrá mína veiðimannsævi á einn hátt eða annan. Ég sagði bara já, ég væri til og þá fór í gang ákveðið ferli. Hún boðaði á hvern fundinn af öðrum, en ég mætti aldrei, ég var alltaf upptekinn að veiða, annað hvort hér á landi, eða úti í heimi. Svo fór að þær voru alveg að gefast upp á mér. og þá varð sú lending að ég myndi tala inn á teip í símanum. Alltaf þegar eitthvað vaknaði hjá mér, þá myndi ég bara tala inn á símann og skrá söguna þannig. Þetta var engin ævisaga, bara örsögur sem myndu í réttu samhengi skrá þetta á réttan hátt. Og þetta var ég til í og margar upptökur eru teknar úti í á með með mig hrasandi og dettandi með árniðinn í bakgrunni. Dögg var mjög brutal með að ég yrði að gera þetta, tíminn biði ekki eftir neinum og þetta yrði að komast á skrá áður en ég fengi alzheimer, elliglöp eða að ég hreinlega dræpist. Svona rök hreyfa við manni.“
En það var ákveðin ástæða var það ekki?
„Jú. Vissulega. Dögg og þau vissu vel að það var komin ákveðin ára á mig. Ég var krafinn um veiðisögur í veiðihúsum, eina í hádaginu lágmark, tvær eða fleiri á kvöldin þegar veiðifólk var að lyfta glösum. Kvöldsögurnar máttu vera subbulegar og grófar. Það var svo komið að mér var farið að förlast, en hlustendur mundu sögurnar betur. Þá var komið að því að skrá þetta og ég samþykkti þetta með Dögg. Málið var einfaldlega, að ég hef veitt um, eins og ég sagði, um allan heim í á fimmta áratug út um allar koppagrundir og kynnst miklum fjölda fólks. Margt af því fólki eru vinir mínir enn í dag og segja má að þetta séu sögur þeirra. Síðan var enginn sem skrásetti þetta sem ég las inn nema þær Dögg og Anna Lea, dugnaðurinn fáheyrður. Þetta urðu á annað hundrað örsögur lesnar inn hér og þar, en mikla vinnu náði ég að klára þegar ég átti veiði í frægri á á Írlandi, vikutúr, en áin var í flóði og óveiðandi allan tímann. Þá hugsaði ég með mér, hér er ég í fínasta aðbúnaði og þarna las ég sleitulaus inn í símann minn.“
En hvernig bók er þetta?
„Þetta eru engin djúpveiðifræði þó að reynsla manns og annarra skíni oft í gegnum frásagnirnar. Þetta eru fyrst og fremst sögur af fólki, af Árna og samferðafólki, enda hef ég veitt um allan heim í líklega ein 45 ár og kynnst á þeim tíma fjölda manns. Margt skemmtilegt hefur borið við og það er það sem ég er að reyna að koma á framfæri. Sögur hafa hlaðist inn og mér hefur tekist að varðveit margar þeirra.“
Og svo er sagt að þeir sem koma við sögu hafi ekkert vitað af því, þú hafir bara látinn gamminn geysa…..
„Já ég lét bara gossa. Tóti vinur minn og fóstri í laxveiðinni (Þórarinn Sigþórsson, Tóti tönn) kemur t.d. hvað eftir annað við sögu og þegar bókin kom út var ég skíthræddur um að hann yrði ekki sáttur. Strax á fyrsta degi byrjaði síminn að hringja, Tóti á línunni. Ég þorði ekki að svara, skíthræddur um að hann væri alveg brjálaður. Daginn eftir hélt þetta áfram og á endanum varð ég auðvitað að svara símanum. Ég beit á jaxlinn og bjó mig undir það versta, en það var óþarfi; Árni, þetta er stórkostlegt“, var það fyrsta sem karlinn sagði. Þá andaði ég nú léttar.“
Þú segir að þetta hafi á endanum orðið á annað hundrað örsögur. Það er þá fullt af efni eftir. Hvað þýðir það, kemur meira út næstu jól?
„Ja, ég bara veit það ekki. Ætli það sé ekki best að bíða og sjá hvaða viðtökur þessi bók fær. Ef að þær verða jákvæðar þá gæti ég alveg verið til í meira.“
Svo mörg voru þau orð, en við fengum leyfi til að birta eina örsögu upp úr bókinni, Árni valdi hana og hér kemur hún, Gítarleikarinn sem gat ekki hætt:
-Eric Clapton kom til Íslands að veiða lax og hann hringir í mig í gegn um kunningja sinn. Ég finn handa honum besta tímann í Ásunum , heila viku og alla ána. Ég sæki hann til Keflavíkur og við brunum af stað, stoppum í Hreðavatnsskála, sem þá var enn opinn og borðum kótilettur. Og hann var svo hrifinn af þeim að hann borðaði annan skammt. Og það fór allt á hliðina í Hreðavatnsskála og kótiletturnar fengu strax nafnið Eric Claptons kótiletts og hétu það í einhver ár eftir þessa heimsókn.
Svo komum við í Ásana og það var ekkert annað en að áin er blá af laxi. Stærsta sumargangan er mætt í ána og ég verð einhvern vegin svo æstur yfir þessu og hann svo rólegur, alveg sultuslakur. Við förum upp í Krókhyl, sem síðar var nefndur Claptons pool, af því að það var uppáhaldsstaðurinn hans. Og þar stóð hann og veiddi hvern fiskinn af öðrum. Svo vildi hann fara snemma heim, sem ég var alls ekki sáttur við enda áin að mestu óveidd. Ég var svona pínu pirraður yfir þessu, vitandi af fiski á bak við hvern stein í ánni. Svo um kvöldið förum við heim og ég fer að grilla í gamla kofanum og honum þótti fínt að vera einn með gædinum. Og það var grillað og borðað og svona. Svo eftir matinn er allt í einu bankað á hurðina. Og ég hugsa, hver gæti þetta verið , og fer að tékka á því . Þá er þetta tíu ára strákur með gítar í höndunum og spyr hvort ég geti fengið Eric til að skrifa nafnið sitt á gítarinn og einhverja litla kveðju. Ég segist skui reyna það og fer með gítarinn og spyr Eric hvort hann sé tilbúinn að skrifa á hann. Og hann segir: „Já, ég skal skrifa eitthvað fallegt á gítarinn en það er eitt skilyrði. Ég vil fá að halda gítarnum alla vikuna og þegar hann sækir gítarinn eftir vikuna verð ég búinn að árita hann.“ Og drengurinn er bara alsæll og skottast heim til sín á næsta sveitabæ. Og svo er búið að kveikja á kertum og allt voða huggulegt hjá okkur tveimur í húsinu. Svo tekur kallinn gítarinn og byrjar að spila. Hann er að semja einhver ný lög og syngja og er kominn í alveg svakalegan gír. Og ég sit einn þarna á móti honum , eini áhorfandinn í salnum. Og tíminn líður og líður og hann hættir ekki. Nú er komið fram að miðnætti og ég er alveg að farast yfir að komast ekki í rúmið., svo að ég geti vaknað nógu snemma og komist í ána. Þegar klukkan slær tólf segi ég bara, „Eric can you please stop singing, this is not good, it’s midnight and we have to go to bed.“ Hann hlýddi og hætti að syngja og hunskaðist í rúmið. Svo fórum við bara að veiða daginn eftir. Svo var þetta svona á hverju einasta kvöldi, hann spilaði og ég bað hann að hafa tónleikana stutta. Það er ekki hægt að spila fram á nótt á besta tíma í Ásunum. Ég held að ég sé sá eini sem hefur beðið Eric Clapton um að hætta að spila.