Út er komin merkileg bók, Laxá – Lífríki og saga mannlífs og veiða. Útgáfufélagið Veraldarofsi gefur út og ritstjóri er Jörundur Guðmundsson. Veraldarofsi er ekkert smáræðis nafn, en svo heitir magnaður veiðistaður í Mývatnssveitinni, bókin fjallar um Laxá í Suður Þingeyjarsýslu ofan virkjunnar, „Mývó og Dalinn“. Urriðasvæðið sem einu sinni átti að eyðileggja að hluta með stækkun stíflu, sleppingu laxaseiða og byggingu laxastiga við virkjunina við Brú.
„Ég ritstýri þessari bók og þetta hefur verið mikil og krefjandi vinna. En að sama skapi skemmtileg og gefandi. Ég fer þarna fyrir hópi manna sem veitt hafa þessi urriðasvæði um langt árabil og hafa tengst svæðunum tryggðarböndum sem munu aldrei slitna. Veraldarofsa skipa sjö veiðimenn, auk Jörundar eru það Ásgeir Steingrímsson, Baldur Sigurðsson, Friðrik Þ. Stefánsson, Jón Aðalsteinn Þorgeirsson, Jón Bragi Gunnarsson og Gísli Gíslason. Mikill texti liggur fyrir eftir Sigurð Magnússon og Ásgeir Steingrímsson . Allir hafa lagt sitt af mörkum, engir þó meira en þeir Sigurður og Ásgeir, sem hafa skrifað mest allan textann er snýr að veiðistöðum og veiði. Söguskráning þeirra Jóns Aðalsteins og Baldurs var rækilega yfirfarin af Jóni Benediktssyniá Auðnum. Hann veiðir lítið í ánni nú orðið. Gerði það mikið á yngri árum, en hann er hafsjór af þekkingu á sögu svæðisins og skrifar meðal annars um þá reynslu. Á hverju veiðisvæði er að finna rammagreinar um merka menn og staði sem veitir dýpri innsýn í þá staði sem menn veiða hverju sinni. Þá er endasprettur bókarinnar eitt og annað, t.d. kafli um lífríkið eftir Gísla Má Gíslason, saga urriðaveiði í Laxá frá landnámi til okkar daga, þættir af veiðum heimamanna og aðkomumanna og kafli Jóns Benediktssonar „Laxárdeilan löngu síðar“, þar sem eitt og annað kemur fram sem ekki hefur litið dagsins ljós til þessa um þetta sögufræga deilumál. Loks má geta þess að endurbirtur er textinn úr bæklingi sem að Stefán heitinn Jónsson skrifaði fyrir margt löngu og heitir Gengið með ánni.“
Þess má geta að Stefán hafði áratuga reynslu af veiðum í ánni og skrifaði bæklinginn þegar stangaveiðifélagið Ármenn tók svæðið á leigu og búist var við mörgum nýjum veiðimönnum sem þekktu svæðið lítið eða ekkert. Bæklingurinn stóð fyrir sínu þó að leigutaka Ármanna hafi ekki gert það og Jörundur segir textann birtan fyrst og fremst fyrir sagnargildið, því ritið er nú barn síns tíma. Furðu margt stendur þó þar sem enn er hundrað prósent.
Stefán var litríkur veiðimaður sem kom víða við en tók sérstöku ástfóstri við Laxá ofan virkjunnar. Í bókinni eru margar frásagnir af veiðimönnum, m.a. þessi, þar sem Stefán kemur við sögu, en frásegjandi er Ásgeir Steingrímsson: