Það þarf stundum að stuða laxinn

Laxar í Teljarastreng. Mynd Heimir Óskarsson.

Það er frekar heilagt hjá flestum veiðimönnum að ekki megi styggja bráð. Það hljómar auðvitað skynsamlega, en á það alltaf við? Dæmi sanna að það getur verið ansi gefandi á veiðidegi að styggja bráðina.

Til eru þeir sem taka andköf þegar einhver öslar út í ána eða vatnið og gusar og skvettir. Eða kallar hátt. Eða fer of framarlega á bakkann eða þrammar of fast á grasbakkanum með holunum undir. En eitt sinn skrifaði sá frægi mentor margra fluguveiðimanna, Lee Wulf, að veiðimaður nokkur hefði ekki fengið töku fyrr en hann henti steini að laxi sem lá nærri honum og bærði ekki á sér, sama hvað þaulað var flugu yfir honum.

Laxar verða sérstaklega erfiðir viðfangs þegar þurrkar hafa staðið lengi, súrefni þverr í ánum að ekki sé talað um að með hausti kólnar vatnið að sama skapi. Þá getur verið hreinasta martröð að fá tökur. Á sana hátt og fín skilyrði að hausti geta gefið mok. En dæmin sanna að breytileikinn getur ráðið úrslitum. Nils Folmer, einn mesti stórlaxaveiðimaður landsins sagði viðtali fyrir nokkrum árum, að til að veiða og veiða vel þyrfti oft að „hugsa út fyrir boxið“. Hér tínum við til nokkur dæmi þar sem alvarlega styggð leiddi af sér tökur.

Fyrsta sagan innifelur þó ekki langa þurrka og kalt árvatn. Heldur kom selur á veiðistað. Ritstjóri var við annan mann í byrjun ágúst við Brennu í Borgarfirði. Eftir kortér vorum við báðir búnir að landa laxi. En þá kom selur og allt fór á annan endann í góðan hálftíma er selurinn elti laxa fram og aftur um allan veiðistaðinn. Ekki sáum við hann ná laxi, en boðarnir og glamparnir voru um allt. Ofboðslegt og geggjað sjónarspil. Svo róaði selurinn sig niður og seig niður ána og var brátt úr augsýn. Við félagarnir veltum því fyrir okkur hvað skyldi til bragðs taka, minnugir sagna þess efnis að ekkert þýddi að kasta í hyl í heilan sólarhring hið minnsta ef að selur hefði gert sig þar heimakominn. En við ákváðum að halda bara áfram og kortéri seinna vorum við báðir búnir að landa laxi og þeir urðu fleiri fram að hádegi. Sem sagt.

Sakkarhólmi, Júlíus H Schopka
Mynd sem Júlíus H Schopka tók við Sakkarhólma í Soginu. Þeir bæta tæplega ástandið, en eru ekki stóri sökudólgurinn.

Á líkum slóðum, þ.e.a.s. uppi í Þverá var ritstjóri með eiginkonunni í lok ágúst fyrir all mörgum árum. Það hafði verið sól með kaldri norðanátt í margar, daga, líklega þrjá vikur eða svo. Áin hafði minnkað mikið. Við vorum við þann fræga stórlaxastað Steinahyl og laxar stukku grútlegnir og letilega um allt. Einn sérlega stór lyfti sér oft í fínasta kastfæri, annars voru þeir á lofti um allt. Við reyndum fjölda flugna, en ekkert gekk. Í þá daga mátti veiða á allt agn og datt okkur þá í hug að koma róti á laxinn með 28 gramma svörtum Tóbí. Honum var bombað yfir hylinn í gott kortér, en það voru engin viðbrögð. En þá var að ljúka planinu og setja undir Black and blue þríkrækju númer 14. Og 12 punda grútleginn hængur kokgleypti hana í öðru kasti. Hann var 90 cm en hafði greinilega lagt verulega af.. Nú er spurningin hvort að þessi höfðingi hefði tekið smáfluguna ef að djúpsprengjan hefði ekki farið á undan?

En kannski magnaðasta sagan. Við hjónum vorum einu sinni sem oftar að veiða á „Fjallinu“ í Langá. Svæðið náði nokkuð niður fyrir Sveðjufoss og þar er að finna Hornhyl. Það hafði varla rignt allt sumarið og miðlunarstíflan var orðin tóm fyrir löng. Það var hrikalega lítið vatn og lítið af laxi hafði gengið upp á „Fjall“. En við vorum þarna hópur með þrjár stangir og þurftum að skipta okkur á milli þriggja staða sem geymdu laxa. Einn þeirra var Hornhylur, þar voru 10-12 laxar. En vatnsmagnið var svo lítið að hylurinn var ekki annað en stórt baðker.

Svo komum við þarna hjónin. Nálguðust hylinn hægt og reiknuðum frekar með að eyða meiri tíma í að úða í okkur bláberjum en að standa í laxveiði. Félagar okkar voru búnir að standa þarna vaktina samviskusamlega en það hreyfði sig aldrei lax eftir flugunni.Þarna á hylnum reyndist vera toppandarmamma með 7-8 hálfvaxna unga. Þegar að við nálguðumst þokuðu endurnar sér neðar sem var fínt því best var að þær myndu bara láta strauminn taka sig og synda eitthvað niður eftir.

En skyndilega ærðist mamma gamla. Hún stakk sér á kaf og allir ungarnir að sjálfsögðu með henni. Við fylltumst hryllingi og röltum að baðkersbrúninni og horfðum ofan í. Þar gat að líta 8-10 toppendur og 10-12 laxa æðandi hring eftir hring í einhverri sturlun.

Við horfðum bara hvort á annað og hörfuðum frá hylnum, settumst í hvamm við hylinn og snérum okkur að bláberjunum. Svo leið smá tíma, einhverjar mínutur. Auðvitað skaut öndunum uppúr öðru hverju, en loks var það mamman og þegar hún skellti sér ekki aftur niður þá fóru ungarnir hver af öðrum að safnast til hennar. Og þegar allir voru komnir þá lét fjölskyldan sig loks síga niður strengina og við fengum að hafa hylinn í friði.

Jæja, hvað þá, hvað næst? Prófaðu bara að kasta á þetta sagði ég við frúna. Hún var með Black Sheep longtail númer 12. Og þegar þriðji laxinn var kominn á land hjá henni þá hættum við, vildum ekki eiga það á hættu að taka fleiri úr hylnum, því á þessum árum var ekki til siðs að sleppa laxi þó að við gerðum það oft. Við gerðum það t.d. oft með því að hætta að veiða þegar takan var botnlaus. Eins og þarna.

Svona uppákomur gleymast seint.