Planið í haust, vetur og fram undir næstu vertíð er að heyra í veiðikörlum- og konum og fá uppgjör þeirra um sumarið þeirra 2024. Laxveiðin var víðast góð og silungsveiðin sömuleiðis. Þannig ættum við að geta fengið algjöran haug af skemmtilegum pælingum og veiðisögum. Þessi efnisflokkur byrjar með ötulli veiðikonu, Hafdísi Guðlaugsdóttur. Við fundum hana einfaldlega á Netinu.
Það er orðinn ofnotaður frasi að konur séu alltaf að gera sig meira og meira gildandi í stangaveiðinni. Þær eru löngu komnar til að vera og fjölmargar þeirra eru afburða veiðimenn.
Hafdís er Garðbæingur og starfar sem gæðastjóri sem smitar eflaust út í áhugamálið. Hún veiðir helst í blönduðu hjónahollli og síðan blönduðum hollum sem skipuð eru „skemmtilegu fólki“. Aðspurð hvar hún veiddi síðast liðið sumar svaraði hún, Affallið, Laxá í Aðaldal, Ytri Rangá og Eystri Rangá, þannig að fyrir utan Affallið er hún hrifnust af kraftinum og kröfunum sem stórar og vatnsmiklar ár bjóða upp á. Hún er að sjálfsögðu fluguveiðikona og eru flugurnar sem hún veiðir mest og best á, Sunray Shadow, Erna, Valbeinn og „Blue eitthvað, sem ég man ekki alveg hvað heitir.“
Í gegn um tíðina hefur Hafdís víða veitt og hún á sína eftirlætisveiðistaði. Það eru staðir sem að hafa gefið manni vel og gefa alltaf fyrirheit um að eitthvað muni gerast. „Það eru engin nöfn á veiðistöðum í Affallinu, en ég er sérstaklega hrifin t.d. af 51, 52 og 60. Þá er Hólmavaðsstíflan í Laxá í Aðaldal með sérstakan stað í hjartanu, sem og nokkrir staðir í báðum Rangánum. Ég gæti rifjað upp nöfnin á þeim ef ég færi á netið, en nöfnin skipta mig ekki svo mikllu máli. Það sem skiptir máli er sú tenging sem ég hef náð við þessa veiðistaði.
-Það er engnin vafi að veiði er eitt af mínum stærstu áhugamálum og tilhlökkunin fyrir fyrsta veiðitúr sumarsins er mikil og veiðigræjurnar eru ávallt tilbúnar til að takast á við þann stóra.
-Fyrsti veiðtúr sumarsins byrjaði í Afallinu sem er lítil og falleg bergvatnsá sem rennur milli Austur og Vestur Landeyja. Þar fékk ég 3 laxa sem teknir voru á Sunray, 68, 69,65 cm. Upp komu 20 fiskar í hollinu, þannig að þetta var fínn túr og góð leið til að opna sumarið.
-Laxá í Aðaldal er drottningin, ein af mínum uppáhaldsám. Dásamleg stemming að renna upp að veiðihúsinu, setja saman og taka síðan fyrsta kastið í ána. Hópurinn er samansettur af gríðalega hressu og skemmtilegu veiðifólki. Þar áttum við 4 góða veiðidaga, borðuðum góðan mat sem við renndum niður með ljúffengu víni.
-Við Hólmavaðsstíflu, rétt neðan við brotið, tók ég 90 cm hrygnu, á flugu, sem barðist örugglega niður ánna. Eftir rúmlega 1 km langa göngu og 20 mínutum síðar var hrygnunni landað með glæsibrag. Annan lax tók ég svo á neðsta svæðinu sem var ca 70 cm. Tekinn á Sunray.
-Ytri Rangá kom mér verulega á óvart, þ.e.a.s. hversu gaman er að veiða í henni. Mér hefur alltaf fundist hún falleg og spennandi. Við hópurinn tókum 2 daga í september, gistum þó ekki í veiðihúsinu, svo það er alveg eftir. Við fengum mjög gott veður, nokkuð hlýtt og logn. Ég veiddi 4 laxa frá 68-75cm á spún , en í september er einnig spúnaveiði. Við veiddum líka einn dag í Eystri Rangá í september. Gríðalega falleg á, en enginn lax kom upp þar að þessu sinni. Þannig lauk minni vertíð 2024 og ekki hægt að segja annað en að hún hafi skilið eftir góðar og fallegar minningar..