Út úr komin stórmerkileg bók. Brotthvarf til horfinna tíma og dásamlegt að það séu ekki aðeins nokkrir enn á lífi sem upplifðu þessa tíma, heldur fundu þeir hjá sér þrek og þor til að koma saman og skrifa um það bók til að þessi hluti af fortíð stangaveiði á Íslandi falli ekki í gleymskunar dá. Stefán Þórarinsson er í forsvari fyrir þessa eftirlifendur og þeir hafa fengið fleiri með sér til að gera góða bók enn betri. Hér birtum við stutta kynningu Stefáns á bókinni:
„Við höfundarnir bókarinnar, Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól, sem ætlunin er að gefa út fyrir nú í haust, höfðum lengi haft hug á því að skrifa bók um veru okkar á Víghól við fjallveiðina í Kjarrá á unglingsárum. Minningarnar eru margar og ljúfar frá þessum tíma og oft höfum við rifjað upp sögur og frásagnir af tíma okkar á Fjallinu í góðra vina hópi.
Það var svo fyrir tæpum þremur árum að við tókum okkur tak og hófumst handa við að skrifa með það að markmiði að koma þessu efni á bók sem í senn varðveitti þá sérstöku sögu sem laxveiðar í Kjarrá voru áður en vegsamband komst á með ánni. Sögu sem geymir að hluta tenginguna frá upphafi stangveiða enskra veiðimanna við ána við nútímann. Sögu af forvígismönnum Veiðifélags Þverár og leigutaka sem tóku við keflinu af ensku veiðimönnunum og byggðu upp íslenskan veiðirekstur og tryggðu jafnframt sjálfbærni árinnar.
Við bókarskrifin höfum við notið stuðnings fjölmargra aðila sem bæði hafa lagt til efni í bókina og stutt okkur með öðrum hætti. Þau Hjördís Stefánsdóttir, Pétur Kjartansson, Valdimar Ásmundsson og Jónas Sigurðsson ljáðu okkur minningabrot sín sem mikill fengur er að. Eins hefur Eggert Elías Ólafsson, fyrrum bóndi í Kvíum og veiðivörður með ánni til fjölda ára, bæði hvatt okkur til dáða og hjálpað með margvíslegum hætti með efni og yfirlestur. Pétur Kjartansson og Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknarstofnun lásu yfir valda kafla. Jóhanna Skúladóttir, héraðsskjalavörður Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar, hjálpaði okkur með aðgang að skjölum og vinnuaðstöðu í safninu. Bókin er prýdd fjölda mynda sem ekki hafa birst opinberlega fyrr sem mikill fengur er af. Bókaútgáfan Skrudda gefur út bókina. Bókin skiptist í fimm kafla,
1. Á valdi minninganna
2. Lífið á Víghól
3. Áin og laxinn
4. Veiðistaðir og veiðisögur
5. Þegar haustaði á Víghól
SÍÐUSTU HESTASVEINARNIR Á VÍGHÓL
Bókin Kjarrá og Síðustu Hestasveinarnir á Víghól fjallar um veru og störf þeirra í Fjallveiðinni í Kjarrá, um hesta, laxveiði, veiðimenn og náttúruna í heiðalöndum árinnar. Hún er óður til árinnar, ástríðufullra laxveiðimanna úr öllum áttum, hestana sem gegndu sínu upprunalega hlutverki í tilveru sinni á Íslandi, til sveitarinnar og fólksins sem þar bjó og hinnar undursamlegu óspilltu náttúru heiðanna sem fæddu af sér ána. Hún er einnig þroskasaga ungra pilta sem takast á við að halda utan um veiðimenn og hesta með ánni við erfið skilyrði, leiðsegja og hjálpa þeim í laxveiðinni og greiða götu þeirra í sætu sem súru. Við sögu kemur fjöldi fólks og þjóðþekktra einstaklinga sem endurspeglar hið sérstaka samspil manna, hesta og náttúru við laxveiðar á Fjalli, fjarri öllum nútíma þægindum. Rauði þráðurinn er áin og laxinn hennar með sínum fjölbreytileika og ótrúlegum uppákomum sem hentu veiðimenn í glímu sinni við, ána, laxinn og hestana. Sumarið 1974 brann veiðihúsið að Víghól til kaldra kola um hánótt sem markaði endalok þessa tíma sem hestasveinar störfuðu sumarlangt við laxveiðiár á Íslandi. Höfundar bókarinnar eru fyrrum hestasveinarnir Arnór Sigurjónsson, Einar Sigurjónsson og Stefán Þórarinsson.