Þorbjörn Helgi Þórðarson er veiðimaður af lífi og sál. Ástríðuveiðimaður og kallar fluguveiðina lífsstíl, Hann veiðir fyrst og fremst lax í mörgum þekktum ám og hnýtir og hannar sínar eigin flugur. Og veiðir á sínar eigin flugur. Hann hannar einnig handverk eins og fluguveski, flugubox, mælingarólar úr leðri og fleira. Þetta er ekki fjöldaframleiðsla, en það er hægt að leggja inn pantanir og margt af því sem hann framleiðir má sjá í versluninni Veiðiflugum á Langoltsvegi. Þetta er vinsæl gjafavara veiðimanna.
Þorbjörn er frekar áberandi á FB með flugur sínar og aðrar vörur og það er kannski framleiðslunafnið sem vekur ekki síður athygli en stórkostlegt handbragðið. Margir þekkja vörumerkið „Reiðari öndin“.
VoV settist niður með reiðu öndinni Þorbirni fyrir skemmstu til að tala um flugur, lífsstíl og aðrar tilfallandi hugrenningar. Við völdum saman yfirskriftina Fimm flugur, en vissum vel að samtalið myndi ná langt út fyrir einhverjar fimm eftirlætisflugur. T.d. bættist sjötta eftirlætisflugan við.
Þorbjönn er Garðbæingur og hann þurfti á sínum tíma að minna ritstjóra VoV á að hann ásamt góðum ,nú látnum veiðifélaga, Jóni Sævari Jörundssyni, vorum eiginlega til staðar til að styðja hann fyrstu skrefin í veiðiskap. Við Jón vorum nokkrum árum eldri og reynsluboltar bæði í Vífilstaðavatni og Vífilstaðalæknum, sem í þá daga var vatnsmeiri en nú og fullur af fiski. Algjör kennslustofa, en það er annað mál. En mamma Þorbjörns leyfði honum að fara að veiða gegn því að við eldri reynsluboltarnir tækju hann með og pössuðum upp á hann. „Síðan liðu árin, maður bætti við sig, fór í Elliðavatn, Þingvallavatn, sömu slóð og eflaust margir aðrir. Og hér erum við í dag,“ sagði reiða öndin þegar hún rifjaði upp þessi fyrstu ár.
Og síðan hafa „aldir runnið í tímans haf“ eins og Björn Blöndal skrifaði forðum, er hann lýsti Svarthöfða, ástkæra veiðistaðnum sínum með steingerðu skeljarnar sínar í hörðnuðum leirsteininum. Í dag þekkja flestir fluguveiðimenn Þorbjörn Helga sem afburða fluguveiðimann, fluguhnýtara í efstu hillu og mann með hjartað stórt og hlýtt á réttum stað.
Við byrjuðum á því að tala um flugurnar. Þekktasta fluga Þorbjörns er Valbeinn. Valbeinn er líklega þekktust sem túpufluga á álbúk. En hún er einnig hnýtt á hexagonu, 12-14 í tvíkrækjum og 16-18 í þríkrækjum. Þá er líka til straumfluguútgáfa af Valbeini. Þorbjörn gengst fúslega við því að Valbein megi flokka sem eina af ýmsum útgáfum Sunray flugunnar, enda hafi uppruni hennar verið sá að hann hitti Skúla Kristinsson hnýtara sem þá var að hnýta fluguna Bismó, enn eina útgáfuna af Sunray, til notkunar í Rangánum þar sem hann leiðsagði lengi vel.“Ég fór heim með þessa flugu í hausnum og langaði til að gera eitthvað með hugmyndina. Ég er ekkert feiminn við að hnýta þekktar flugur og ef ég bæti einhverju við eða breyti einhverju, þá einfaldlega gef ég smíðinni nýtt nafn. Ég notaði bláa litinn úr Ármótaflugunni hans Kolbeins Grímssonar, var tíður gestur í þeirri verslun, og þegar vinur minn Valgarð Ragnarsson sá hana hjá mér, vildi hann fá nokkur eintök. Hann var að fara að leiðsegja í Hofsá. Fljótlega gerði hann þau boð til mín að hann vildi fleiri, flugan var að reynast fantavel og þær voru bæði að tína tölunni og tætast upp. Hann fékk annan skammt og veislan hélt áfram, flugan var fantagóð. Það þurfti að skýra hana auðvitað, Val-beinn er tilkomið af nöfnum þeirra tveggja snillinga sem lögðu svo mikið í gerð hennar, Val fyrir Valgarð og beinn fyrir Kolbein. Og nú fæst þessi fluga líka með scull.“
Þá er ein af nýrri flugunum, Hreggur. Hún er með áberandi órans í hnýtingunni og best að skoða bara myndina til að átta sig betur á henni. Þorbjörn Helgi segir að hann hafi hnýtt þessa flugu „eitthvað út í loftið“, en kunningi hans góður Brynjólfur Hreggviðsson, sá er rekur Norðurá í samstarfi við Rafn Val Alfreðsson, sá fluguna, var á leið í Sogið og falaðist eftir nokkrum eintökum því honum litist vel á hana. Hér var um tommulanga áltúpu að ræða. En til að gera langa sögu stutta þá veiddi Brynjólfur mjög vel á fluguna og eftir að hann var kominn í samstarfið við Norðurá panataði hann slatta til að hafa á boðstólum þar. Og þetta virkaði ekki síður þar og pöntunum fjölgaði. Nú hefur flugan gefið laxa vítt og breytt. Ég sagði Binna að hann mætti eiga heiðurinn af því að skýra fluguna og hlaut hún nafnið Hreggur, sem fer henni vel.
Þorbjörn Helgi er að komast á flug, næst nefnir hann flugu sem er alls ekki eftir hann sjálfan, heldur á uppruna sinn í huga hans frá Árna Guðbjörnssyni sem lengi var leiðsögumaður í Vatnsdalsá. Það er flugan Arndilly Fancy. „Af hverju er þessi fluga jafn skæð og raun ber vitni? Í henni eru nokkrir af þeim höfuðlitum sem prýða bestu laxaflugurnar. Blátt, gult og svart ásamt fleiri raunar. Árni smitaði Bjössa (Rúnarsson leigutaka) og Bjössi smitaði mig. Þessi fluga hefur gefið mér svo endalausar og magnaðar minningar, sérstaklega í Vatnsdalnum, en hún virkar samt alls staðar. Er samt ein af allt of mörgum laxaflugum sem of fáir eiga og nota og því síður reyna. Hjá allt of mörgum er það alltaf Sunray, Frances og Snælda…“
En út frá Arndilly Fancy fór ég að leika mér smávegis, gera afbrigði af þessari uppáhaldflugu minni. Það er til dæmis Fröken Fancy. Hún er Arndilly Fancy að grunni til, ég hef bætt mjög sýnilegum grænum lit við hana. Fröken Fancy hefur reynst frábær fluga, t.d. í Hofsá og Selá, en það er með hana eins og fleiri af flugum mínum, það er engin fjöldaframleiðsla þannig að hún skorar ekki á pari við SS, Frances og hina fastagestina í veiðiskýrslunum. Síðað er ég með Silver Fancy, sömuleiðis Arndilly Fancy að upplagi, en er með silfur og órans í búk til að hafa hana frávikstegund. Hún hefur líka reynst sérlega vel, sérstaklega sem vorveiðifluga.
Og talandi um vorveiðiflugur, fimmta flugan sem ég ætla að nefna er Silver Wilkinson. Það er gömul klassísk fluga sem hefur fengið nýja lífdaga hin seinni ár sem longtail á silfurþríkrækju. Þetta er fluga sem ég held að Árni Baldursson hafi kynnt fyrir mér á sínum tíma og ég nota oft með frábærum árangri. En það er ekkert grín að hnýta þessa flugu, því eins einföld og hún lítur út fyrir að vera, þá eru engu að síður 13 efni í henni.“
Og Þorbjörn er líka fastheldinn og íhaldssamur á veiðiaðferðir. Hann hitsar til dæmis sjaldan. En hefur gaman að því að strippa. Þá segir hann reynast sér vel að kasta 45 gráður, lyfta stönginni og leyfa flugunni að rása í yfirborðinu í átt að bakka án þess að hreyfa hana. Hann segir það ekki síðri aðferð en að hitsa. Þá segir hann vanmetið hversu spennandi djúpveiði á dauðareki sé…..“þegar flugan bara stoppar og þú finnur fyrirstöðuna. Og veist ekkert hvað er á endanum, stórt eða smátt. Eða bara steinn eða hnaus! Algerlega geggjað móment,“ sagði Þorbjörn Helgi.
Hér með fylgja nokkrar myndir af nefndum flugum Þorbjörns. Við höfums sama háttinn á og fyrrum er við fjölluðum um flugur, að tína ekki til uppskriftir, menn einfaldlega hnýta sína eigin útfærslu ef að flugan vekur áhugann.