Mathákurinn mikli Salmo trutta

Urriði, hagamús
Urriðinn vílar ekkert fyrir sér, eins og sjá má!

Það sem urriði getur látið „inn fyrir varir sínar“ er fjölbreytilegt í meira lagi og gefur veiðimönnum tækifæri til að færa út hugmyndarflugið. Fyrir mörgum árum veiddist urriði einhvers staðar fyrir austan og í belg hans var minkahvolpur. Urriðinn var ekki nema 2 punda.

Það er alls ekki algengt að slægðir urriðar skili af sér vænum bitum. Ritstjóri fékk einu sinni að fljóta með í netjavitun á Apavatni. Það kom slatti af bleikju í netin, sem svo kom einn urriði. Hann var ekki nema tveggja pundari, en um leið og hann var innbyrtur inn fyrir borðstokkinn voru hornsíli strax farin að hrúgast út um kjaftinn. Mörg féllu aftur í vatnið og önnur lentu í bátnum og þegar urriðinn var rotaður frussuðust hornsíli um allan bát. Þetta var svo magnað að ritstjóri gerði sér far um að tína til og telja. Upp úr slægðum urriðanum komu ríflega 50 hornsíli og það voru góðir tveir tugir til viðbótar sem hrukku til baka út í vatnið. Enda var þessi urriði feitur vel.

Hagamýs eru á matseðlinum. Það er algengt að þær fái sér sundspretti til að komast yfir á bakka þar sem grasið er talið vera grænna. Margar lifa ekki þann sundsprett af. Margir hafa hnýtt flugur í músalíki, ef að það er þá hægt að kalla það flugur ef líkt er eftir mús. Það eru all nokkrir áratugir síðan að menn fóru að fikta við þetta. Rafn heitinn Hafnfjörð, sá mikli fluguveiðimeistari og ljósmyndari sá einhverju sinni urriða hrifsa til sín syndandi mús og hnýtti nokkrar eftirlíkingar. Þetta var í Laxá í Mývatnssveit og sumarið eftir fékk hann mikil viðbrögð frá stórum urriðum er mýsnar hans fleytu sér í vatnsskorpunni. Hann fékk æðisgengnar eftirfarir og mörg heiftarleg „hrifs“. En aldrei festist hjá honum og hann ályktaði að hönnunin væri röng, „flugan“ of stór og öngullinn ekki rétt staðsettur. Það fylgdi ekki sögunni hvort að Rafna fylgdi þessari skemmtilegu tilraun eftir, en síðan hafa ýmsir hnýtt músarflugur og fengið stóra urriða.

Andarungar eru einnig á matseðlinum og mögulega erfiðara að gera af þeim eftirlíkingar á fluguönglum. Nýklaktir æðarungar á Mýrarvatni við Laxamýri áttu það til að lenda í urriðakjöftum. En svakalegasta dæmið sem við höfum heyrt af átti sér stað við Langavatn á Mýrum. Fyrir tíma vatnsmiðlunarstíflu við upptakaós Langár, var stór stofn stórvaxinna urriða á svæðinu. Mikið var um þá í vatninu yfir sumarið og svo gengu þeir niður í Langá til hrygningar á haustinn. Þessi magnaði urriðastofn má heita að sé horfinn, eðlilega má segja, þegar fiski er ekki lengur gert kleift að komast á hrygningarstöðvar sínar. En á þessum árum, fyrir tíma stíflunnar, voru Garðar H Svavavsson og félagar hans með vatnið á leigu um tíma og það skemmtilegasta sem þeir gerðu var að róa út á djúpmið og draga spún á eftir bátnum. Þeir fengu marga stóra urriða, m.a. einn 22 punda sem var með átta hálfvaxna toppandarunga í belgnum. Annar sem þeir settu verður ævinlega ráðgáta. Sá tók spóninn og dróg bátinn fram og aftur um vatnið í 40 mínútur áður en hann sleit svera línuna. Þeir sáu aldrei til hans.Svo eru menn að setja í risaurriða á örsmáar þurrflugur í Þingvallavatni.