Eru álar af þessum heimi?

Állinn er dularfull tegund sem meira var af í íslenskum vötnum og ám hér fyrrum. Var jafnvel talin nytjategund í eina tíð. Hvers vegna þessa mikla fækkun hefur orðið er erfitt að ráða í. Skrifuð var heil bók um álinn og leiddar voru getur að því að ofveiði á „glerál“ lirfum eða seiðum ála hafi skipt sköpum. Svo eru breyttir hafstraumar og loftslagshlýnun….og örugglega fleira af manngerðu rugli manna með náttúruna. En ritstjóri hafði heilmikið af álum að segja hér forðum. Gaman að deila einhverju af því hér.

Ritstjóri er núna nær 70 árum en 60 og markverðasta uppeldið var þar sem hét þá Garðahreppur, en er auðvitað í dag Garðabær. Flutti þangað tólf ára og var þá búinn að veiða fyrstu laxana og eitthvað af silungi að auki. En þarna var lækur….Vífilstaðalækur, Hraunsholtslækur….þessi spræna rennur úr Vífilstaðavatni og til sjávar í Arnarvogi.

Þarna lærði ég að veiða. Lesa vatn, fara varlega, passa skuggann og margt fleira, enda er svona lækur afar viðkvæmt veiðivatn, en nóg var þar af silungi. Urriða. Í vatninu var líka bleikja. Þar veiddum við líka. Ævintýrasögur af löxum gengu öðru hvoru og einu sinni fundum við hoplax í ósnum og einu sinni lágu fjorir sjóbirtingar í streng undir brúnni þar sem þá hét Hafnarfjarðarvegur. En af mörg hundruð urriðum sem ég veiddi í þessum læk í æskunni, var aðeins einn sjóbirtingur.

En við vinirnir höfðum ekki lengi stundað lækinn þegar við urðum þess varir að þar voru álar. Löng breiða með drullubotni neðan við neðstu Flatirnar, þeir voru helst þar. Við komum á björtum sumarkvöldum og röltum hægt og rólega og horfðum á drulluna. Þetta var þannig að maður sá allt í einu hausinn kíkjandi upp úr drullunni. Þetta var eins og að tína maðka á rigningarnóttu. Maður slakaði maðki á litlum öngli að hausnum í drullunni og annað hvort hvarf hann líkt og skoskur maðkur sem verður fyrir styggð…eða, að állinn var búinn að vera að gægjast nógu lengi til að vera orðinn slakur. Og þá gleyptu þeir maðkinn.

Fyrsta kvöldið á þessum álaveiðum var afdrifaríkt og eftirminnilegt í senn. Ég landaði tveimur vel stórum álum. Að landa ál er eitt. Að koma höndum yfir hann og hvað þá losa úr honum er annað. Það gekk betur með annan álinn, en verr með hinn. Það sannaðist þarna að állinn er háll sem áll.

Þetta er ekki falleg saga. Seinni állinn gaf sig ekki fyrr en búið var að fletja út hausinn á honum með steini og klippa á girnið, enda var öngullinn langt ofan í honum. Sennilega í maganum.

En þessir álar fóru í poka og þegar heim var komið sturlaðist móðir mín og rak mig út með aflann með hrópum og geðshræringu. Þá fyrst áttaði ég mig á því hvað álar geta haft slæm áhrif á fólk. Það sér ekki fiska, heldur slöngur.

Hálf volandi drattaðist ég með pokann aftur niður að læk og henti dauðu álunum aftur út í. Ég fékk ekki einu sinni leyfi til að henda þeim í ruslatunnuna.

Og hvað? Sá með útflatta hausinn og öngulinn í maganum synti í burtu, á meðan hinn sökk hægt og rólega ofan í drulluna..

Önnur saga úr Læknum gerðist ofar í læknum. Neðan við Efri Flatirnar voru 3-4 „hyljir“. Allir geymdu silung, en einn var bestur. Best var að standa efst við innfallið og slaka maðki niður strenginn og út á dýpið. Með hléum var hægt að ná þarna 2-3 urriðum. En sinu sinni gerðist annað. Það tók áll og hann var nokkuð stór. Eftir þó nokkuð þjark að ná valdi á stöðunni varð allt fast. Og við engu varð hróflað. Þegar rýnt var betur ofan í hylinn kom í ljós að barnakerra lá þar á botninum og var állinn búinn að rammflækja línuna í kerrunni. Var nú einn guttinn sendur upp í hverfi að sækja hrífu og þegar hún var komin á lækjarbakkann var krakað í kerruna og hún dregin upp úr hylnum. Og állinn með. Hann var búinn að rammflækja línuna svo kirfilega með fjölda snúninga um kerruna að hann gat ekki hreyft sig lengur. Þannig að auðvelt var að aflífa þennan, en það þurfti að skera línuna frá stönginni og seinna sótti ung móðir kerruna sína, henni hafði verið stolið og fyrir þessa tilviljun fannst hún. Og var nothæf enn.

Og enn ein saga. Hún er um veiðimann sem skrapp að kvöldi að Elliðavatn um kvöld og kastaði maðki út með sökku og letingja. Hann ætlaði að njóta fagurs sumarkvölds og losa um streitu hversdagsins. Enginn silungur gaf sig þetta fallega kvöld, en tvo ála veiddi hann og lenti í þessum dæmigerðu hremmingum að handsama á þurru, rota og losa. Þeir fóru svo í Hagkaupspokann og var svo hent í eldhúsvaskinn þegar heim var komið. Það var nóg að prósessa afla kvöldsins morguninn etfir. En síðla nætur vaknaði veiðimaðurinn við skerandi óp og öskur. Þau komu úr barka eiginkonu hans. Hún hafði vaknað og faripð fram í eldhús til að renna sér í vatnsglas. En það sem við blasti vvoru tvær stórar svartar slöngur iðandi í vaskinum. Í þessu tilviki var ekki lokað á að nota ruslatunnurnar.

 

Óveðrið

Eitt sinn að hausti gekk mikið óveður yfir og við vinirnir, sem veiddum saman í læknum og vatninu og fylgdumst með fuglalífi og gróðurfari, fórum upp að vatni.

Það hafði gengið mikið á og á norðaustur- og austurströnd vatnsins höfðu stórir hraukar af vatnagróðri kastast upp á land. Við fórum að róta í þessu og þarna voru dauðir glerálar í hundraðatali. Kannski þúsunda.

Gleráll.

Talandi um glerála, sem eru seiði/lirfur ála, sem koma úr Þanghafinu og ganga upp í vötn og ár. Eitt sinn á síðsumri var ég að veiðum í Elliðaánum. Það var slagveður af verri gerðinni, rok, rigning og áin orðin skoluð. Ég kom að Höfuðhyl og varla hægt að koma flugunni út fyrir austan rokinu, þannig að ég fékk þá flugu í hausinn að príla upp eftir laxastiganum og koma mér út í hólmann.

Í prílinu sá ég svo allt í einu glerála út um allt. Skríðandi upp steyptu veggina. Ómögulegt að segja til um fjöldann, en þarna var glerálaganga. Sú eina sem ég hef á ævinni séð.

Þegar yfir á hinn bakkann var komið sá ég að efst í strengnum voru boðar og skvettir. Án þess að hugsa eitt eða neitt, fór ég að gramsa í boxunum. Fann loks Yellow Dog Waddington túbu sem Eyþór kokkur hafði gefið mér. Ég fann að ég átti ekki annað sem minnti á lit glerálanna og slengdi þessu út í strenginn. Og landaði 5 og 6 punda urrðium. Báðir voru stappaðir af glerál.

Miðfoss

Til að ljúka þessu, þá hefur rifjast upp saga sem Þórður heitinn, Pétursson sagði okkur fyrir mörgum árum. Hann var einn helsti leiðsögumaður og veiðimaður Laxár í Aðaldal. Á hans merktarárum var enn veitt á maðk í Laxá og einn helsti maðkapytturinn var Miðfoss. Smátt og smátt varð hann allur vaðandi í festum. Festan var staðbundin og erfitt að forðast hana. Dag einn ákvað Doddi að hreinsa upp alla línustubbana í festunum. Með þolinmæði og úthugsuðum aðferðum náði hann yfir 50 önglum og línustubbum. Og haug af sökkum. Innsti öngullinn var fremur sérstakur. Á honum var dragúldinn magagleyptur áll.