Af tví – og jafnvel þríveiddum löxum

Þessa mynd birtu aðstandendur Laxár í Kjós, myndin er ekki ný, fallegur lax að vippa sér upp Laxfoss.

Sporðaköst sögðu frá því fyrir nokkrum dögum að einn og sami laxinn hefði veiðst tvisvar í Stóru Laxá í Hreppum. Endurveiði og jafnvel endur-endurveiði á löxum er þekkt fyrirbæri og gerist all oft. En menn vita lítið um það nema að staðið hafi verið fyrir merkingum.

V-S hefur að mestu tvíþættan tilgang í laxveiðiám. Númer eitt er auðvitað að hafa sem flesta laxa lifandi í ánni til hrygningar að hausti. Þetta skiptir ekki hvað minnstu máli þegar laxastofnar víða hafa hnignað. Númer tvö er, að það er að sjálfsögðu einnig markaðslegur ávinningur, að selja í laxveiðiá þar sem laxinn er næstum allur sprækur sem lækur, sérstaklega þegar líður á haustin, en með gamla kerfinu þegar allt var drepið, var oft orðinn þunnskipaður bekkurinn á haustin….og veiðileyfi þá erfið í sölu, sama hversu miklu ódýrari það voru heldur en á „prime time“. Nú til dags eru haustdagar miklu dýrari en fyrrum, en seljast samt miklu betur.

En umræddur lax í Stóru Laxá veiddist fyrst 22.júní og var þá 92 cm. Undir lok september veiddist hann svo aftur og þá í sama veiðistaðnum, Bergsnös. Var þá orðinn 94 cm fyrir tilstilli króksins á neðri skolti sem lengist á hængum á haustin. Ef að menn ætla að rjúfa 100 cm múrinn er samkvæmt þessu vænlegast að veiða á haustin. En við þekkjum dæmi frá Víðidalsá fyrir nokkrum árum þar sem stórlax hafði lengst um 4 cm er hann var dreginn að landi í annað sinn. Þá um haust.

Menn hafa löngum verið með átök í slöngumerkingum til að freista þess að finna út tíðni þeirra laxa sem láta plata sig tvisvar. Hvað þá þrisvar. Hafa menn komist upp í allt að 25 prósenta endurveiði. Sú tala lækkar svo umtalsvert með þríveidda laxa. En V-S á auðvitað að halda sem flestum veiddum löxum á lífi. Þess vegna er ein sagan sem við rifjuðum upp við lestur fréttarinnar á Sporðaköstum sannkölluð sorgarsaga. Kannski skutum við henni inn hér áður, en svona er sagan:

Lárus Gunnsteinsson var að veiðum í Hölkná í Þistilfirði og voru hann og félagar hans með fulla vasa af slöngumerkjum, bæði fyrir sig og þá sem eftir áttu að koma. Þetta var snemma í júlí og Lárus setti von bráðar í fallega hrygnu, ríflega 80 cm og synti hún aftur út í á með slöngumerki í bakinu. Daginn eftir setti Lárus síðan í sama fisk mun ofar í ánni. Sleppti hrygnunni að sjálfsögðu aftur. Nú leið og beið og engar fregnir bárust af hrygnunni. Þangað til á lokadegi vertíðarinnar. Þá magagleypti hún maðk í efsta veiðistað Hölknár og endaði líklega í reykhúsi. Þannig var nú það.

Þó að það sé kannski óskylt þessu umtalsefni, þá væri ekki úr vegi að rifja upp annan vinkil. Segjum þá frá tilraun sem Haukur Geir Garðarsson gerði í Laxá í Leirársveit fyrir all mörgum árum. Hann fór að vori til að huga að sjóbirtingi, en hafði með slatta af slöngumerkjum með sér. Þegar til kom landaði hann slatta af hoplaxi og merkti þá alla. Í hönd fór fremur dræmt laxasumar á landsvísu, en furðu margir af þessum hoplöxum veiddust strax um sumarið, höfðu lítið lengst og lítið fitnað, en gengu í ána strax aftur, voru ekkert að bíða eftir næsta ári. Munaði um þessa laxa í heildaraflanum. Okkur minnir að átak í svona merkingum hafi eitt sinn verið gert í Leirvogsá. Þá gengu líka margir merktir hoplaxar í ána sumarið eftir vorið sem þeir gengu út. Ef minnið svíkur ekki, náðu þeir 25 prósent af sumaraflanum. Þetta var líka dræmt sumar og munaði því um innspýtinguna á árganginum sem samkvæmt reglunni hefði átt að koma aftur árið eftir sem „tveggja ára lax“.