Síðustu árin, eða frá 2021 hafa þeir Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingum hjá Laxfiskum og Björn Theodórsson fiskeldisfræðingur verið að koma nýrri laveiðiá í gagnið. Það tekur tíma, en fer væntanlega á flug þegar lokið er við fiskvegagerð. Þetta er Laxá á Keldum, þverá Eystri Rangár og er ofan við Tungufoss.
Á FB síðu sem þeir félagar hafa sett upp þar sem fylgjast má með ævintýrinu segir m.a.: „Forathuganir 2021-2023 vísa til þess að ársvæðið ofan Tungufoss í Eystri-Rangá henti laxi þegar komið er upp fyrir lindána Teitsvötn. Þetta eru upplýsingar sem gleðja þá sem standa að því að koma upp sjálbærum laxastofni í þessari verðandi vin laxins í Eystri-Rangá. Um leið er ekki að efa að veiðiréttarhafar neðan Tungufoss samgleðjast enda fara hagsmunir þessara aðila saman. Fram undan eru spennandi verkefni sem felast í því að koma málum þannig fyrir að laxaseiði dafni í sem mestum fjölda á þessu svæði ofan Tungufoss – sem og í því að vinna samhliða að því að að ganga frá fiskvegi sem geri laxi af svæðinu fært að ganga á þetta nýja búsvæði til hrygningar þegar hann skilar sér úr hafi.“
Seinna í pistlinum má lesa eftirfarandi: „Þegar fiskvegurinn verður kominn þá mun lax geta gengið með sjálfbærum hætti upp ána og nýtt svæðið til búsvæða og hrygninga. Hér er verið að horfa til langs tíma, skilgreind markmið og búið að vinna í þeim frá árinu 2021. Þetta er miklu vandaðri aðkoma en ég hef séð lengi. Það er mikill varnarsigur að finna vatnakerfi sem er með sömu lengd og þrefaldar Elliðaárnar eða Laxá í Leirársveiit að lengd. Nú þegar hefur fyrsti árgangur af sjálfbærum laxaseiðum gengið niður ána til sjávar og von er á fyrstu löxunum til baka í sumar. Þeir laxar vilja ólmir komast upp á sín búsvæði og er fiskvegurinn þeirra leið þangað. Þessi framkvæmd er líklega ein sú stærsta í eflingu nýrra búsvæða og stækkun íslensks laxastofnsins.“ Lesa má meira um verkefnið á FB síðunni sem kennd er við Laá á Keldum.