Sogið….eins og Geirfuglinn, nema bara ekki síðust heldur fyrst?

Glímt við lax í Kúagili Alviðrumegin í Soginu. Þessi lak af í löndun, en sett var í þrjá sem allir sluppu og lax að sýna sig víða. Myndin er fengin frá veida.is, veiðileyfasöluvefnum.

Talandi um ný viðmið, það er kannski svolítið til í því, þar sem bati þessa sumars er borinn gjarnan saman við arfaslakt sumar í fyrra. En bati er bati og honum ber að fagna. En það er ekki alls staðar bati, t.d. Blands….nú eða Sogið og það er kapítuli út af fyrir sig.

Árni Baldursson, sá landsfrægi veiðigarpur, er landeigandi við Sogið og áin rennur um æðar hans saman við blóðið. Sogið hefur verið á niðurleið í mörg ár og ef til vill má segja að botninum hafi verið náð í sumar, þegar áin rétt losaði 100 laxa. Nú er Sogið enginn smá á. Alviðra með 3 stangir, Þrastarlundur með eina laxastöng og aðra í silungi sem gaf oft lax forðum, Bíldsfell 3 stangir, Torfastaðir, aðallega bleikjusvæði en með góðri laavon, Ásgarður 3 stangir á laxasvæði og aðrar á silungasvæði sem oft gaf lax. Syðri Brú síðan með eina stöng. Þetta eru ansi margar stangir að skipta með sér ríflega hundrað löxum.

Sogið er illa sjálfbær út af botnlagi, vatnskulda og vatnshæðarsveiflum sem Landsvirkjun ber ábyrgð á. Áin hefur treyst mjög á Ásgarðsá til að fjölga laxi. Hún sprænan sú ein og sér ræður ekki ein við þetta verkefni. Lengi vel var allt drepið í Soginu og lengi vel var hún ein mikilfenglegasta laxveiðiá landsins, um það vitna til dæmis sögur Guðmundar Einarssonar frá Miðdal. Svo var farið að sleppa á sumum svæðum, t.d. Ásgarði (hjá Árna), en menn upplifðu það samt Ásgarðsmegin, að á meðan að menn voru að sleppa lai í Ásgarði var verið að bpmga spún upp að fótum veiðimanna í Ásgarði frá Bíldsfelli og drepa allt sem þar kom á land. En svo var tekið fyrir það. Núna er þetta einfaldlega að verða búið með Sogið.

Og hvers vegna? Nógu slæmt var laxadrápið í ánni sem er viðkvæm inn við beinið, en netaveiðin í Ölfusá er það sem Árni bendir nú á. Soginu var lokað um liðna helgi og Árni skrifaði þetta:

Heimildarmynd í vinnslu um síðasta laxinn í Soginu…
-Fallegt er nú veðrið, áin dásamlega falleg , stærsta ferskvatnsá Íslands tignarleg og voldug og var fyrir löngu síðan ein besta laxveiði á Íslands. Ég sit við árbakkann í heilan eftirmiðdag að kveðja ána og þakka henni fyrir sumarið. Það er síðasti dagur veiðisumarsins 2024. Ég sit við árbakkann við gjöfulan veiðistað … það er nístandi þögn, náttúran er líflaus með öllu …. Það er eins og hönd dauðans sé haldið yfir ánni, ekkert líf ekkert, enginn lax að bylta sér … enginn laxa að para sig .. engin hreyfing … ekkert.
Ég sit við fallegu ána Sog í Árnessýslu, áin er langt langt frá því að vera sjálfbær síðustu 10 árin, það loga öll rauð ljós náttúrunnar, aðvörunarljós, áin er komin að fótum fram af manna völdum. Heildarveiði þessarar virðulegu laxveiðiár er rúmir 100 laxar í sumar sem er langt frá því að viðhalda stofni hennar þótt veiðimenn allir sem einn sameinist um að sleppa hverjum einasta laxi aftur í ána til sinna heimkynna.
Á hverju einasta ári hins vegar drepa netaveiðimenn Ölfusár og Hvítár, sem ekki hafa leigt frá sér réttinn, laxastofn Sogsins undir ógnar sterkri forystu Jörundar Gaukssonar, sem jafnframt er formaður Veiðifélags Árnesinga. Nú er svo komið, þótt það sé kannski ekki við hæfi, að ég verð að óska Jörundi Gaukssyni til hamingju með árangurinn, mission complete, Sogið er farið, Brúará og þverár hennar farnar, þetta eru all rústir einar. Jörundur er með fiskifræðing á sínum snærum, ágætan mann Magnús Jóhannsson, sem hefur gefið uppám Árnesýslu góð ráð svo sem ekki að drepa einn einasta lax, það þarf öllum stangveiddum laxi að vera sleppt til að halda uppi hrygningu í ánum þannig að þær allavegana smá tóri, þá væntanlega til að halda lífi í netaveiðum Jörundar.
Magnús minnist aldrei á veiðistjórnun neta, eða setja kvóta á þessar hömlulausu veiðar sem eru að gera útaf við uppár Árnessýslu… ekkert ekki eitt orð , netavélarnar bara stækka breikka og lengjast. Eftirlitsstofnunin Fiskistofa ….. alveg eins og þeim sé slétt sama um allt þetta hömlulausa kvótalausa laxadráp… af hverju grípur Fiskistofa ekki inn í? Þetta röfl í mér hefur trúlega ekkert að segja … og örugglega of seint að grípa inn í og bjarga þessum Íslensku gersemis ám.
En hvað veldur þessari ótrúlegu þráhyggju og nautn að drepa allan þennan lax sem er á svona miklu undanhaldi, af hverju á himnum ofan verður að drepa hann allan ? Á sama tíma eru greiðslur boðnar til að vernda laxinn, hætta að drepa hann og taka netin upp. Formaðurinn sjálfur Jörundur þvertekur að taka við greiðslum fyrir netaréttinn og hótar að halda áfram að veiða sem aldrei fyrr og hvetur sína menn að nýta veiðirétt sinn til fullnustu og slær vel í klárinn. Laxinn má ekki lifa, trúlega allt of seint að gera eithvað hvort sem er, en eg fann mig knúinn til að skrifa þetta þegar ég kvaddi Sogið í gær ….
Sorglega fisklaust. Jörundur, er ekki komin tími til með að skipta um skoðun áður en síðasti laxinn er drepinn og standa þétt með laxinum, náttúrunni og félagsmönnum þínum … nágrönnum. Ykkur sem er annt um íslenska náttúru endilega látið heyra hátt í ykkur, þetta er bara búið. Myndin er af kvikmyndafólki að búa til heimildarmynd um síðasta lax Sogsins….“