Það er gaman að upplifa það, að loksins eftir öll þessi slöku laxveiðiár komi eitt betra, sumar sem sérfræðingar segja það besta frá 2018. Ekki deilum við á það enda umræddir sérfræðingar á kafi í statistíkinni. En þó að þetta sé besta sumarið síðan 2018, þá er gæðunum samt misskipt og segja má að komið sé nýtt viðmið er tekur á hvort að sumur eru léleg eða frábær.
Margir tala nefnilega um frábært veiðisumar. Miðað við síðustu 4-5 má kannski taka undir það. Og það má kannski líka segja að það eigi ekki alltaf að bera allt saman við gullaldarárin því það geti ekki alltaf verið metveiði. Sú pæling á sannarlega rétt á sér. Ef tölur sem miða við 3.september hjá angling.is, eru skoðaðr þá má spyrja ýmissa spurninga.
Þetta „frábæra“ veiðisumar byggir á því að all margar af þekktari laxveiðiánum hafa bætt vel við sig í veiði. Má nefna Þverá/Kjará, Miðfjarðará, Laxá í Dölum, Langá og einhverjar fleiri, af smærri ánum mætti til dæmis nefna Hrútafjarðará. En af ám sem hafa toppað sig frá í fyrra er Norðurá kannski gott dæmi um nýtt viðmið, 3.september var hún skráð með 1555 laxa og september aldrei góður í henni. Þetta er visssulega flott miðað við skitna 1087 í fyrra. En hafa menn gleymt hvað Norðurá var að gefa reglubundið í góðum árum?Sem sagt nýtt viðmið. En kannski og vonandi stígandi og það verði enn betra næst. Svipaða sögu eru menn að segja um Laxá í Aðaldal. Drottingin hrapaði ár hvert niður í nánast tómarúm. En kom smá til baka í fyrra. Og enn meira til baka í ár. Samt er 3.9 talan hennar 733 laxar á móti 635 í fyrra. Eru menn búnir að gleyma hvað þessi á var að gefa með reglulegum hætti fyrir ekki svo mörgum árum. Enn og aftur nýtt viðmið, en kannski og vonandi bara skref upp á við. Að hlutirnir gerist ekki á einni nóttu.
Og það er fleira. Ár á Vesturlandi eru margar lakari en í fyrra, Haffjarðará, Hítará, Straumfjarðará Leirvogsá, Haukan ekkert sérstök en Laxá í Dölum með jafna og góða veiði. En enn og aftur, nýtt viðmið? .
Ár eins og Stóra Laxá og Blanda eru slakar, aðallega þó Blanda, Stóra alltaf verið rokkandi til og frá, en Blanda heldur áfram á sínum spírali niður. Vonandi fer botninum þar að vera náð og eins og Laxá í Aðaldal, að hún fari nú að mjaka sér til baka.
Rangárþingið er að venju með hæstu einstöku töluna, Ytri var með á þriðja þúsund laxa þann 3.9 en eins lífleg og veiðin hefur verið þar, þá er þetta langt frá stóru sumrunum, enda snýst allt um góðar heimtur gönguseiða og það er alltaf happadrætti. Eystri Rangá, Affall og Þverá í Fljótshlíð súpa nú seiðið af því.
En jú, besta sumarið síðan 2018 og ber að gleðjast og fagna. En þetta er ekki allt saman gúddí þegar nánar er skoðað.