Stóru hængarnir æsast allir þegar nær dregur hrygningu og þá eru þeir allra stærstu oft að gefa á sér annars fágæt færi. Stærsti laxinn úr Þverá/Kjarrá var að veiðast fyrr í dag, 101 cm.
Fram kemur í skilaboðum frá Störum, leigutaka árinnar, að þetta sé sá stærsti úr ánni það sem af er sumri og komi ekki á óvart að loksins gefi sig einn slíkur, því að þeir séu nokkrir á sveimi. Og kæmi ekki á óvart þó að fleiri ginu yfir flugum veiðimanna áður en yfir lýkur. En nú styttist í annan endann, kominn september, Þverá/Kjarrá með fyrstu ánum að opna og því með þeim fyrstu að loka. Á þriðja þúsund laxar hafa komið á land, mikil bót frá fyrri sumrum sem voru þó vel að merkja, afar dauf. Hvað laxinn varðar, þá er fátt um frekari útskýringar með myndinni, en leiðsögumaðurinn er kunnuglegur, gæti verið Sigurjón Ragnar, og baksviðið gæti bent til Klapparhyls og ef rétt er, væri það ekki í fyrsta skipti sem að þeir stóru gæfu sig þar.