Sannkallaður risaurriði veiddist á Staðartorfu í Laxá í Aðaldal nú um helgina. Yfirleitt eru stærstu urriðarnir dregnir í Laxárdal og þótt mergð sé af urriða í ánni fyrir neðan virkjun, þá eru svona kóngar fáséðir.
Það var Guðmundur Helgi Bjarnason sem landaði fiskinum og greindi frá honum í færslu á FB síðu sinni. Hann sagðist vart hafa trúað eigin augum og gott hefði verið að hafa Bjarna Höskuldsson sér við hlið til aðstoða við og staðfesta mælinguna. Sem reyndist vera 80 cm. Téður Bjarni var fyrrum eftirlitsmaður með urriðasvæðinu í Laxárdal. Þar veiðast margir 60-70 cm boltar, en 80 cm er meira að segja sjaldgæf eining í Dalnum, hvað þá niðri á Torfum. Í FB færslunni er hann spurður um áætlaða þyngd höfðingjans, en fiskinum var sleppt og því ekki veginn. Guðmundur giskaði á 12 libs, sem mun vera nærri íslensku tíu pundunum.