Stórir silungar að veiðast víða

Hér er sá st´óri úr Minnivallalæk. Myndin er frá Strengjum.

Margir hafa eðlilega verið uppteknir af mun betri laxveiði þetta árið heldur en síðustu ár. Það er að að sjálfsögðu vel. En þótt liðið sé nokkuð vel á sumarið og haustið á næsta leyti (þó að í margra huga sé það löngu komið) þá ber nokkuð á rígvænum silungum. Skoðum það aðeins.

Minnivallalækur er t.d. frægur fyrir sína stóru urriða og einn slíkur veiddist fyrir skemmstu og annar enn stærri sást á sveimi. Vitnum aðeins í Þröst Elliðason leigutaka árinnar: „Þeir stóru er enn til í Minnivallalæk eins og erlendi veiðimaðurinn Frederik Ruegger komst að raun um nýlega. Eitt kvöldið landaði hann 80 cm urriða og sá stærri líka eins og hann segir hér í skilaboðum. Fiskinn fékk hann á svartan Zonker straumflugu og þann sem var enn stærri, að hans mati um 90 cm, var ofan frá veiðihúsinu séð. Mætti ætla að það hafi verið efst á Húsabreiðu. 

Risableikjan úr Ásgarði. Myndin er frá La-á

Minnivallalækur hefur breyst talsvert í eðli sínu síðustu árin. Því tímabili er lokið að fóðurleifar runnu frá seiðaeldinu á vesturbakkanum út í hylinn og risaurriðar lágu í röðum fyrir neðn rörið og hámuðu þær í sig. Og stækkuðu og stækkuðu. Enn er Stöðvarhylur besti veiðistaður árinnar en eðli hans hefur breyst. Og það hefur komið skemmtilega á óvart að áin fóstrar flottan stofn þar sem einstaklngar verða stórvaxnir þrátt fyrir að lokað hafi verið á matargjöfunum frá seiðaeldinu. Áin hefur reynst algeralega sjálfbær og þótt að 12-20 punda fiskar séu ekki alveg eins algengir og fyrrum, þá er þarna góður stofn af vænum fiski….og einn og einn öldungur í bland eins og nýjasta dæmið sannar.

Stórbleikja Teits úr Eyjafjarðará…

Og talandi um stóra silunga. við höfum pikkað upp tvær myndir af FB síðum, önnur er af sannkallaðri risableikju sem veiddist í vikunni í Ásgarði í Soginu og hin er af Teiti nokkrum Baldurssyni með 65 cm sjóbleikju af svæði 5 í Eyjafjarðará. Seinni myndina fundum við á FB síðu Jóns Gunnars Benjamínssonar sem er öllum hnútum kunnur í Eyjafjarðará. Þá höfum við haft spurnir af veiðimanni sem fer vítt og breytt með Veiðikortið. Hann fór m.a. í Sauðlauksdalsvat og fékk nokkrar fallegar sjóbleikjur. Þar á meðal tvær 5 punda. Og þriðji 5 pundari dagsins hjá honum var staðbundinn urriði. Sami veiðimaður er líka búinn að landa nokkrum 3-4 punda sjóbleikjum í Hraunsfirði og 6 punda bleikju í Úlfljótsvatni. Ekki að spyrja að gildi Veiðikortsins.