Hið fáheyrða er alls ekki fáheyrt

Laxatorfa. Mynd Heimir Óskarsson.

Fregnir af rosalegum laxatökum í ám á borð við Laxá í Dölum, og víðar hafa verið kallaðar fáheyrðar. En það er gott að orð eins og eindæmi hafi ekki verið notuð því það hafði verið rangt.

En höldum okkur við Laxá í Dölum í bili. Rosasögur um að menn setji í 30 laxa í hyl á sömu vakt og landi flestum, og dagsveiðin þar hafi iðulega verið allt að 60 laxar eða meira. Svoleiðis fréttir eru fátíðar og fá blóðið til að ólga, sérstaklega hjá þeim sem geta ekki tekið þátt..

Þetta stafar að þessu sinni af tvennu, að skilyrði í ánni séu frámunalega góð á sama tíma og stærstu göngurnar hafa verið að hreiðra um sig. Og þær eru sterkar þetta árið. Þá er takan snörp. Laxá hefur verið fremur döpur hin síðari ár og reitt sig á haustgöngur sem ekki hafa alltaf skilað sér. Haustgöngurnar hafa stafað að því að áin er oft vatnslítil stóran hluta sumars vegna þess hversu þurrviðrasamt svæðið er. Svo koma haustrigningar og þá hefur verið hefð fyrir því að allt hafi farið af límingunum. Lainn hrúgast inn þaraleginn og lúsugur. Oft en ekki alltaf.

En á áttunda áratugnum þóttu svona moktíðindi ekki tíðindum sæta. Þá var Pepsí Cola með ána á leigu og fyrir haustið fóru Kanarnir heim og létu ána í hendurnar á algjörlum villimönnum. Þá var það  maðkurinn og sögurnar, maður minn. Ein hljóðaði upp á 70 í beit upp úr Drykkjarhyl og svoleiðis var manían orðin að einn veiðimanna, rakk upp hrossahlátur, snéri baki í ána og kastaði blindandi aftur fyrir sig. Og það var lax á. Annar vandaði sig ekki um of og ormurinn lenti upp á stein sem stóð aðeins uppúr. 17 punda hæng lét sig ekki muna um að fára hálfur upp á steininn til að slafra orminn ofan í sig. Þessar litlu frásagnir eru ekki út í bláin og litaðar af tíma, þær sögðu sjálfir veiðimennirnir í eyru VoV. Og fleiri til. Sem betur fer er þetta ekki lengur til og þar sem menn mega taka eitthvað, þá er það lítill kvóti af smáum laxi

Og það var ekki aðeins Laxá í Dölum. Í „maðkahollunum“ var „kvóti“ sem menn voru búnir að tæma fyrir hádegi þótt rúmur væri. Hundruð laxa dregin og drepin og jörðin sviðin á eftir. Svartir blóðflekkir á grösugum bökkunum sem næstu menn urðu að passa sig að setjast ekki ofan á. Svo voru einhver grey að kaupa ódýr veiðileyfi á etfir skuttogurunum.

Og ekki má gleyma Laxá á Ásum þar sem stöngin fór í kannski 80 laxa eða meira á dag og það voru þrír um stöng. Einn veiddi og landaði, næsti losaði af og beitti og þriðji plastaði og bar upp í bíl. Svo gengu menn beyglaðir og skakkir marga daga á eftir, en hættu aldrei að guma af afrekinu. En þetta var tíðarandinn.

En „that was then, this is now“ í dag er mokveiðin á öðrum forsendum, aðeins veitt á flugu og nær öllu ef ekki öllu sleppt. Breytt hugsarfar fer hér með heiminskautum og vonandi að þetta góða sumar verði ekki einstakt eftir eyðimerkurgönguna löngu.