Hrútafjarðará var opnuð í gær og Jökla í morgun. Fyrstu laxarnir veiddust strax í Hrútu, en í gærkvöldi sagði Þröstur Elliðason í samtali við VoV að það liti ekkert sérstaklega vel út með Jöklu, afar mikið vatn og litur af snjóbráð. En við munum heyra betur í Þresti þegar fyrstu vakt er lokið.
Hvað Hrútu varðar sagði Þröstur: „Í gær komu fyrstu laxarnir úr Hrútu og voru það 64 cm hrygna úr Stokk og skömmu síðar 72 cm úr Háeyrarhyl. Báðir á Sunray en mikið vatn er í ánni og lax virðist vera komin upp á efra hluta árinnar nú þegar. Verður spennandi að fylgjast með næstu dögum.“
Þær hafa verið að opna margar síðustu daga, t.d. fór nokkuð vel af stað í Ytri Rangá, 12 þar fyrsta daginn og síðan ágætis reytingur. Vaxandi straumur síðustu daga gæti farið að skila smálaxagöngum. Eystri byrjaði heldur ekki illa, 6 þar fyrsta daginn. Selá opnaði með þremur löxum á fyrsta degi við afar þung skilyrði, vatn þrefalt miðað við það kjörvatn sem menn vonast eftir og smá snjóbráðarlitur. Þar veiddist 97 cm hrygna og það vekur athygli, að tveir af stærstu löxum þessa sumars til þessa voru báðir hrygnur, hinn fiskurinn 100 cm í Kjarrá. Fiskar af þessari stærð eru sem kunnugt er alls ekki algengir í íslenskum ám og oftast eru fiskar í þessum stærðarflokki hængar.
Opnunin í Hrútu var afar keimlík opnunum í fleiri ám á vestanverðu Norðurlandi, eins og Vatnsdalsá, Víðidalsá, Laxá á Ásum og Miðfjarðará. Miikið vatn og þokkalegt kropp. Sums staðar hafa menn haft á orði að laxinn taki grannt og jafnvel alls ekki þó að menn viti af fiski. Þó eru fáir laxar jafn líklegir að taka og þeir sem eru að ganga nýjir í árnar. Erfið skilyrði hafa þar eflaust sitt að segja..