Vond tíðindi af eldislöxum í sumarbyrjun

Seinni eldislaxinn sem veiddist í Fljótaá, magur og hoplaxalegur. Myndina tók Vigfús Orrason, sem er staðarhaldari við Fljótaá og veiddi báða laxana.

Þau tíðindi sem borist hafa að tveir eldislaxar hafi veiðst í Fljótaá í Fljótum nú í byrjun sumars eru ógnvænleg. Það hefur oft og tíðum verið lítil ástundun í vor vegna vonds árferðis, en samt eru eldislaxarnir strax orðnir þrír.

Eftir allt havaríið síðasta sumar þegar áætlaðir 3500 stórlaxar, flestir kynþroska, syntu út í „frelsið“ hjá Arctic Fish fyrir vestan þá eru það vond tíðindi að menn séu að tína þess kvikindi upp í ánum að liðnum vetri. Aðeins tæplega 500 laxar úr sleppingunni heimtust og voru þeir þeir dregnir ansi víða á þurrt, sérstaklega þó á vestan- og norðanverðu landinu. Þá eru ríflega 3000 eldislaxar enn á sveimi og þó svo að eitthvað kunni að hafa drepist í þeim hópi, þá veit enginn neitt um það. Menn vissu þó af eldislöxum víða í ánum í haust, löxum sem tókst ekki að ná og að tveir finnist í Fljótaá að vori er vond frétt. Sérstaklega þar sem annar þeirra, sem veiddist í efsta veiðistað Fljótaár, er grindhoraður, rétt eins og venjulegur hoplax, sem gæfi til kynna að hann hafi hrygnt s.l. haust og lifað veturinn af. Það sýnir fram á ansi mikla lífsseiglu.

Laxar þessir, allir þrír, verða sendir til greiningar til Hafró sem sker úr um uppruna þeirra. Útlitið bendir ekki til annars en að þetta séu hreinræktaðir eldislaxar, en hvort þeir verða raktir til Arnarlax kemur í ljós. Það er nokkuð ljóst að hrygning eldislaxa hefur farið fram í íslenskum ám s.l. haust og vetur. Um umfangið er ekki vitað, en erfðablöndunin er fyrir löng byrjuð. En allt um það, ráðamenn hafa meiri áhuga á skammtímagróða fyrir norska stóriðju heldur en velferð íslenskra laxastofna og íslenskri náttúru. Það stendur hvergi skrifað, en orð (eða ekki orð) og athafnir segja sitt.